Umræðan

Verðhækkanir keppinauta og samkeppnislög

Peter Dalmay skrifar

Á undanförnum mánuðum hefur átt sér stað töluverð umræða um verðhækkanir hér á landi á ýmsum vörutegundum, svo sem á dagvörum, eldsneyti og byggingarefni. Í þessu sambandi hefur Samkeppniseftirlitið nýlega gefið það út að til skoðunar sé hjá stofnuninni hvort greina megi brot gegn samkeppnislögum í þeim verðhækkunum, einkum á svokölluðum fákeppnismörkuðum, þar sem fyrir hendi er mikið gagnsæi og fáir keppinautar. Af gefnu tilefni verður því í eftirfarandi umfjöllun farið stuttlega yfir hvað keppinautar mega og mega ekki gera í samkeppnisréttarlegu tilliti samkvæmt núgildandi lagaramma þegar kemur að ákvarðanatöku um verðhækkanir.

Sjálfstæði keppinauta á markaði

Í samkeppnislögum nr. 44/2005 er lagt bann við öllum samningum, samþykktum og svokölluðum samstilltum aðgerðum á milli fyrirtækja sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni er raskað. Með samstilltum aðgerðum er í þessu sambandi átt við þá aðstöðu þegar tvö eða fleiri fyrirtæki samræma aðgerðir sínar án þess þó að eiginlegur samningur sé gerður þar um.

Samkeppnislögin taka ekki til einhliða aðgerða fyrirtækja heldur einungis til þess þegar tvö eða fleiri fyrirtæki hafa beinlínis gert með sér samning eða átt í einhvers konar samstarfi sem leiðir til röskunar á samkeppni.

Samkeppnislögunum er þannig ætlað að tryggja að keppinautar hegði sér með sjálfstæðum hætti á markaði og taki sjálfstæðar ákvarðanir. Það er ljóst að allar verðákvarðanir, þar á meðal um verðhækkanir, eru mikilvægur þáttur í virkri samkeppni á markaði, sem fyrirtækjum ber að móta sjálfstætt. Samkeppnislögin leggja af þessum sökum eðlilega bann við hvers konar beinum og óbeinum samskiptum milli keppinauta sem draga úr óvissu fyrirtækja um hegðun keppinauta þeirra hvað slíkar verðákvarðanir varða með þeim afleiðingum að samkeppni er raskað.

Einhliða aðgerðir

Af framangreindu leiðir að samkeppnislögin taka til hverskonar samkeppnishamlandi samstarfs milli fyrirtækja. Lögin taka þannig ekki til einhliða aðgerða þeirra heldur einungis til þess þegar tvö eða fleiri fyrirtæki hafa beinlínis gert með sér samning eða átt í einhvers konar samstarfi sem leiðir til röskunar á samkeppni. Það er því grundvallarskilyrði í þessu sambandi að einhverjar aðgerðir hafi raunverulega átt sér stað og nauðsynlegt að lagður hafi verið grunnur að slíkum aðgerðum til að koma samhæfingunni til framkvæmda.

Í samkeppnislögum er ekki lagt bann við því að fyrirtæki fylgist grannt með hegðun keppinauta sinna, þar á meðal verðbreytingum þeirra, og taki mið af háttsemi þeirra við töku eigin viðskiptaákvarðana. Fyrirtækjum er enda ómögulegt að starfa óháð umhverfi sínu og móta framtíðarstefnu sína í tómarúmi án þess að taka tillit til eigin stöðu á markaði sem og markaðsstöðu helstu keppinauta sinna.

Í samkeppnislögum er ekki lagt bann við því að fyrirtæki fylgist grannt með hegðun keppinauta sinna, þar á meðal verðbreytingum þeirra, og taki mið af háttsemi þeirra við töku eigin viðskiptaákvarðana.

Þá ber að nefna að ekki er sjálfgefið að allt samstarf á milli fyrirtækja sé sjálfkrafa ólögmætt. Samstarf keppinauta þarf þannig annaðhvort að hafa beinlínis að markmiði að raska samkeppni eða hafa þau áhrif í för með sér að raska samkeppni á markaði.

Fákeppnismarkaðir

Líkt og að framan greinir þá felst í eðli heilbrigðrar samkeppni að fyrirtæki fylgjast grannt með hegðun keppinauta sinna og taka mið af háttsemi þeirra við ákvarðanatöku um eigin rekstraráform og verðlagningu. Þetta er ekki síst svo á fákeppnismörkuðum þar sem fáir keppinautar hafa samanlagt meginhluta markaðshlutdeildar, en á slíkum mörkuðum er óhjákvæmilegt að fyrirtæki taki mið af því að þau séu háð keppinautum sínum.

Samhliða hegðun keppinauta leiðir ein og sér ekki til þess að samstilltar aðgerðir hafi verið viðhafðar í skilningi samkeppnislaga. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtæki á fákeppnismörkuðum aðlagi sig með skynsamlegum hætti að háttsemi keppinauta sinna, hvort sem slík háttsemi lýtur að verðhækkunum, verðlækkunum eða annars konar verðákvörðunum. Sem endranær þurfa fyrirtæki á slíkum mörkuðum þó að varast þess að eiga í beinum eða óbeinum samskiptum við keppinauta sína hvað slíkar verðákvarðanir varða.

Höfundur er lögmaður á Mörkinni lögmannsstofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×