Klinkið

Sigríður og Arnar Þór taka sæti í stjórn Íslandshótela

Ritstjórn Innherja skrifar
Sigríður Olgeirsdóttir og Arnar Þór Másson.
Sigríður Olgeirsdóttir og Arnar Þór Másson.

Tveir nýir stjórnarmenn, Sigríður Olgeirsdóttir og Arnar Þór Másson, koma ný inn í stjórn Íslandshótela, stærstu hótelkeðju landsins, en uppstokkun stjórnarinnar kann að renna stoðum undir fréttaflutning þess efnis að fyrirtækið verði skráð á markað næsta vetur.

Sigríður hefur verið stjórnandi í hugbúnaðar- og hátæknigeiranum og Íslandsbanka og kom ný inn í stjórn Haga á síðasta aðalfundi smásölufélagsins. Hún var sviðsstjóri þjónustu hjá Völku árin 2019-2021 og þar áður var hún framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka árin 2010-2019.

Arnar Þór er stjórnarformaður Marel og stjórnarmaður í Símanum, ásamt því að vera sjálfstætt starfandi við ráðgjöf við fjárfestingar í innviðum og endurnýjanlegri orku. Arnar var framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar hjá Isavia 2019-2020 og á árunum 2016-2019 sat hann fyrir Íslands hönd í stjórn European Bank for Reconstruction and Development (EBRD) í London.

Sigríður og Arnar Þór koma í stað Ástu Mörtu Sívertsen, sem starfar fyrir Íslandshótel, og Braga Ragnarsson, sem er eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins BR Tours og fyrrverandi stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands. 

Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun maí að eigendur Íslandshótela hefðu til skoðunar að skrá félagið á markað. Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður og stofnandi Íslandshótela, á um 75 prósenta hlut í fyrirtækinu og Davíð Torfi Ólafsson, sonur Ólafs, er framkvæmdastjóri félagsins. Annar stærsti hluthafinn er fjárfestingafélagið S38 slhf. með 24 prósenta en það er að uppistöðu í eigu lífeyrissjóða.

Íslandshótel, sem eru með sautján hótel í rekstri, töpuðu 120 milljónum króna á síðasta ári en til samanburðar nam tap félagsins á árinu 2020 nær 2,2 milljörðum króna. Tekjur Íslandshótela árið 2021 námu 7,3 milljörðum króna og tvöfölduðust milli ára. Þær voru um 63 prósent af tekjum ársins 2019 þegar ferðamennska var í eðlilegu horfi yfir allt árið. Fjöldi ferðamanna til landsins árið 2021 voru 688 þúsund samanborið við tæpar 2 milljónir árið 2019.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.