Innherji

Hætta á launaskriði hefur aukist, segir peningastefnunefnd Seðlabankans

Hörður Ægisson skrifar
Gylfi Zoega vildi hækka vexti Seðlabankans um 1,25 prósentur á fundi peningastefnunefndar í liðnum mánuði.
Gylfi Zoega vildi hækka vexti Seðlabankans um 1,25 prósentur á fundi peningastefnunefndar í liðnum mánuði.

Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, Gylfi Zoega hagfræðiprófessor, vildi hækka meginvexti bankans um 1,25 prósentur – úr 3,75 prósentum í 5 prósent – á vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar í síðasta mánuði. Niðurstaðan var hins vegar sú, sem allir nefndarmenn studdu, að vextir voru hækkaðir um 1 prósentu að tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra.

Þetta kemur fram í nýbirtri fundargerð peningastefnunefndar en þar segir að helstu rökin fyrir því að hækka þyrfti vexti enn frekar – þeir hafa núna hækkað úr 0,75 prósentum í 4,75 prósent á um einu ári – væru þau að raunvextir hefðu lækkað áfram þrátt fyrir hækkun meginvaxta upp á 100 punkta í maí og væru verulega neikvæðir.

„Þeir væru jafnframt langt undir jafnvægisraunvöxtum og væri stuðningur peningastefnunnar við þjóðarbúskapinn því enn töluverður. Nauðsynlegt væri að draga úr þeim stuðningi með frekari hækkun nafnvaxta en lækkun verðbólguvæntinga myndi einnig hafa áhrif á raunvaxtastigið,“ segir í fundargerðinni.

Verðbólga, sem mælist núna 8,8 prósent, og verðbólguvæntingar hafa hækkað mikið á síðustu mánuðum.

Nefndarmenn lögðu á það mikla áherslu að sú hækkun sem hefur orðið á verðbólguvæntingum – kannanir sýna að bæði stjórnendur fyrirtækja og heimili eiga von á því að verðbólgan verði fimm prósent eftir tvö ár – væri „mikið áhyggjuefni.“ Hækkun vaxta myndi hins vegar stuðla að því að verðbólga og verðbólguvæntingar færðust nær 2,5 prósenta markmiði bankans á ný.

Þá var bent á að þróttur innlendra umsvifa endurspeglist í mikilli eftirspurn eftir húsnæði og hækkun húsnæðisverðs – síðustu tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 24 prósent – sem „næði stöðugt nýjum hæðum“ sérstaklega þar sem það tæki nokkurn tíma fyrir framboð húsnæðis að bregðast við. Nefndin sagði einnig að verðbólguhorfur væru slæmar og útlit fyrir að verðbólga á næstunni yrði meiri en nefndin hafði gert ráð fyrir í maí.

Peningastefnunefndin sagðist hafa áhyggjur af því að talsverð spenna væri á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi hefði minnkað, störfum fjölgaði hratt og skortur á starfsfólki aukist. Hlutfall stjórnenda sem segja fyrirtæki sitt skorta starfsfólk er komið yfir helming sem er nánast hið sama og hæsta gildi sem áður hefur mælst árið 2007.

Bent var á að svo virtist sem erfiðara gæti orðið að mæta þessum skorti með innfluttu vinnuafli en áður fyrr og „hætta á launaskriði hefði því aukist,“ að mati peningastefnunefndarinnar. Í maí á þessu ári hafði launavísitalan hækkað um 8,6 prósent á síðustu tólf mánuðum en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu losna í nóvember næstkomandi.

Þá ræddi nefndin einnig beitingu annarra stjórntækja í peningamálum. Fram kom að skoða þyrfti frekar „stjórntæki til stýringar á lausu fé í umferð sem nota mætti meðal annars til þess að stýfa gjaldeyrisinngrip bankans þegar svo ber undir,“ segir í fundargerðinni.


Tengdar fréttir

Vísir að bólu á íbúðamarkaði og vaxandi líkur á leiðréttingu

Það var mat fjármálastöðugleikanefndar að vísir að eignabólu á íbúðamarkaði geti verið til staðar og hafa aukist líkur á stöðnun eða leiðréttingu raunverðs íbúða. Þetta kom fram í fundargerð fjármálastöðugleika frá síðasta fundi nefndarinnar um miðjan júní.  

„Hægt að treysta því að verðbólga verður ekki viðvarandi hér“

Skörp vaxtahækkun var nauðsynleg til að ná tökum á verðbólgunni að sögn seðlabankastjóra en stýrvextir voru í dag hækkaðir um eitt prósentustig. Með þessu séu einnig send skýr skilaboð inn í komandi kjaraviðræður um að verðbólga verði ekki viðvarandi hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×