Innherji

Skjálftavirkni hafði veruleg áhrif á afkomu Matorku

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Laxfiskaeldi Matorku í Grindavík
Laxfiskaeldi Matorku í Grindavík Matorka

Matorka, sem framleiðir laxfiska í landeldi, tapaði 8,4 milljónum evra, jafnvirði 1.160 milljóna króna á síðasta ári en til samanburðar nam tap félagsins 1,1 milljón evra á árinu 2020.

Í nýbirtum ársreikningi eldisfyrirtækisins kemur fram að mikil dauðsföll hafi átt sér stað í fyrra og að þau megi aðallega rekja til áhrifa af Covid-19 og skjálftavirkni á Reykjanesskaganum. Leiddi það til þess að starfsemin skilaði neikvæðri EBITDA á árinu eða 6,4 milljónum evra.

„Sala og markaðir tóku við sér á árinu en framleiðslan takmarkaðist af hárri dánartíðni,“ segir í skýrslu stjórnar.

Þrátt fyrir þessar áskoranir var lokaniðurstaðan sú að Matorka sýndi vöxt í framleiðslu og sölu á milli 2020 og 2021. Tekjur fyrirtækisins námu 6,5 milljónum evra, um 900 milljónum króna, og jukust um 21 prósent frá fyrra ári.

Framtakssjóðurinn Freyja, sem rekinn er af Kviku eignastýringu, keypti rúmlega 15 prósenta eignarhlut í Matorku vorið 2021 og varð í kjölfar viðskiptanna þriðji stærsti hluthafi félagsins. stærsti hluthafinn er hollenski sjóðurinn Aqua Spark, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í sjálfbæru fiskeldi, og næststærstur er svissneska eignarhaldsfélagið Matorka Holding AG.

Þá eru þrjú innlend fjárfestingafélög á lista yfir tíu stærstu hluthafa Matorku en það eru félög á vegum Bjarna Kristjáns Þorvarðarsonar, Gnitanes, sem er í eigu hjónanna Ingimundar Sveinssonar arkitekts og Sigríðar Arnbjarnardóttur, auk þriggja barna þeirra og P 126 ehf., félag Einars Sveinssonar fjárfestis.

Matorka er með eldisstöðvar í Grindavík, seiðaeldi að Fellsmúla í Landsveit á Suðurlandi og jafnframt fiskvinnsluhús í Grindavík sem sinnir flökun, frystingu og pökkun. Nýlega lauk félagið við byggingu nýrrar eldisstöðvar við Grindavík sem getur framleitt allt að 3.000 tonn árlega af ræktuðum fisk.

Þá var nýr forstjóri, Christo du Plessis, ráðinn í apríl síðastliðnum. Hann var fjármálastjóri stærstu landeldisstöðvar Suður-Afríku um tólf ára skeið og síðan hjá stjórnandi hjá Kingfish Company í Hollandi sem er í sama bransa. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.