Innherji

Andri og Birgir með helmingshlut í félagi sem fjárfestir í fiskeldi

Hörður Ægisson skrifar
Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson eiga fjárfestingafélagið Omega sem er stærsti hluthafinn í ÍV SIF Equity Farming.
Birgir Már Ragnarsson og Andri Sveinsson eiga fjárfestingafélagið Omega sem er stærsti hluthafinn í ÍV SIF Equity Farming.

Eignarhaldsfélagið ÍV SIF Equity Farming (ÍSEF), sem var stofnað í fyrra og hefur það meginmarkmiði að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi, sótti sér samtals 1.450 milljónir króna frá innlendum fjárfestum til að fjármagna fyrstu tvær fjárfestingar félagsins á árinu 2021.

Langsamlega stærsti hluthafi ÍSEF er eignarhaldsfélagið Omega, með samtals tæplega 49 prósenta eignarhlut, en það er í eigu fjárfestanna Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, sem er einn af meðeigendum og starfsmönnum Novator Partners, fjárfestingafélags í meirihlutaeigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Andri hætti hins vegar öllum daglegum störfum fyrir Novator í fyrra eftir að hafa verið fjármálastjóri og einn meðeigenda félagsins undanfarin ár og einbeitir sér núna að eigin fjárfestingum.

Þá fer Sigþór Sigmarsson, sem situr í stjórn Omega og starfar fyrir Novator, með rúmlega eins prósenta hlut í ÍSEF í eigin nafni og saman fer þessi fjárfestahópur því samanlagt með meirihluta í félaginu.

ÍSEF keypti í október í fyrra 70 prósenta hlut í fiskeldisfyrirtækinu Hábrún fyrir 740 milljónir. Á myndinni eru Jón Garðar Guðmundsson hjá Mar Advisors, Haukur Oddsson og Einar Guðmundsson frá Hábrún og þeir Hrafn Árnason og Björgvin Gestsson hjá Íslenskum verðbréfum.

Fjárfestingafélagið ÍSEF keypti meirihluta í fyrirtækjunum ÍS 47 og Hábrún en þau starfrækja bæði fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og nam fjárfestingin samtals 1.280 milljónum króna. Keyptur var 70 prósenta hlutur í Hábrún fyrir 740 milljónir króna en fjárfestingin í ÍS 47 nam 540 milljónum og eignaðist ÍSEF við það 80 prósenta eignarhlut í fyrirtækinu.

Í gegnum félagið Omega eru Andri og Birgir meðal annars stærstu hluthafarnir í Kerecis og eins í fasteignafélaginu Ásbrú á gamla varnarliðssvæðinu. Þá átti Omega einnig um 5,6 prósenta hlut í félaginu Novator Nova en það seldi helmingshlut sinn í fjarskiptafyrirtækinu til bandaríska fjárfestingafélagsins PT Capital á síðasta ári.

Aðrir helstu eigendur ÍSEF, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi félagsins, eru Bjarnar Invest, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars, Eignarhaldsfélagið VGJ, Arctic Sequentia og Björg Finance.

Það eru Íslensk Verðbréf sem heldur utan um allan rekstur ÍSEF.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×