Neytendur

Leggur blessun sína yfir aug­lýsingar Nettós um „fría heim­sendingu“

Atli Ísleifsson skrifar
Verslun Nettós í Grindavík.
Verslun Nettós í Grindavík. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur lagt blessun sína yfir auglýsingar matvörukeðjunnar Nettós þar sem segir frá „fríum heimsendingum“ ef verslað væri fyrir meira en fimm þúsund krónur.

Stofnunin tók málið til skoðunar eftir að ábending barst frá neytenda. Í umræddri auglýsingu sagði meðal annars að: „Frí heimsending alla vikuna*“ og í minni texta fyrir neðan „Þegar verslaðar eru matvörur fyrir 5.000 kr. eða meira.“

Í ákvörðun Neytendastofu er fjallað um að stofnunin geri ekki athugasemdir við það þó fyrirtæki bjóði neytendum kaupauka.

„Til þess að unnt sé að kynna kaupauka með orðinu „frítt“ þarf hann sannanlega að vera neytendum að kostnaðarlausu, allar forsendur að koma skýrt fram og neytendum ekki veittar villandi upplýsingar með öðrum hætti.

Eftir skýringar fyrirtækisins [Samkaupa, rekstraraðila Nettós] var það niðurstaða Neytendastofu að ekkert benti til þess að kostnaður hinnar fríu þjónustu hafi verið bætt við almennt verðlag. Þá var það mat stofnunarinnar að forsendur og skilyrði þess að fá þjónustuna fría kæmu fram. Því væri ekki tilefni til frekari aðgerða eða athugasemda í málinu,“ segir á vef Neytendastofu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×