Umræðan

Hver kynslóð fær sitt

Árni Guðmundsson, Guðmundur Þ. Þórhallsson og Benedikt Jóhannesson skrifa

Í grein sem birtist í morgun hjá Innherja á Vísi.is gætir mikils misskilnings um eðli þeirra breytinga sem gerðar voru á samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Gildis lífeyrissjóðs. Vitnað er til Bjarna Guðmundssonar tryggingstærðfræðings sem telur að með „fordæmalausum“ umreikningi lífeyrisréttinda sé brotið „gróflega á eignarrétti yngri sjóðfélaga.“ Það er ekki rétt því breytingarnar sem gerðar voru stuðla þvert á móti að jafnræði milli sjóðfélaga og komu í veg fyrir stórfelldan og óréttlátan tilflutning verðmæta frá eldri sjóðfélögum og lífeyrisþegum til þeirra sem yngri eru, þvert á þá niðurstöðu nýrra lífslíkna að þeir yngstu muni verða langlífari.

Afleiðingar nýrra lífslíkutaflna

Nýjar lífslíkur leiða það af sér að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða versnar um nálægt 10% að jafnaði. Breytingin er mismikil eftir árgöngum. Hjá þeim sem eru á eftirlaunum er breytingin lítil, en allt að 15% hjá yngstu árgöngunum. Til þess að skýra áhrifin getum við tekið lífeyrissjóð sem samkvæmt fyrri lífslíkum var í jafnvægi. Eftir að nýju lífslíkurnar voru teknar upp vantar 10% upp á að hann standi við skuldbindingar sínar og hann þarf að bregðast við. Segjum að farin væri sú leið að lækka réttindi til mánaðarlegra greiðslna jafnt, eða um 10%, eins og Bjarni virðist leggja til í grein Innherja í morgun. Þá yrðu greiðslur til lífeyrisþega lækkaðar um 10% strax, jafnvel þótt ævi þeirra lengist samkvæmt nýju töflunum sáralítið eða ekkert. Það væri því verið að færa fjármuni frá lífeyrisþegum og eldri kynslóðum til þeirra yngri, þvert á niðurstöður nýrra taflna.

Aðferðin sem lífeyrissjóðirnir tveir samþykktu að beita felst aftur á móti í því að sérhver árgangur heldur sömu fjármunum og honum voru reiknaðir samkvæmt fyrri lífslíkum, en vegna þess að ævin lengist miðað við spána þá leiðir það til minni mánaðarlegs lífeyris en nú. Engin verðmæti eru færð til og sérhver kynslóð greiðir fyrir sín eftirlaun, rétt eins og miðað hefur verið við í núverandi kerfi. 

Breytingarnar sem gerðar voru stuðla þvert á móti að jafnræði milli sjóðfélaga og komu í veg fyrir stórfelldan og óréttlátan tilflutning verðmæta frá eldri sjóðfélögum og lífeyrisþegum til þeirra sem yngri eru.

Sjóðfélagar þekkja þessa hugsun. Nú þegar gildir það í lífeyrissjóðunum að ef taka lífeyris hefst fyrir 67 ára aldur þá verða mánaðarlegar greiðslur lægri en ella, en velji sjóðfélagi að hefja töku lífeyris síðar eru greiðslurnar hærri. Engum dettur í hug að verið sé að ívilna eða skerða lífeyri með þessu móti, aðeins er verið að dreifa greiðslum á mislangan tíma. Jafnframt miða réttindatöflur lífeyrissjóðanna við það að þeir yngstu fái mest réttindi fyrir greitt iðgjald sem eðlilegt er, því að eftir því sem lengra er í töku ellilífeyris þeim mun lengur er hægt að ávaxta iðgjaldið.

Enginn flutningur milli kynslóða

Aðlöguninni sem lífeyrissjóðirnir beittu er skipt í tvennt: Annars vegar sá umreikningur réttinda til mánaðarlegra greiðslna sem að ofan er getið. Þar var þess gætt að færa ekki verðmæti milli kynslóða. Hins vegar leyfði góð staða sjóðanna hækkun réttinda sem dreift er jafnt til allra sjóðfélaga. Þetta seinna skref er afleiðing af góðri ávöxtun undanfarin ár og var alls ekki sjálfgefið fyrirfram að slíkt væri hægt.

Við breytingarnar, sem sjóðirnir tveir samþykktu nú í vor á ársfundum sínum, er vissulega í fyrsta sinn gripið til mótvægisaðgerða sem koma með mismunandi hætti við sjóðfélaga eftir fæðingarári. Skýringin er sú að aldrei áður hafa orðið hliðstæðar breytingar á lífslíkutöflum, breytingar sem gera beinlínis ráð fyrir því að þeir verði eldri sem fæðast síðar. Því var afar mikilvægt að grípa til aðgerða sem ekki færðu til fjármuni milli kynslóða. Fáir munu telja að þeir sem nú njóta lífeyris séu ofaldir og að eðlilegt sé að færa fjármuni frá þeim til yngri sjóðfélaga.

Sanngirni í fyrirrúmi

Því fer fjarri að tillögur stjórnar sjóðanna til breytinga byggi á geðþóttaákvörðun. Þvert á móti var fylgt þeim sjónarmiðum að byggt skyldi á lagaheimild, málefnalegum sjónarmiðum, jafnræði milli sjóðfélaga og meðalhófi. Öll þessi skilyrði eru uppfyllt með þeim mótvægisaðgerðum sem sjóðirnir gripu til. Það eru stór orð að saka sjóðina um brot gegn lögum eða stjórnarskrá. Við undirbúning breytinganna fengu báðir lífeyrisssjóðir lögfræðiálit þar sem kannað var hvort þær færu gegn lögum, stjórnarskrá eða dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu.

Við breytingarnar, sem sjóðirnir tveir samþykktu nú í vor á ársfundum sínum, er vissulega í fyrsta sinn gripið til mótvægisaðgerða sem koma með mismunandi hætti við sjóðfélaga eftir fæðingarári.

Í áliti lögmannanna Gests Jónssonar og Geirs Gestssonar sagði m.a.: „Samkvæmt framangreindu er ljóst að stjórn Gildis lífeyrissjóðs hefur ekki einungis lagaheimild, heldur lagaskyldur til að tryggja að eignir og skuldbindingar sjóðsins standist á, sbr. 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. … Því er ljóst að aðgerðir Gildis lífeyrissjóðs eru málefnalegar, stefna að lögmætu markmiði og að lagaheimild er fyrir þeim.“ Síðar segir í álitinu: „Við teljum þannig að flöt skerðing, óháð aldri sjóðfélaga, væri íþyngjandi gagnvart eldri sjóðfélögum og ósanngjörn frá þeirra sjónarhorni, þar sem greiðslur þeirra inn í sjóðinn áttu sér stað þegar væntur lífaldur var lægri. Þeir eru því í ósambærilegri stöðu við þá sem yngri eru.“

Það er því ljóst að vandað hefur verið til undirbúnings þeirra aðgerða sem grípa varð til þegar nýjar lífslíkur voru teknar upp. Leitað hefur verið til sérfræðinga um tryggingafræðilega útreikninga, lögfræðinga sem og annarra sérfræðinga og farið vandlega yfir þær leiðir sem færar voru. Niðurstaðan að fengnu þessum góða undirbúningi var að mati forráðamanna lífeyrissjóðanna sanngjörn, lögleg og skynsamleg.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs

Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×