Innherji

Aldrei minni vanskil í lánasafni Landsbankans

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. 
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.  Stöð 2/Sigurjón

Vanskil viðskiptavina Landsbankans hafa farið lækkandi frá því í lok árs 2019 og hafa aldrei verið lægri en þau voru um mitt þetta ár. Þetta kemur fram uppgjörskynningu bankans.

Svokölluð vandræðalán, flokkur sem nær bæði yfir lán sem hafa verið í vanskilum í meira en 90 daga og önnur lán í áhættustigi 3, námu 2,1 prósenti af lánasafni bankans í lok árs 2019. Hlutfallið var komið niður í 1,7 prósent í lok árs 2021 og hefur haldið áfram að lækka á þessu ári. Það stendur nú í 1,6 prósentum.

„Vinsældir óverðtryggðra lána halda áfram að aukast á sama tíma og vanskilahlutföll hafa aldrei verið lægri,“ segir í uppgjörskynningu bankans. Þá er jafnframt haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að almennt sé staða lántaka „mjög góð og lítið um vanskil.“

Í fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands frá því í júní kom fram að útlánagæði hefðu almennt aukist og vanskil minnkað. „Þær aðgerðir sem Seðlabankinn og stjórnvöld gripu til í farsóttinni skiluðu árangri og drógu úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum á heimili og atvinnulíf í landinu,“ sagði í fundargerðinni og voru nefndarmenn sammála um að bankakerfið stæði traustum fótum.

Veruleg ósókn hefur verið í óverðtryggð íbúðalán á föstum vöxtum samhliða vaxtandi verðbólgu og hækkandi vaxtastigi. Á einu og hálfu ári, þ.e. frá árslokum 2020, hefur þetta lánaform farið úr því að vera 12 prósent af íbúðalánasafni Landsbankans og upp í 42 prósent.

Á sama tíma hefur vægi óverðtryggðra íbúða lána með breytilegum vöxtum minnkað úr 49 prósentum í 33 prósent og vægi verðtryggðra lána með breytilegum vöxtum minnkað úr 32 prósentum í 20 prósent.

Tölur Seðlabanka Íslands varpa einnig ljósi á tilfærsluna úr breytilegum vöxtum yfir í fasta í bankakerfinu í heild sinni. Óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum voru 34 prósent af öllum íbúðalánum í maí 2021 en lán með föstum vöxtum 15 prósent. Vægi hvors lánaforms stendur nú í 28 prósentum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.