Innherji

Metár að baki hjá DHL eftir 30 prósenta tekjuvöxt

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ársverk fóru úr 76 í 112 sem leiddi til frekari fjárfestinga í bílaflota og áhöldum og tækjum
Ársverk fóru úr 76 í 112 sem leiddi til frekari fjárfestinga í bílaflota og áhöldum og tækjum Beata Zawrzel/NurPhoto via Getty Images

Árið 2021 var metár fyrir DHL Express Iceland, sem heldur utan um starfsemi alþjóðlega flutningafyrirtækisins Deutsche Post DHL Group á Íslandi, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins.

Tekjur DHL, sem hafa aldrei verið meiri, námu 3 milljörðum króna, og jukust um 31 prósent á milli ára. Þá var hagnaður flutningafyrirtækisins 121 milljón sem er töluvert meiri hagnaður en félagið hefur skilað á síðustu árum.

„Helstu áskoranir á árinu tengjast þessum vexti en ársverk fóru úr 76 í 112 sem leiddi til frekari fjárfestinga í bílaflota og áhöldum og tækjum,“ segir í skýrslu stjórnar.

Fjárfestingar námu 85 milljónum króna í fyrra samanborið við 36 milljónir á árinu áður og fjölgun starfsmanna hækkaði launakostnað úr 700 milljónum upp í rúmlega 1 milljarð króna.

Vísbendingar um þær ástæður sem búa að baki tekjuvextinum má finna í ársuppgjöri endanlega eigandans, Deutsche Post DHL Group, sem er skráð í kauphöllinni í Frankfurt. Alþjóðlega flutningafyrirtækið á einnig metár að baki eftir 22,5 prósenta tekjuvöxt.

„Eftirspurn eftir flutningalausnum samstæðunnar náði sögulegu hámarki í fyrra og var hún knúin af verulegum vexti í alþjóðlegum viðskiptum og netverslun,“ sagði í uppgjörstilkynningu flutningafyrirtækisins frá því í vor.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×