Margir hafa til dæmis vanið sig á að kíkja alltaf á símann um leið og þeir vakna á morgnana og þó á það einnig við hjá mörgum að kíkja á símann aðeins nokkrum mínútum fyrir svefninn.
Á ferðarlögum erum við líka oft með upplýsingar um ferðina, flugmiða og fleira í símanum. Það getur því verið freistandi að lesa vinnupósta eða skrolla yfir helsta spjall samstarfsfélaga á til dæmis TEAMS.
Samt vitum við að langbestu fríin okkar eru þau frí, þar sem við náum að kúpla okkur vel frá vinnu á meðan við erum í fríi.
Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað.
1. Undirbúningurinn: Láttu vita um fyrirhugað frí
Áður en þú ferð í frí er gott að láta samstarfsfólk og/eða viðskiptavini eða birgja vita að þú sért að fara í frí.
Ekki bíða með þetta og láta það aðeins nægja að vera með Out of office tilkynningu þegar þú ert komin/n í frí.
Með því að gera þetta, eru minni líkur á að fólk hafi samband við þig vegna vinnunnar, á meðan þú ert í fríi.
2. Veldu rétta tímann fyrir fríið þitt (ef þú getur)
Oft eru sumarfrí ákveðin í kringum lokanir leikskóla- eða skólafrí barna.
Bestu fríin eru hins vegar tímasett á rólegum tíma í vinnunni því þá eru minni líkur á að það þurfi að hafa samband við þig á meðan þú ert í fríi.
Þannig að ef þú getur valið tímasetningu fría í samræmi við það hvað hentar best fyrir þig verkefnalega séð, er tilvalið að nýta sér það því þannig eykur þú líkurnar á geta kúplað þig frá vinnunni.
3. Styttri frí stundum raunhæfari
Að fara í tveggja vikna frí með fjölskyldunni og kúpla sig alveg frá vinnu, er ekkert alltaf raunhæfur kostur. Sérstaklega ef sumarfríið byggir á skólalokunum barnanna sem þó getur verið á frekar annasömum tíma í vinnunni.
Til að ná góðu fjölskyldufríi þar sem foreldrar ná að kúpla sig frá vinnu, gæti verið raunhæfari markmið að fara í styttri frí eða ferðir þar sem fólk setur sér þá markmið um að kúpla sig frá vinnu á meðan fjölskyldan er í fríi eða á ferðarlagi. Útilegur um helgar geta hentað vel.
4. Slökktu tímabundið á tilkynningum
Mjög gott ráð og einfalt er að slökkva á tilkynningum á símanum þínum á meðan þú ert í fríinu.
5. Settu þér tímamörk fyrir netnotkun
Ef þér finnst algjörlega ómögulegt að kíkja ekki á einhver vinnutengd mál í símanum þínum á meðan þú ert í fríi, getur verið góð millileið að setja sér tímamörk og tímasetningar hvenær þessi „skoðun“ er leyfileg.
Besta aðhaldið getur síðan falist í því að láta maka og börn vita af þessum markmiðum þínum og auka þannig líkurnar á að standa við tímamörkin sem þú settir þér.
Fleiri ráð til að aftengja sig frá vinnu í sumarfríum, má lesa um HÉR.