Innherji

Formaður Gildis segir stöðu sjóðsins ósjálfbæra til framtíðar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Gylfi Gíslason, stjórnarformaður Gildis.
Gylfi Gíslason, stjórnarformaður Gildis. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Staða Gildis lífeyrissjóð er ósjálfbær til framtíðar sem þýðir að yngri kynslóðum er lofað hærri lífeyrir en hægt er að standa við. Þetta kemur fram í ávarpi Gylfa Gíslasonar, stjórnarformanns Gildis og framkvæmdastjóra Jáverks, í nýbirtri árskýrslu sjóðsins en hann telur nauðsynlegt að grípa til aðgerða svo að bregðast megi við þessu ójafnvægi.

Að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga gaf fjármálaráðuneytið út og staðfesti nýjar dánar- og eftirlifendatöflur í lok ársins 2021. Hingað til hafa skuldbindingar sjóðsins verið reiknaðar út frá lífslíkum sem byggðu á reynslu fortíðar en ekki spá til framtíðar.

Stjórn Gildis ákvað að nota þessar nýju lífslíkur, sem hafa í för með sér auknar skuldbindingar, við uppgjör sjóðsins árið 2021 þrátt fyrir heimild til að seinka innleiðingu þeirra um tvö ár. Staða sjóðsins er nú jákvæð um 1,4 prósent umfram heildarskuldbindingar þrátt fyrir að tekið sé fullt tillit til nýrra lífslíka. Ef miðað hefði verið við óbreyttar lífslíkur hefði heildarstaða sjóðsins verið jákvæð um sem nemur 11,1 prósentum.

„Þar er hins vegar ekki öll sagan sögð,“ segir Gylfi og bendir á að hinar nýju lífslíkur séu reiknaðar út fyrir hvern árang fyrir sig. Afleiðing þess er að það er verulegt ójafnvægi milli áfallinna skuldbindinga og framtíðarskuldbindinga. Þannig eru áfallnar skuldbindingar sjóðsins jákvæðar sem nemur 12,9 prósentum en framtíðarskuldbindingar sjóðsins umfram áætluð núvirt framtíðariðgjöld eru neikvæðar um 12,6 prósent.

„Í einfölduðu máli er staða sjóðsins ósjálfbær til framtíðar og því er verið að lofa yngri kynslóðum hærri lífeyri en hægt er að standa við. Á sama hátt má segja að eldri kynslóðir séu ekki að njóta þess að staða sjóðsins í eignum umfram áfallnar skuldbindingar er verulega jákvæð. Við þessu ójafnvægi verður að bregðast,“ segir Gylfi.

Á sama hátt má segja að eldri kynslóðir séu ekki að njóta þess að staða sjóðsins í eignum umfram áfallnar skuldbindingar er verulega jákvæð.

Stjórn og starfsmenn sjóðsins hafa á undanförnum árum lagt mikla vinnu í að skoða hvernig bregðast skuli við auknum lífslíkum. Stjórnin hefur ákveðið að leggja fyrir fulltrúaráð og ársfund tillögur að samþykktabreytingum og nýjum réttindatöflum. Ný réttindatafla þarf að vera um 10 prósentum lægri að meðaltali en núgildandi réttindatafla til að setja framtíðarstöðu sjóðsins í jafnvægi.

Hrein nafnávöxtun Gildis árið 2021 nam 17,8 prósentum sem þýðir að hrein raunávöxtun nam 12,4 prósentum samkvæmt ársuppgjöri sjóðsins sem nú liggur fyrir. Hrein eign Gildis í lok ársins nam rétt rúmlega 916 milljörðum króna og jókst um 152 milljarða króna milli ára. Munar þar mest um að hreinar fjárfestingartekjur á árinu námu 138,5 milljörðum króna. Ávöxtun sjóðsins á árinu 2021 var fyrst og fremst borin uppi af innlendum og erlendum hlutabréfum og erlendum framtakssjóðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×