Innherji

Tekjur Arnarlax meira en tvöfölduðust á fyrstu þremur mánuðum ársins

Hörður Ægisson skrifar
Arnarlax er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins með höfuðstöðvar á Bíldudal en tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi námu um 5,2 milljörðum króna.
Arnarlax er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins með höfuðstöðvar á Bíldudal en tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi námu um 5,2 milljörðum króna.

Rekstrartekjur Icelandic Salmon, móðurfélag Arnarlax sem er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins, námu 37,1 milljónum evra, jafnvirði um 5,2 milljarða íslenskra króna, á fyrsta fjórðungi þessa árs og jukust um 114 prósent frá sama tímabili á árinu 2021. Rekstrarhagnaður félagsins (EBIT) var 9,5 milljónir evra borið saman við 400 þúsund evrur á sama fjórðungi í fyrra.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Icelandic Salmon, sem var kynnt í morgun, en tekjuvöxt félagsins má einkum þakka jákvæðri verðþróun á helstu mörkuðum – verð á eldislaxi hefur næstum tvöfaldast á einu ári – auk verulegra bættra gæða og nýtingar í framleiðslu fyrirtækisins.

Icelandic Salmon er skráð á Euronext Growth markaðinn í norsku kauphöllinni og hafa bréf félagsins hækkað um liðlega tvö prósent í viðskiptum í morgun.

Úr uppgjörskynningu Icelandic Salmon.

Arnarlax jók við starfsemi sína á Suðurlandi í vetur með kaupum á seiðastöð Fjallalax og í janúar síðastliðnum fékk stöðin 100 tonna rekstrarleyfi fyrir seiða- og mateldi á lax og bleikju. Þá hyggst félagið taka í notkun seiðaeldisstöð við Laxabraut í Þorlákshöfn síðar á árinu, og hefur fengist rekstrarleyfi frá Matvælastofnun fyrir alls 900 tonna seiðaeldi þar.

Með tilkomu þessara tveggja seiðaeldisstöðva má búast við að uppskera fyrirtækisins aukist um liðlega 7.000 tonn á ársgrundvelli þegar fullum afköstum hefur verið náð. Þetta mun bæta nýtingu núverandi eldisleyfa fyrirtækisins og styðja við undirbúning nýrra svæða og öflunar nýrra leyfa.

Í uppgjörinu kemur fram að eftirspurn eftir hágæða laxaafurðum hafi aukist í Bandaríkjunum. Með tilkomu nýs vörumerkis Arnarlax hefur verð á afurðum þess hækkað og framlegð fyrirtækisins aukist á þeim mörkuðum sem það selur til. Þrátt fyrir mikinn vöxt á Bandaríkjamarkaði, þar sem næstum 90 prósent afurðanna voru flutt sjóleiðis á fjórðungnum, þá eru Evrópulönd enn stærstu kaupendurnir á laxi frá Arnarlaxi.

Úr uppgjörskynningu Icelandic Salmon.

Björn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon og Arnarlax, segir að áhersla félagsins á að bæta líffræðilega þætti framleiðslunnar í sjónum, einkum til að minnka áhættu yfir vetrarmánuðina, virðist hafa skilað árangri.

„Afföll eru orðin mun minni jafnvel þó við höfum lent í áskorunum á tímabilinu á stöku stað. Þetta eru spennandi tímar hjá fyrirtækinu og ég hlakka til að upplýsa um margt sem er í pípunum hjá okkur. Við njótum þess að vera búin að staðsetja vörumerkið okkar á réttan hátt á sterkustu mörkuðunum. Kjarni vörumerkisins liggur í gæðum framleiðslunnar, upprunans og þeirri miklu vinnu sem við höfum lagt í markaðs- og sölumálin á síðustu misserum,“ segir Björn.


Tengdar fréttir

Arnarlax freistar þess að fá blágrænan lit skráðan sem vörumerki

Hugverkastofu hefur borist ein umsókn um skráningu litamerkis en umsækjandinn er fiskeldisfyrirtækið Arnarlax hf. Ný lög sem tóku gildi í fyrra opna á að á Íslandi sé hægt að skrá ýmis konar óhefðbundin vörumerki, á borð við liti, hljóð og umbúðir.

Fimm ráðin til Arnar­lax

Arnarlax ráðið þau Jón Garðar Jörundsson, Kjersti Haugen, Johnny Indergård, Hjörtur Methúsalemsson og Rúnar Inga Pétursson til starfa innan félagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.