Atvinnulíf

„Maður er bara uppalinn þannig að í fríum væri maður ekkert að hangsa“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er gaman að setjast niður með Jóni Magnússyni á Skalla. Margt hefur breyst frá því að hann hóf fyrst að reka Skalla en það var árið 1971 í Lækjargötu. Þegar miðbærinn iðaði af mannlífi og unga fólkið rúntaði Laugavegshringinn öll kvöld og helgar. Í þá daga voru sjoppur á hverju götuhorni sem seldu nammi, tóbak og ís. Í dag er reksturinn allt öðruvísi enda Skalli veitingahús í Ögurhvarfi 2 þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja og mikið úrval að velja af matseðli.
Það er gaman að setjast niður með Jóni Magnússyni á Skalla. Margt hefur breyst frá því að hann hóf fyrst að reka Skalla en það var árið 1971 í Lækjargötu. Þegar miðbærinn iðaði af mannlífi og unga fólkið rúntaði Laugavegshringinn öll kvöld og helgar. Í þá daga voru sjoppur á hverju götuhorni sem seldu nammi, tóbak og ís. Í dag er reksturinn allt öðruvísi enda Skalli veitingahús í Ögurhvarfi 2 þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja og mikið úrval að velja af matseðli. Vísir/Vilhelm

„Síðan var ég með rauðan matarlit sem ég setti í ísinn og bauð þá upp á hvítan ís og bleikan ís sem fólk hélt þá að væri einhver jarðaberjaís,“ segir Jón Magnússon og skellihlær.

Jón er eigandi Skalla í Ögurhvarfi 2 en saga Skalla nær aftur til ársins 1971 þegar Jón keypti sjoppu og ísbúð í Lækjargötu.

En var þá enginn bragðmunur á ísnum?

Nei langt því frá. Bragðtegundirnar í ís komu ekki fyrr en löngu síðar. 

Samt var fólk oft lengi að velja sér ís: Ætti það að fá sér hvítan ís eða rauðan. 

Ég held þetta hafi gengið svona í um þrjú ár og aldrei sagði neinn neitt!“

Í helgarviðtali Atvinnulífsins heyrum við söguna á bakvið Skalla sem nú á sér ríflega hálfra aldar sögu því Skalli hóf starfsemi árið 1971. 

Þegar Skalli hóf starfsemi árið 1971 var Skalli pínkulítil sjoppa í Lækjargötu þar sem fólk gat keypt nammi, tóbak og ís. Jón var líka með tvær poppvélar þar sem þóttu mikil nýjung og oft kom fólk hreinlega inn í sjoppuna því popplyktin fannst langar leiðir. Í dag er Skalli veitingahús að Ögurhvarfi 2 þar sem hægt er að setjast niður og gæða sér á veitingum eða panta og taka með sér mat heim. Saga Skalla endurspeglar vel þá þróun sem hefur orðið á íslenskum sjoppum því þær eru í raun ekki til eins og þær voru. Lögðu ýmist upp laupana eða þróuðust í takt við breytta tíma eins og Skalli. Vísir/Vilhelm

Sá svalasti í bænum

Það er gaman að setjast niður með Jóni á Skalla. 

Sögurnar eru skemmtilegar og endurspegla margar öðruvísi og ólíka tíma frá því sem nú er.

Til dæmis þá tíma sem sjoppur voru á hverju horni í Reykjavík og um land allt. Þar sem aðeins var selt nammi, tóbak og ís.

„Við máttum ekki selja það sama og matvöruverslanir. Til dæmis máttum við ekki selja mjólk eða rjóma, það mátti ekki fyrr en löngu síðar,“ segir Jón sem dæmi um breyttar leikreglur.

Sjoppur eru yfir höfuð ekki til lengur á Íslandi eins og þær voru. Því í dag eru þær líkari því að vera veitingahús.

„Það breyttist líka margt þegar Bónus byrjaði,“ segir Jón en rifjar líka upp ýmsar aðrar breytingar í verslunargeiranum sem Pálmi heitinn í Hagkaup ruddi brautina fyrir og fleiri.

Á Skalla er hægt að kaupa sér pizzur, hamborgara, heimabakað súrdeigsflatbrauð, kjöt, fisk og salat.

Og jafnvel rauðvín, bjór eða annað áfengi með.

„Skalli – sá svalasti í bænum“ segir slagorðið en þegar sest er niður með Jóni og sagan sögð er ljóst að reksturinn hefur tekið stakkaskiptum frá því að starfsemin hófst í Lækjargötu árið 1971.

Þegar miðbærinn iðaði af mannlífi alla daga og unga fólkið rúntaði Laugavegshringinn svokallaða öll kvöld og helgar.

En við byrjum á sögunni um Jón.

Jón er fæddur og uppalinn í Þykkvabæ sem honum fannst vera nafli alheimsins lengi. Þegar Jón var 25 ára, byrjaður að búa og þriðja barnið á leiðinni fékk hann óvænt tilboð um starf á Keflavíkurvelli þar sem Bandaríski herinn var með starfsstöð. Jón segir það hafa verið afar sérstakt að vinna á herstöðinni. Þeir sem ekki hlýddu voru strax látnir fjúka.Vísir/Vilhelm

Sveitastrákur sem fór að vinna „á vellinum“

Margir sem þekkja til Jóns vita að hann er mikið í hestunum. 

Já svona „hestakarl“ segja sumir. 

Einhverjir gætu tengt þennan hestaáhuga við að Jón er fæddur og uppalinn í Þykkvabæ en Jón segir það fjarri lagi. Hestaáhuginn hafi ekki komið fyrr en löngu síðar.

Jón er fæddur árið 1944 og segir æskuna í Þykkvabæ hafa verið frábæra. Þykkvibær hafi lengi verið nafli alheimsins í hans huga.

Í Þykkvabæ rak afi hans sláturhús og litla sveitaverslun og eins og algengt var í þá daga fór Jón ungur að búa og eignast börn en fyrri konan hans heitir Hrafnhildur Sigurðardóttir og er úr Fljótshlíðinni.

Og jú, auðvitað gekk allt út á að vinna og færa björg í bú segir Jón.

Þegar Jón var 25 ára voru börnin orðin tvö og það þriðja á leiðinni.

Jón fékk þá óvænt starfstilboð:

Að vinna í slökkviliðinu á Keflavíkurvelli þar sem ameríski herinn var með starfstöð.

Jón og Hrafnhildur ákváðu að stökkva á þetta tækifæri og flytja í höfuðborgina.

Á Seltjarnarnesi komu þau sér fyrir í leiguíbúð við Gróttu og Jón keyrði til Keflavíkur til vinnu.

Það var mjög skrýtið að vinna þarna. Harkan var rosaleg, þessi agi sem ríkti. Fyrir vikið var vinnumórallinn afar sérkennilegur því ég er ekki að tala um neinn venjulegan aga í vinnu, heldur heraga í einu og öllu. 

Ef þú hlýddir ekki varstu látinn fjúka.“

Jón hafði sjálfur einu sinni farið til útlanda þegar þetta var en upplifði herstöðina sem lítið amerískt samfélag eins og svo margir hafa sagt frá.

„Þarna borðaði maður amerískar pönnukökur og kalkún svo dæmi sé tekið. Það var hreinlega allt amerískt á vellinum og margt sem við Íslendingarnir þekktum ekkert á þessum tíma,“ segir Jón.

Þegar Jón starfaði í slökkviliðinu gafst honum líka tækifæri til þess að hefja sjálfstæðan rekstur því vaktirnar í slökkviliðinu voru þannig að hann vann í heilan sólahring en var síðan í fríi í tvo daga.

„Maður er bara uppalinn þannig að í fríum væri maður ekkert að hangsa. Sem þýddi að í vaktfríum hugsaði maður strax með sér: Hvað get ég gert?“ segir Jón sem keypti sér sendibíl og starfrækti hann samhliða slökkviliðsstarfinu.

Sendibílareksturinn gat þó gengið upp og ofan og þá oft í takt við það hvernig gekk í samfélaginu yfir höfuð. Skipti þá miklu að vera með hugmyndir að því hvernig hægt væri að bjarga sér.

„Ég man til dæmis eftir því þegar síldin hrundi varð alveg steindautt í keyrslunni. En vinur minn var að selja fisk þannig að ég fór til hans í hverri viku, fyllti bílinn af fiski, keyrði síðan á milli bæja úti á landi og seldi fiskinn.“

Fyrsta Skallinn

Þessa mynd fékk Jón gefins af Skalla í Lækjargötu, fyrstu sjoppunni hans árið 1971. Jón segir miðbæinn gjörbreyttan frá því þetta var því á áttunda áratugnum iðaði miðbærinn af mannlífi. Þangað sóttist fólk í að versla, vinna og unga fólkið fór á rúntinn. 

Eftir um þrjú ár og þegar Jón og Hrafnhildur voru búin að kaupa sér íbúð, heyrði Jón af því að lítil sjoppa og ísbúð á Lækjargötu væri til sölu.

Sjoppan var þessi hefðbundna íslenska sjoppa sem samanstóð af þremur einingum: 

Að selja nammi, tóbak og ís.

Fór svo að Jón seldi íbúðina til að eiga fyrir útborgun og tók við rekstrinum. 

Sem þó kallaði alveg á sitt.

„Ég man að það tók mig hátt í ár að koma útigangsmönnunum út. Því þeir vildu bara hanga þarna inni, röfla og trufla viðskiptavinina.“

En smátt og smátt jukust umsvifin og það var ekki síst fyrir ísinn á Skalla. Sem Jón var líka duglegur að gera tilraunir með.

Ekki aðeins bjó hann til bleika ísinn með rauða matarlitnum heldur einnig ídýfur og fleira.

„Ég fór að bræða ópalsúkkulaði í ísdýfur og síðan datt mér í hug að rúlla ísnum með dýfunni uppúr hrísi þannig að ég spurði Helga í Góu hvort hann gæti ekki selt mér hrísið sem hann notar í hraunið sitt og þetta sló bara alveg í gegn,“ segir Jón stoltur.

Á sumrin fylltist sjoppan reglulega þegar fólk flykktist í miðbæinn til að kaupa sér ís á góðviðrisdögum.

Nú eða þjóðarréttinn kók og prins.

Jón viðurkennir að þessi tími hafi verið annasamur en er þó sá tími sem hann minnist sem hvað skemmtilegasta tímann frá því að saga Skalla hófst.

„Það var bara allt iðandi af lífi í miðbænum. Þetta er svo gjörbreytt í dag,“ segir Jón.

Margt var um manninn í miðbænum. Þar störfuðu margir, nemendur sóttu menntaskóla og fólk kom í umvörpum í bæinn til að versla.

„Kringlan var auðvitað ekkert þá þannig að allir komu í miðbæinn til að versla, ekki síst landsbyggðarfólkið sem gerði síðan vel við sig með ís þegar það kom. Og þá má ekki gleyma Laugavegsrúntinum sem allir stunduðu á kvöldin og um helgar. Komu þá við á Skalla og keyptu eitthvað,“ segir Jón.

Jón segir menntaskólakrakkana hafa verið góða viðskiptavini Skalla og í raun má rekja nafnið Skalli til þeirra.

Þannig var að eitt sinn ákvað ég að kaupa útvarpsauglýsingu klukkan þrjú á Gufunni því þær voru ódýrarastar á þeim tíma. 

Ég var að auglýsa ís en fannst ekki spennandi að vísa í gamla nafnið sem var Lækjargötuísbarinn. 

Krakkarnir kölluðu sjoppuna hins vegar alltaf Skalla. Því maðurinn sem átti hana var sköllóttur með svona egglaga haus. 

Ég skellti auglýsingunni því bara inn undir nafninu Skalli.“

Um kvöldið er Jón að gera upp kassann og hæstánægður með daginn.

„Og þá fattaði ég að auglýsingin hafði greinilega virkað og ákvað bara að kalla staðinn Skalla.“

Jóni var tíðrætt um það í viðtalinu að hafa alltaf verið svo heppinn með starfsfólk. Hjá honum hafa margir starfað í mörg ár, duglegt og skemmtilegt fólk. Ófáir minnast þess að hafa á einhverjum tímapunkti einhvern tíman unnið á Skalla eða í það minnsta þekkja einhvern sem þar hefur starfað. Vísir/Vilhelm

Óvænt tækifæri banka upp á

Á þessum tíma tíðkaðist víða að matvöruverslanir höfðu leyfi til að selja vörur eftir klukkan sex á daginn út um litlar lúgur.

Þessi auglýsing var birt í Vísi árið 1979. Eitt sinn ákvað Jón að kaupa útvarpsauglýsingu á Gufunni klukkan þrjú, því þær voru ódýrastar. Textinn var Ísinn á Skalla frískar alla sem hljómaði mun meira spennandi en að vísa í gamla nafnið Lækjargötuísbarinn. Og viti menn: Það var brjálað að gera og þegar Jón gerði upp kassann um kvöldið, ákvað hann að Skalli skyldi sjoppan heita. Nafnið sem slíkt er þó í raun komið frá nemendum í miðbænum, sem kölluðu staðinn alltaf Skalla því fyrri eigandinn var nauðasköllóttur. 

Björn Jónsson var með eina slíka lúgusjoppu við hliðina á matvöruversluninni sem hann rak í Hraunbænum.

Að sögn Jóns var Hraunbærinn í mikilli uppbyggingu á þessum tíma en þetta var í kringum 1973. 

Jón fékk afar hagstætt tilboð um að yfirtaka reksturinn úr lúgunni.

„Ég þurfti bara að borga fyrir peningakassann og lagerinn og síðan mánaðarleigu.“

Úr varð að Skalli númer tvö var opnaður í Hraunbænum. 

Um ári síðar, gafst Jóni tækifæri á að festa stórt húsnæði við hliðina á þegar verslun þar hætti.

Við þessa stækkun var Skalli í Hraunbænum orðinn miklu stærri en Skalli í Lækjargötu.

„Síðan gerist það að Helgi í Góu var að flytja af Reykjavíkurvegi og spyr mig hvort ég sé ekki til í að opna Skalla í húsnæðinu sem Góa hafði verið í og hann átti. Ég sagði Nei ég nenni ekki fleiri stöðum. En Helgi er fylginn sér og því endaði með því að ég sagði við Helga: Ókei, ég er til en þá bara ef við gerum þetta saman,“ segir Jón.

Þriðji Skalla staðurinn var því opnaður og nú í samstarfi við Helga í Góu.

Það var alls staðar brjálað að gera. Maður byrjaði að vinna klukkan átta á morgnana og endaði síðan vinnudaginn með því að keyra á milli staða og gera upp kassana til klukkan tvö á næturnar. 

Enda verð ég að viðurkenna að ég var aldrei heima og konan sá um heimili og börn“ 

segir Jón og kímir.

Vinirnir Jón og Helgi í Góu hafa brallað margt saman um tíðina en þeir kynntust þegar Jón var með fyrstu Skalla sjoppuna sína og Helgi var að keyra á milli sjoppa til að selja nammið sitt. „Ætli við séum ekki bara svipaðir vitleysingar, svona tveir góðir saman, á sama aldri og aldir upp við að vinna.“ segir Jón en saman hafa þeir rekið Skalla á Reykjavíkurvegi, stofnuðu KFC á sínum tíma og keyptu meira að segja hænsnabú. Í dag á Helgi í Góu Skalla á Selfossi en Jón sér um að gera ísinn fyrir Helga. Þessi mynd er tekin af þeim félögum í Skalla á Reykjavíkurvegi.

Félagarnir Jón og Helgi

Þegar hér er komið við sögu hafði Jón þá þegar nefnt Helga í Góu nokkrum sinnum á nafn í viðtalinu. Það lá því í augum uppi að spyrja Jón:

Hvenær og hvernig urðuð þið Helgi vinir?

„Nú það var bara þegar hann var að byrja. Þá keyrði hann á milli sjoppa til að selja nammið sitt. Og við svona fórum að spjalla þegar hann kom, náðum vel saman og höfum verið vinir síðan,“ segir Jón og bætir við:

Ætli við séum ekki bara svipaðir vitleysingar, svona tveir góðir saman, á sama aldri og aldir upp við að vinna.“

Árið 1980 losnar síðan pláss rétt hjá Skalla á Reykjavíkurvegi.

Félagarnir fengu strax augastað á plássinu og ákváðu að það væri sniðugt að skella sér í einhvern rekstur þar.

Spurningin var bara: Hvað áttu þeir að gera?

Jón og Helgi veltu þessu fyrir sér um stund og til að mynda kom upp sú hugmynd hvort þeir ættu kannski að opna þarna kaffihús.

Á þessum tíma var Helgi oft í Ameríku og einn daginn segir hann við Jón:

„Ég veit! Ég hringi í þá í Kentucky og spyr þá hvort þeir vilji ekki opna stað með okkur hér!“

Og hvað gerðist?

„Nú, Helgi hringdi í þá og þeir sögðu bara Okay“ svarar Jón og ekki er laust við að smá amerískur hreimur hafi hljómað í orðinu Okay.

Saman hófu þeir því rekstur félagarnir á Kentucky (KFC) á Íslandi þótt síðar hefði orðið samkomulag um að Jón tók Skalla en Helgi hélt áfram með KFC.

Þetta gekk rosalega vel strax frá upphafi. 

Nema kannski fyrir það að það var ekki til kjúklingur á landinu. Að minnsta kosti ekki fyrir svona stað,“ 

segir Jón.

Og hvað gerðuð þið þá?

„Við keyptum bara hænsnabú fyrir austan sem hafði farið í þrot. Greiddum skuldirnar en sömdum við strákinn sem hafði átt þetta að sjá um þetta fyrir okkur. Ekki það að ég man þegar við fórum þarna fyrst og mokuðum heilu metrunum út af skít,“ segir Jón og lýsir með tilþrifum aðkomunni í upphafi.

„Seinna fór Helgi með tékkheftið austur og greiddi stráknum fyrir hans framlag í rekstrinum á hænsnabúinu. Helgi er réttlátur þegar kemur að svona málum. Þannig að strákurinn átti búið áfram og KFC hélt áfram að fá kjúklinga þaðan ásamt fleiri stöðum.“

Jón segir þá félaga alltaf jafn góða vini. Helgi á til dæmis Skalla sem rekinn er við hliðina á KFC á Selfossi.

„Ég sé enn um að gera ísinn fyrir okkur báða og eina sælgætið sem við seljum í dag er hraunið frá Góu“ segir Jón og brosir.

Það er varla að sjá að Jón sé fæddur árið 1944, svo reffilegur er hann og enn stendur hann vaktina í Skalla. Reksturinn hefur mikið breyst því fyrir hálfri öld var Skalli sjoppa sem seldi nammi, tóbak og ís en í dag er Skalli í Ögurhvarfi veitingahús með úrval á matseðli, heimagerðan ís, kaffi og ýmsa aðra drykki og auðvitað hraun frá Helga í Góu.Vísir/Vilhelm

Þykkvabæjarævintýrið

En sögunni er þó hvergi nærri lokið hér því enn átti margt eftir að gerast hjá Jóni.

Sem svo sannarlega átti eftir að venda sínu kvæði í kross.

„Þetta var kannski svolítið leiðinlegur tími en málið var að í Þykkvabæ var farið af stað með rekstur á kartöfluverksmiðju og þar var bróðir minn yfirmaður. Ég gerðist auðvitað svo vitlaus að fara strax að skipta mér að og fannst þeir ekki vera að gera þetta rétt,“ segir Jón.

Sem dæmi lýsir hann pokum undir Þykkvabæjar franskar kartöflur sem var svo lélégur að hann rifnaði við minnsta hnjask.

„Ég fékk því Kristínu á AUK til að teikna nýjar umbúðir og fór að selja kartöflurnar í nokkrar búðir,“ segir Jón en fyrir þá sem ekki hafa minni til var Kristín Þorkelsdóttir stofnandi og eigandi AUK auglýsingastofu, sem stofnuð var 1967, einn þekktasti grafíski hönnuðurinn á Íslandi um langa hríð og hlaut síðar Hönnunarverðlaun Íslands fyrir störf sín.

Jón endaði því með að selja Skalla sjoppurnar sínar en setja á laggirnar dreifingafyrirtæki í stóru húsnæði í Garðabæ, sem sá um að selja og dreifa Þykkvabæjarkartöflum til verslana.

Þetta var erfiður rekstur og á þessum tíma var mikil pólitík í öllum málum.

Ekki síst íslensku viðskiptalífi.

Þar sem pólitíkusar jafnvel réðu því hverjir lifðu og hverjir ekki.

„Helsti samkeppnisaðilinn okkar var Ágæti og á milli okkar gat oft verið mikill slagur. En það komu erfið ár. Þarna hrundu Mikligarður og Kron, Grundarkjör og fleiri verslanir. Þegar Ágæti fór síðan í þrot héldum við að nú væri þetta komið hjá okkur því við værum laus við stærsta samkeppnisaðilann,“ segir Jón en bætir við:

„Ég man bara að það var tilkynnt um 100 milljóna króna þrot Ágætis skömmu fyrir jól og síðan var tilkynnt 3.janúar um nýtt félag með engar skuldir en nýtt hlutafé sem þýddi að þeir héldu áfram. En svona bara pólitíkin á þessum tíma.“

Fór svo að Jón ákvað að hætta í rekstrinum en þá búinn að tapa svo miklum fjármunum að ekkert annað var í stöðunni en að byrja upp á nýtt með tvær hendur tómar. Reksturinn hélt þó áfram og sömuleiðis verksmiðjan í Þykkvabæ.

Hefur þú einhvern tímann upplifað reiði eða gremju yfir því hvernig þessi mál fóru eða að þurfa að byrja alveg upp á nýtt?

„Nei,“ svarar Jón fljótur í bragði.

„Ég hef hreinlega aldrei verið með það viðhorf að verða reiður út af neinu eða festast í einhverri gremju.“

Á níunda áratugnum seldi Jón Skalla sjoppurnar þrjár og setti á laggirnar fyrirtæki í Garðabæ sem sá um að selja og dreifa Þykkvabæjarkartöflur. Jón endaði með að tapa miklum fjármunum á þeim rekstri þótt félagið næði að starfa áfram. Í kjölfarið var ekkert annað að gera en að byrja aftur upp á nýtt með tvær hendur tómar. Jón byrjaði því aftur að reka Skalla árið 1993 og segir það hafa skipt miklu máli að Hrafnhildur Bernhardsdóttir eiginkona hans hefur stutt við bakið á honum alla tíð. Í Skalla í Ögurhvarfi má sjá stórar og fallegar ljósmyndir sem hér má sjá í bakgrunni við Jón en myndarenningarnir eru hugmynd Hrafnhildar og setja mikinn svip á staðinn. Vísir/Vilhelm

Skalli Jóns hefur rekstur á ný

Eftir kartöfluævintýrið þurfti Jón að taka ákvörðun um hvað hann ætti að gera.

Svo vel vildi til að Kristinn Björnsson heitinn, þáverandi forstjóri Skeljungs, leitaði til Helga í Góu um hugmyndir að aðila til að vera með veitingar og sjoppu í Skeljungsstöðinni að Grjóthálsi.

Helgi benti á Jón sem enn átti bæði nafnið Skalla og merkið. Árið 1993 hóf Jón því aftur að reka Skalla.

Þó í nokkuð breyttri mynd því tíðarandinn þróaði gömlu sjoppurnar úr því að selja sælgæti og tóbak og í að selja veitingar og mat.

Skalli gekk vel Grjóthálsi og þar undi Jón sér vel með reksturinn í 17 ár.

Ekki síst segir Jón það hafa hjálpað mikið að Hrafnhildur, síðari eiginkona hans, hefur stutt hann með öllum ráðum og dáðum og vann mikið með honum á Skalla þegar hann byrjaði með þann rekstur á ný. Þrátt fyrir að hún sæi einnig að mestu um bæði heimili og börn.

Snemma árs árið 2011 höfðu nýir eigendur tekið við rekstri Skeljungs. Jóni var þá tilkynnt með aðeins um mánaðarfyrirvara að leigusamningurinn hans yrði ekki framlengdur á Grjóthálsi.

Voru þá góð ráð dýr.

Jón fann þá fokhelt húsnæði í Ögurhvarfi sem á þeim tíma var þó langt frá því að vera jafn uppbyggt svæði og nú er.

En Jón hafði trú á svæðinu.

Því eftir kartöfluævintýrið var það eina sem Jón náði að halda eftir gamall sumarbústaður við Elliðarvatn. 

Þar hafa hann og eiginkonan hans Hrafnhildur, byggt upp sannkallaðan sælureit. 1,7 hektarasvæði þar sem eru bæði hænur og hestar og algjört skjól frá öðru þéttbýli.

Jón vissi því sem var að uppbyggingin lofaði góðu á svæðinu og fór svo að hann festi sér húsnæðið í Ögurhvarfi tvö og tilkynnti um opnun Skalla á nýjum stað.

Þar opnaði Skalli í núverandi mynd þann 1.apríl árið 2011.

Jón er stoltur þegar hann talar um börnin sín sem þekkja það vel að vinna á Skalla. Sara dóttir hans sá til dæmis um reksturinn á Skalla á Reykjavíkurvegi og í dag standa vaktina með honum synirnir Atli og Hrafn. Jón segir það afar góða tilfinningu að synirnir séu tilbúnir til að taka við. Enda viti þeir meira en hann um svo margt sem fólk vill á veitingastöðum í dag. Hér er mynd af Jóni og Atla.Vísir/Vilhelm

Reksturinn gengur vel og nú eru tveir synir hans með honum í rekstrinum. 

Það finnst Jóni gaman og segir líka synina hafa miklu ferskari sýn á svo margt sem hans kynslóð hugsar öðruvísi. Ekki síst þegar kemur að mat og veitingum.

„Staðan er þannig í dag að allt sem ég segi er vitlaust,“ segir Jón og skellihlær. En viðurkennir að honum finnist afar vænt um að synirnir hafi áhuga á að taka við rekstrinum. Það sé góð tilfinning að Skalli haldi áfram til næstu kynslóðar.

Aðspurður um erfiðustu rekstrartíma Skalla segist Jón hreinlega ekki geta sagt að neinn tími hafi verið erfiður rekstrarlega. Allt sé þetta þó mikil vinna.

Í bankahruninu var hann til dæmis ekki með neinar skuldir og því gekk honum mjög vel á þeim árum.

Covid tók þó auðvitað á Skalla en þá kom fólk meira og keypti mat til að taka með heim frekar en að borða á staðnum.

Börn Jóns eru Sara, Magnús og Andrea úr fyrri hjónabandi en Hrafn, Atli og fóstursonurinn Kári úr síðari hjónabandi.

Það eru Hrafn og Atli sem standa vaktina með Jóni núna en fleiri af börnunum hafa þó tekið þátt í rekstri Skalla í gegnum tíðina. Unnið með skóla og á sumrin og það var elsta dóttirin Sara sem sá um Skalla á Reykjavíkurvegi þegar Skalli opnaði á sínum tíma þar.

Jafn ótrúlega og það hljómar spannar saga Skalla nú ríflega hálfa öld. 

Og ekki sér á karlinum honum Jóni enn.

Já ég er svo sem heppinn að vera hraustur því svona rekstur gengur út á að maður standi vaktina sjálfur. 

En ég hef líka verið svo rosalega heppinn með gott starfsfólk alla tíð og það eru svo margir sem hafa unnið hjá mér í mörg, mörg ár. Duglegt og skemmtilegt starfsfólk.“


Tengdar fréttir

„Persónulega þoldi ég ekki sjálfa mig“

Fyrri hluti viðtals við Guðbjörg Ósk Friðriksdóttur, sem margir upplifa sem hina íslensku Elizabeth Gilbert. Síðari hluti viðtalsins verður birtur á Vísi klukkan átta á sunnudagsmorgun, annan í jólum.

Röddin mín: Naktir miðaldra karlmenn í fjáröflun

„Þetta er besta partí sem ég hef farið í,“ segir Dalvíkingurinn Friðrik Már Þorsteinsson um fimmtugsafmælið sitt; veislu sem hann hélt í Hull í Bretlandi þar sem hann býr ásamt eiginkonu og tveimur dætrum.

„Af hverju erum við hér?“

„Af hverju erum við hér?“ spurði Guðrún Jóhannesdóttir sjálfa sig í göngutúr laust fyrir aldamótin.

„Í upphafi fólst áskorunin í því að fá mömmu og pabba til að sleppa tökunum“

„Tilhugsunin um að taka við sem framkvæmdastjóri var reyndar erfið því að ég vissi ekki hvort að systkinin mín myndu láta að stjórn. En það hefur gengið lygilega vel,“ segir Kristín Gísladóttir framkvæmdastjóri Garðheima í léttum tón og systkinahópurinn; Kristín, Sigurður, Olga og Jóna skellir upp úr.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×