Neytendur

Eina lausnin að borga auka­lega til að sitja með börnum sínum

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Anna Gunndís Guðmundsdóttir gagnrýnir Icelandair harðlega.
Anna Gunndís Guðmundsdóttir gagnrýnir Icelandair harðlega. Vísir/Vilhelm

Anna Gunndís Guðmundsdóttir gagnrýnir Icelandair harðlega fyrir viðmót gagnvart henni nú nýverið þegar hún keypti flugmiða fyrir sig og börnin sín til Kaupmannahafnar. Upplýsingafulltrúi Icelandair segir sveigjanleikann ekki jafn mikinn með litlum fyrirvara.

Í skoðanagrein sem birtist á Vísi fyrr í dag segir Anna frá raunum sínum en þegar hún keypti flugmiða til Kaupmannahafnar, þá kom á daginn að hún þyrfti að borga aukalega til þess að hún og börnin hennar gætu setið saman. Anna segist hafa bókað með litlum fyrirvara. 

Vegna þess hve full vélin var voru einu sætin sem voru laus saman framarlega og hefði Anna þurft að borga 8.400 krónur ofan á 173.305 króna fargjald.

Anna segist hafa trúað því að starfsfólk Icelandair gæti leyst málið, en svo var ekki. Hún segir starfsmann Icelandair hafa svarað henni á þá leið að það eina sem hún gæti gert til þess að sitja með börnum sínum væri að borga fyrir sætin.

Í skriflegu svari til fréttastofu segir upplýsingafulltrúi Icelandair, Ásdís Ýr Pétursdóttir að mikil eftirspurn hafi verið til Kaupmannahafnar og nánast allar vélar fullar að undanförnu. „Með góðum fyrirvara er hægt að fá flug á góðu verði og gott úrval sæta en með svo stuttum fyrirvara, þegar vélar eru nánast orðnar fullar, hækka verðin og sveigjanleikinn er ekki jafn mikill. Hins vegar er starfsfólk okkar um borð boðið og búið að leysa málin fyrir farþega þegar um borð er komið og gengur það yfirleitt mjög vel,“ segir Ásdís.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.