Neytendur

Hækka í­búða­lána­vexti í annað sinn á tveimur vikum

Eiður Þór Árnason skrifar
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, segir að mikil ásókn sé í að festa íbúðalánavexti.
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, segir að mikil ásókn sé í að festa íbúðalánavexti. Samsett

Landsbankinn hækkaði á miðvikudag vexti óverðtryggðra íbúðalána í annað sinn á um tveimur vikum. Fastir vextir á nýjum óverðtryggðum lánum til þriggja ára hækkuðu um 0,35 prósentustig og 0,30 prósentustig í tilfelli nýrra lána með föstum vöxtum til fimm ára. 

Hækkunin kemur fast á hæla vaxtabreytingar sem tók gildi 17. maí en þá voru vextir sömu lána hækkaðir um 0,10 til 0,15 prósentustig og breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána um 0,70 prósentustig.

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsbankanum, segir það sjaldgæft að bankinn breyti vöxtum svona ört. Vextir óverðtryggðra húsnæðislána með fasta vexti hafi að jafnaði verið breytt einu sinni í mánuði það sem af er ári, sem sé tíðar en á seinustu árum.

Skýringin liggi í hröðum breytingum á skuldabréfamarkaði sem bankinn nýti meðal annars til að fjármagna sig til þriggja eða fimm ára. Sú hækkun hafi svo endurspeglast í þeim kjörum sem bankinn lánar út með þegar fólk festir húsnæðislánavexti sína til þriggja eða fimm ára.

Stýrivaxtahækkanir hafa haldist í hendur við miklar hækkanir á húsnæðismarkaði sem hefur ýtt undir verðbólgu.Vísir/Vilhelm

Sömuleiðis örari breytingar hjá öðrum lánveitendum

Bæði hefur ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og sértryggðra skuldabréfa hækkað nokkuð skarpt á seinustu misserum. Á sama tíma hafa verðbólguhorfur versnað bæði á Íslandi og erlendis sem leiðir til væntinga um frekari stýrivaxtahækkana sem aftur hafa áhrif til hækkunar á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamörkuðum.

„Eins og þetta hefur verið núna þar sem ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur bara hækkað jafnt og þétt nokkuð linnulaust undanfarin misseri frá því að Seðlabankinn hóf þetta skarpa vaxtahækkunarferli hefur verið ástæða til þess að endurskoða kjörin á þessum föstu vöxtum,“ segir Hreiðar.

Vaxtatöflur lífeyrissjóða og hinna viðskiptabankanna beri þess sömuleiðis merki að samkeppnisaðilarnir hafi verið að hreyfa sig örar en áður.

Hreiðar segir að mikil ásókn hafi verið í að festa vexti óverðtryggðra húsnæðislána hjá Landsbankanum undanfarin misseri. Í lok mars hafi um helmingur viðskiptavina með óverðtryggð íbúðalán verið búnir að festa vextina og í dag séu nokkuð fleiri með fasta óverðtryggða vexti en breytilega.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×