Neytendur

Sam­­keppnis­­eftir­­litið með verð­hækkanir til skoðunar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Þeir vöruflokkar þar sem ekki má finna samkeppni milli innlendrar og erlendrar framleiðslu eða þjónustu virðast veikastir fyrir verðhækkunum.
Þeir vöruflokkar þar sem ekki má finna samkeppni milli innlendrar og erlendrar framleiðslu eða þjónustu virðast veikastir fyrir verðhækkunum. Vísir/Vilhelm

Sam­keppnis­eftir­litið skoðar nú hvort greina megi sam­keppnis­laga­brot í þeim verð­hækkunum sem eiga sér stað um þessar mundir. Hag­fræðingur bendir á að þeir vöru­flokkar sem búi ekki við er­lenda sam­keppni hafi hækkað lang­mest.

Greint var frá því í gær að vörukarfa ASÍ hefði hækkað í öllum mat­vöru­verslunum sem könnunin nær til á síðustu sjö mánuðum.

Valur Þráins­son, aðal­hag­fræðingur Sam­keppnis­eftir­litsins, bendir á að síðustu ár hafi vöru­flokkar á borð við mat og drykkjar­vöru, tryggingar og banka­þjónustu verið veikir fyrir verð­hækkunum.

„Þessar greinar eiga það sam­eigin­legt að búa við lítið er­lent sam­keppnis­legt að­hald. En svo eru flokkarnir sem búa við meira sam­keppnis­legt að­hald eins og undir­flokkar vísi­tölunnar hvað varðar föt og skó, lítil heimilis­tæki og tölvur. Þeir hafa staðið í stað eða lækkað á síðustu árum,“ segir Valur.

Virðast ekki lepja dauðann úr skel

Verð­hækkanirnar sem nú eigi sér stað, meðal annars vegna heims­far­aldurs og stríðsins í Úkraínu, virðist þróast eins.

Á­stæðan fyrir því að um­ræðan sé svo mikil um hækkanirnar nú segir Valur að sé meðal annars sú að fyrir­tæki séu víða að skila metaf­komu á sama tíma og þau hækka verð sín.

„Þannig það virðist ekki vera að þau séu að lepja dauðann úr skel þrátt fyrir þessa bresti sem má finna víða um heim,“ segir hann.

Valur Þráinsson er aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins.

Hann segir að væntingar um aukna verð­bólgu geti leitt til enn meiri verð­hækkana en ella.

„Það er raun­veru­leg hætta og sér­stak­lega á mörkuðum þar sem er til staðar mikið gegn­sæi og fá fyrir­tæki sem keppa. Þegar allir á markaðinum hafa væntingar til þess að keppi­nauturinn hækki þá verður það auð­veldara heldur en þegar væntingarnar eru í hina áttina,“ segir Valur.

Sam­keppnis­eftir­litið hefur nú verið með það til skoðunar hvort finna megi bresti í sam­keppni eða brot á lögum í vöru­hækkunum síðustu vikna.

„Við höfum væntingar til þess að niður­stöður þeirrar skoðunar gagnist og verði inn­legg í um­ræðuna um ein­mitt þessi mál; hvort að verð­hækkanirnar sem við sjáum hér á landi eru að gefa til kynna ein­hvers konar sam­keppnis­bresti eða ekki,“ segir Valur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×