Umræðan

Hlauptu hratt í rétta átt

Björgvin Ingi Ólafsson skrifar

Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara þá skiptir ekki máli hvaða leið þú velur. Þá skiptir heldur ekki máli hversu hratt þú ferð.

Ég mun seint þreytast á því að stefnumótun skiptir gríðarlegu máli. Stjórnendur þurfa að þekkja í þaula hvar fyrirtæki starfa, hvernig þau gera það og af hverju þetta allt saman ætti að stuðla að árangri.

Eins og ég hef skrifað um áður þá á stefnumótun að snúast um hvernig á að takast á við krítísku atriðin. Strategíusmíðin krefst undirbúnings, rannsókna og greininga og svo taktískra áætlana, mælikvarða og aðgerða. Ef vel tekst til og hin vel ígrundaða stefnumótun verður að samhangandi heild þá mun hún hafa alvöru áhrif á rekstur og árangur fyrirtækisins.

Góðir leiðtogar leiða fyrirtæki og grípa til aðgerða á grundvelli undirbúnings, rannsókna og greininga í formi skipulagðrar stefnumótunar.

Hún hefur þó lítið að segja ef stjórnendur láta ekki verkin tala og framkvæma ekki þær taktísku aðgerðir, stefnumarkandi breytingar og áherslur sem munu auka líkur á sigri í samkeppninni. Það þarf að láta verkin tala. Hún er brúin milli metnaðar, markmiða og árangurs. Strategían klikkar nefnilega þegar framkvæmdin fer út um þúfur.

1) Þekktu þitt

Það er aldrei vit í því að hlaupa strax af stað. Góðir leiðtogar leiða fyrirtæki og grípa til aðgerða á grundvelli undirbúnings, rannsókna og greininga í formi skipulagðrar stefnumótunar. Það þarf að vera ljóst að hverju er stefnt og þá verður til gagnadrifið safn aðgerða, sett saman út frá heildstæðum vel skilgreindum markmiðum.

2) Ískalt raunsæi

Lífið er hvorki alltaf eins og við viljum, né þróast það alltaf með þeim hætti sem við viljum. Afneitun er ekki leið til athafna. Þó erfitt sé að horfast í augu við erfiðan veruleika þá er það forsenda breytinga. Framkvæmdadrifni leiðtoginn horfist í augu við veruleikann og gerir sömu kröfu til annarra. Þannig er tekist á við það sem takast þarf á við.

3) Fátt í forgangi

Ef þú ert með tíu forgangsmál þá ertu ekki með nein forgangsmál. Þú ert bara með verkefni. Settu fá og skýr markmið og fylgdu þeim yfir marklínuna. Legðu líka áherslu á hvað þú ætlar ekki að gera og af hverju ekki. Það skerpir á áherslum og hjálpar til við að halda fókus.

4) Þrautseigja

Það þýðir ekkert að gefast upp þó á móti blási, það verður að fylgja málum alla leið. Byggðu upp verklag þar sem verkefnum er ekki bara fylgt úr hlaði heldur tekin föstum tökum allt til enda. Fólk þarf bæði að lýsa yfir eignarhaldi á vandmálinu og lausninni.

Þegar allt kemur til alls þá reiðir framkvæmdadrifinn fyrirtækjabragur sig á að réttu hlutirnir gerist hratt og stjórnendur og starfsfólk stefni saman í rétta átt.

Mikilvægt er að passa upp á að stjórnendahópurinn sé bæði með fólkið sem fær frábærar hugmyndir og ýtir þeim úr vör, en þar sé líka að finna jarðýturnar sem tryggja að góðar hugmyndir verði að veruleika (en fá kannski ekki margar frumlegar hugmyndir).

5) Verðlaunum markaskorara

Þetta þarf ekki að vera flókið. Fólk þarf að njóta þess þegar það nær árangri. Verðlaunum þau sem gera það sem þarf að gera, hvort sem það er klapp á bakið, launabónus eða annað . Við þurfum að passa upp á að raunhæft sé að árangur náist með því að passa upp á að við séum að búa starfsfólki aðstæður þar sem það er líklegt til að ná árangri, t.d. byggt á því að fólk búið yfir réttri hæfni, fái rétta þjálfun og sé í réttum störfum.

6) Fletjum út færnina

Þjálfum fólk, gefum því tækifæri og tryggjum að samskiptin stuðli að því að það að láta verkin tala. Öll þurfa að vita hvert er stefnt og stefna svo þangað saman. Stóru markmiðin þurfa að vera það skýr að fólk tengi þau við sín daglegu störf og skilji hlutverk þess í að ná þeim.

7) Stefna, menning, framkvæmd

Segjum skýrt hvert við erum að fara. Mundu að ef þú getur ekki útskýrt leiðina og áfangastaðinn með einföldum hætti þá getur fólkið þitt það ekki heldur.

Fáðu hópinn með í að velja leiðina. Styddu þau sem leiða liðið til árangurs. Þannig verður til stefnu- og framkvæmdadrifin breyting á fyrirtækjamenningu. Við höfum saman breytt því sem fólk trúir og því sem það leggur áherslu á í sínum störfum.

Þegar allt kemur til alls þá reiðir framkvæmdadrifinn fyrirtækjabragur sig á að réttu hlutirnir gerist hratt og stjórnendur og starfsfólk stefni saman í rétta átt. Áttin er byggð á vel ígrundaðri stefnu og innviðum sem gera árangurinn ekki bara mögulega heldur líka líklegan.

Sem leiðtogi er krafan til þín að hlaupa eins hratt og kostur er í mark. Þú þarft að þekkja stöðu fyrirtækisins, setja örfá forgangsmál á oddinn, vita hvar þarf að bæta í og hvað þarf að fá að sitja á hakanum.

Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×