Neytendur

Vill sjá heimild til að lengja í lánum til að létta greiðslu­byrðina

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vilhjálmur telur að banna eigi verðtryggð lán.
Vilhjálmur telur að banna eigi verðtryggð lán. Vísir/Vilhelm

Formaður Starfsgreinasambandsins segir að heimild þurfi til að lengja í óverðtryggðum lánum til að létta greiðslubyrði þeirra í upphafi lánstímans. Óverðtryggðum lánum fjölgaði mikið í faraldrinum, en greiðslubyrði hefur aukist vegna vaxtahækkana að undanförnu.

Í Hagsjá Landsbankans í dag er greint frá því að síðan stýrivextir tóku að lækka skömmu fyrir kórónuveirufaraldurinn árið 2019 hafi óverðtryggðum lánum fjölgað mikið. Greiðslubyrði slíkra lána hafi síðan hækkað eftir að vextir fóru að hækka á ný. Þannig hafi afborganir af 40 milljón króna óverðtryggðu láni sem tekið var þegar vextir voru lægstir nú hækkað um 98.000 krónur á mánuði. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að bregðast þurfi við, en hann hefur meiri áhyggjur af verðtryggðu lánunum og vill raunar láta banna þau.

„Það sem bankakerfið og stjórnvöld eiga hins vegar að gera, er að veita fyrstu kaupendum óverðtryggð lán til lengri tíma heldur en 40 ára, til dæmis 50, 60 eða 70 ára. Til þess að létta greiðslubyrðina í upphafi, og síðan er hægt að stytta lánstímann eftir að greiðslugeta viðkomandi einstaklings eykst,“ segir Vilhjálmur.

Reikna megi með að vextir lækki aftur þegar böndum hafi verið komið á verðbólguna. Það væri jákvætt að sjá aukningu í óverðtryggðum lánum.

„Fólk hefur sagt við mig að það rak bara upp stór augu þegar það áttaði sig á því að lánið þeirra byrjaði að lækka.“

Rekja megi meirihluta verðbólgu síðustu fimmtán ára til umframeftirspurnar á húsnæðismarkaði.

„Ég er hræddur um að stjórnvöld, Seðlabankinn og fleiri aðilar væru aldeilis búnir að djöflast á verkalýðshreyfingunni ef það væri hægt að benda á hana og segja: „Þið berið ábyrgð á 50 prósent af verðbólgu síðustu 15 ára“, eins og hægt er að gera með fasteignaliðinn,“ segir Vilhjálmur.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.