Innherji

Hreggviður og Höskuldur komu að kaupunum á Promens

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hreggviður Jónsson
Vísir/Pjetur

Fjárfestarnir Hreggviður Jónsson og Höskuldur Tryggvason voru í samfloti við framtakssjóðina SÍA IV og Freyju í kaupunum á Promens og fara nú með tæplega fimm prósenta óbeinan eignarhlut í plastsamstæðunni.

Fyrr í vikunni greindi Innherji frá því að Rotovia ehf., nýstofnað félag í eigu íslensku framtakssjóðanna, hefði gengið frá kaupum á Promens frá bandaríska fyrirtækinu Berry Global. Tvö framleiðslufyrirtæki innan samstæðunnar eru með rekstur á Íslandi, annars vegar Sæplast Iceland og hins vegar Tempra.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem var birt samhliða tilkynningu um kaupin kemur fram að Rotovia sé í 30 prósenta eigu Emblu Invest og 70 prósenta eigu Dalarótar. Embla er dótturfélag Freyju, sem er undir hatti Kviku eignastýringar, en Dalarót er félag á vegum SÍA IV, sem er í umsjón Stefnis.

Einnig kemur fram að Freyja fari með um 85 prósenta hlut í Emblu en fjárfestingafélögin Stormtré, sem er að mestu leyti í eigu Hreggviðs Jónssonar, og Jasnik, sem er í eigu Höskuldar Tryggvasonar, eigi samtals 15 prósenta hlut. Hreggviður og Höskuldur eiga því um 4,5 prósenta óbeinan hlut í Promens eftir viðskiptin.

Í gegnum Stormtré er Hreggviður aðaleigandi heilbrigðissamstæðunnar Veritas, sem velti um 25 milljörðum króna á árinu 2020, auk þess að vera stærsti einkafjárfestirinn í smásölufélaginu Festi. Þá er Stormtré á meðal stærstu hluthafa tæknifyrirtækisins Controlant en Jasnik, félag Höskuldar, er þar einnig ofarlega á lista.

Kaupverðið er um 114 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 15 milljarða íslenskra króna, að því er kom fram í árshlutauppgjöri Berry Global í síðasta mánuði, en afar litlar vaxtaberandi skuldir fylgja með í viðskiptunum. Með kaupunum á starfsemi Promens á Íslandi færist eignarhaldið aftur til innlendra fjárfesta eftir að hafa verið hluti af erlendum fyrirtækjasamsteypum í meira en sjö ár. Velta hinna keyptu eininga er um 18 milljarðar króna.

Í ársbyrjun 2015 seldu Framtakssjóður Íslands, sem var að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða, og Landsbankinn Promens til breska umbúðarisans RPC Group og var heildarvirði samstæðunnar í þeim viðskiptum tæplega 62 milljarðar króna en fyrirtækið rak þá um 40 verksmiðjur í Evrópu, Afríku, Norður-Ameríku og Asíu. Fjórum árum síðar keypti bandaríska félagið Berry Global, sem er skráð á markað vestanhafs og með markaðsvirði upp á rúmlega 8 milljarða Bandaríkjadali, allt hlutafé RPC Group.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×