Handbolti

Ómar fór á kostum er Magdeburg setti aðra höndina á titilinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon var frábær í kvöld.
Ómar Ingi Magnússon var frábær í kvöld. Bruno de Carvalho/SOPA Images/LightRocket via Getty Images

Magdeburg er nú í kjörstöðu í baráttunni um þýska deildarmeistaratitilinn í handbolta eftir 18 marka stórsigur gegn TuS N-Lübbecke í kvöld, 38-20. Ómar Ingi Magnússon var markahæsti maður vallarins með átta mörk.

Þrátt fyrir að lokatölurnar gefi það ekki til kynna þá var nokkuð jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Verðandi meistarar í Magdburg voru þó alltaf skrefinu framar og fóru með þriggja marka forystu inn í hálfleikinn í stöðunni 16-13.

Liðið tók svo öll völd í síðari hálfleik og gjörsamlega keyrði yfir gestina. Í stöðunni 22-18 settu liðsmenn Magdeburg í fluggírinn og heimamenn skoruðu 16 mörk gegn aðeins tveimur mörkum gestanna á lokakaflanum. Magdeburg vann því að lokum 18 marka sigur, 38-20.

Ómar Ingi Magnússon var sem fyrr segir markahæsti maður vallarins með átta mörk fyrir Magdeburg, en Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú. Magdeburg nálgast nú titilinn óðfluga, en liðið er með átta stiga forskot á toppnum þegar liðið á fjóra leiki eftir. Kiel situr í öðru sæti og á leik til góða og geta því mest fengið tíu stig í viðbót.

Ómar og Gísli voru þó ekki einu Íslendingarnir í eldlínunni í þýska handboltanum í kvöld, en Bjarki Már Elísson var markahæsti maður vallarins með sex mörk er Lemgo vann fimm marka sigur gegn Íslendingaliði Melsungen, 23-18. Alexander Petersson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Melsungen.

Þá þurftu Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen að sætta sig við sex marka tap gegn Füchse Berlin, 37-31. Janus Daði skoraði fim mörk fyrir Göppingen og lagði upp önnur þrjú fyrir liðsfélaga sína.

Að lokum máttu Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilstetten að sætta sig við fjögurra marka tap gegn Wetzlar, 28-24, en liðið þarf sárlega á stigum að halda í fallbaráttunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.