Klinkið

Birna Ósk í stjórn vísisjóðsins Eyris Vaxtar

Ritstjórn Innherja skrifar
Birna Ósk Einarsdóttir hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri hjá Icelandair, Landsvirkjun og Símanum.
Birna Ósk Einarsdóttir hefur meðal annars verið framkvæmdastjóri hjá Icelandair, Landsvirkjun og Símanum. skjáskot

Birna Ósk Einarsdóttir, sem tók í ársbyrjun við starfi í framkvæmdastjórn hjá APM í Hollandi, dótturfélagi flutningafyrirtækisins Maersk, hefur verið kjörin ný í stjórn Eyris Vaxtar sem er sex milljarða vísisjóður sem var komið á fót í fyrra.

Birna Ósk var áður framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair á árunum 2018 til 2021 auk þess að hafa gegnt stjórnendastöðum hjá meðal annars Landsvirkjun og Símanum. Þá var hún einnig um árabil stjórnarmaður hjá Skeljungi og upplýsingatæknifyrirtækinu Já.

Eyrir Vöxtur er ESG-sjóður, sem er meðal annars fjármagnaður af fjárfestingafélaginu Eyri Invest, lífeyrissjóðum og tryggingafélgöum, sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum sem eru komin af frumstigi og horfa til þess að vaxa hratt alþjóðlega. Eyrir Vöxtur, ásamt einnig sjóðnum Eyrir Sprotar, er rekinn af félaginu Eyrir Venture Management sem er hundrað prósent í eigu Eyris Invest.

Á meðal fjárfestingaeigna félagsins er um níu prósenta hlutur í íslenska hátæknifyrirtækinu Carbon Recycling (CRI), sem vinnur metanól úr kolvísýringi, sem Eyrir fjárfesti í fyrir um 1.300 milljónir króna í fyrra. Samtals var Eyrir Venture Management með eignir í stýringu upp á um 115 milljónir evra í árslok 2021, jafnvirði um 16 milljarða króna á núverandi gengi.

Aðrir sem sitja í stjórn Eyris Vaxtar er Þórður Magnússon, sem er jafnframt stjórnarformaður og annar aðaleigenda Eyris Invest ásamt syni sínum Árna Oddi, forstjóra Marels, Ingvar Pétursson og Sigurlína Ingvarsdóttir.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, sem var áður meðal annars stjórnandi hjá Landsvirkjun og CCP, hefur verið framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar frá árinu 2020.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×