Innherji

Fyrsta fjármögnunin í ís­lenskum raf­í­þróttum gengin í gegn

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Dusty.
Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Dusty. Ljósmynd/Dusty

Rafíþróttafélagið Dusty gekk í síðustu viku frá sinni fyrstu hlutafjáraukningu og er hún jafnframt fyrsta hlutafjáraukningin í rafíþróttum á Íslandi. Dusty, sem hefur hingað til verið fjármagnað með eigin rekstri og stofnframlögum eiganda, fékk 30 milljóna króna innspýtingu frá fjárfestingafélaginu Umbrella ehf. sem verðmetur rafíþróttafélagið á 150 milljónir króna.

Umbrella er í eigu Björns Hróarssonar og sona hans Kára og Steinars Björnssona en félagið er á meðal stærstu eigenda ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures. Forsvarsmenn Umbrella segjast hafa gríðarlega trú á rafíþróttum og telja þeir íslenska markaðinn eiga töluvert inni.

„Það þarf ekki að líta lengra en til Norðurlandanna til að finna lið sem eru leiðandi á heimsmælikvarða og við ætlum að hjálpa Dusty þangað. Okkar metnaður liggur í því að styðja við uppbyggingu á úrvals keppnisliðum um leið og við styrkjum tekjustoðir félagsins,“ segir í yfirlýsingu frá Umbrella.

Fjármagnið verður nýtt til þess að styðja við samkeppnishæfni keppnisliða Dusty, byggja upp yngri flokka og þróa vörur á miðlum rafíþróttafélagsins.

„Við ætlum okkur að keppa á efsta stigi alþjóðlegra móta og byggja upp miðlunarvettvang með gagnsæi og sérsniðnum möguleikum sem hafa ekki sést áður,“ segir Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Dusty

Nútímaleg markaðsfyrirtæki eru sífellt að kalla eftir nákvæmari upplýsingum um arðsemi markaðsfjár og þar ætlum við að standa öðrum framar

Stærsta tekjulindin, eins og staðan er í dag, eru samstarfssamningar við íslensk fyrirtæki.

„Með okkar aðstoð geta fyrirtæki náð til vel skilgreindra hópa með mjög markvissum og nákvæmum hætti. Vegna þess að allt í rafíþróttum gerist á netinu er möguleikarnir til þess að sérsníða meiri en þekkjast annars staðar. Nútímaleg markaðsfyrirtæki eru sífellt að kalla eftir nákvæmari upplýsingum um arðsemi markaðsfjár og þar ætlum við að standa öðrum framar,“ segir Ásbjörn. Til lengri tíma litið eru hins vegar bundnar við tekjur af sýningarréttum líkt og tíðkast í öðrum stórum íþróttagreinum.

Ásbjörn stofnaði fyrirtækið í mars 2019 í því skyni að byggja upp atvinnulið í rafíþróttum sem gæti keppt á stærstu mótum heims.

Stofnun Rafíþróttasamtaka Íslands árið 2018 var að sögn Ásbjörns mikilvæg forsenda fyrir því að byggja upp atvinnulið á Íslandi og ávinningur af því að koma skipulagi á íþróttagreinina kemur nú sífellt betur í ljós.

Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Newzoo, sem sérhæfir sig í leikaiðnaðinum, námu heildartekjur af rafíþróttum 1,1 milljarði dala, jafnvirði um 129 milljarða króna, á síðasta ári og er reiknað með að tekjurnar verði um 1,9 milljarðar dala árið 2025.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.