Umræðan

Hagfræðingur sem hefur rangt fyrir sér

Björgvin Ingi Ólafsson skrifar

Á árunum 2015 til 2017 hélt ég nokkrar ræður og skrifaði greinar (t.d. þessa) um framtíð bankakerfisins, yfirvofandi hættur á markaðsrofi vegna aukinnar samkeppni frá tæknifyrirtækjum, rofi vegna sprækra fjártæknisprota og innrás á markaðinn frá kraftmiklum og risastórum erlendum samkeppnisaðilum.

Ég var sannfærður um að ný Evróputilskipun um greiðsluþjónustu og breytingar á greiðslumarkaði, PSD2, myndi hafa mikil áhrif og aðgangshindrunum á fjármálamarkaði rutt úr vegi sem aldrei fyrr. Ég bjó þessa sýn mína ekki til í tómarúmi. Flestar skýrslur og kynningar sérfræðinga voru á þessa leið og vitnaði ég meðal annars í einni ræðu til minna fyrum kollega hjá McKinsey sem töldu að á tíu árum frá 2015 myndi 40% af tekjum og 60% af hagnaði viðskiptabankastarfsemi leka í burtu úr bönkunum.

Núna þegar um þegar langt liðið er á spátímabilið hefur vænt tekju- og hagnaðarrof ekki orðið að veruleika. Ýmislegt annað hefur gerst og haft mikil áhrif á banka en bönkum hefur bara víðast gengið ágætlega að byggja upp skilvirka og arðbæra starfsemi.

Þegar ég lít til baka velti ég fyrir mér hvernig stendur á því að sérfræðingarnir gátu ekki spáð betur fyrir um hvernig tekjur í frekar stöðugum og vel skilgreindum rekstri eins og í banka myndi þróast á tíu árum. Í nýlegu og bráðsnjöllu hlaðvarpi stjórnandans Snorra Björnssonar þar sem hann ræðir við Þórð Pálsson, forstöðumann fjárfestinga hjá Sjóvá segir sá síðarnefndi að helsti atvinnusjúkdómur sérfræðinga á fjármálamarkaði sé oftrú (á eigin hyggjuviti). Þetta fékk mig til að hugsa. Skorti okkur auðmýkt, hefðum við ekki átt að spá eða var allt í lagi að spá og hafa rangt fyrir sér? Ég velti fyrir mér hvernig maður eigi að haga sér til lágmarka vitleysuna, og kannski oftrúna, sem Þórður lýsir.

Þegar ég lít til baka velti ég fyrir mér hvernig stendur á því að sérfræðingarnir gátu ekki spáð betur fyrir um hvernig tekjur í frekar stöðugum og vel skilgreindum rekstri eins og í banka myndi þróast á tíu árum.

Þrátt fyrir að framangreindar spár hafi ekki ræst að öllu leyti hafa þó spádómar um breytingar á starfsemi þeirra ræst að einhverju marki á undanförnum árum.

Þannig heldur bankaútibúum áfram að fækka. Covid-19 kenndi okkur og bönkunum að það er nánast hægt að sinna öllum sínum bankaviðskiptum án þess að mæta í bankaútibú og líklegt að útibúunum haldi áfram að fækka án þess að við tökum neitt sérstaklega eftir því.

Starfsfólki bankanna hefur líka fækkað verulega og áfram heldur vegferð bankanna í þá átt að starfsfólkið sé sem mest í að sinna störfum sem byggð eru á sérfræðiþekkingu fremur en handavinnu sem í stöðugt auknum mæli hefur verið útrýmt eða sjálfvirknivædd.

Samkeppni hefur vissulega aukist í bankaþjónustu og meðal banka á Íslandi. Fjarskipta- og fjölmiðlafélagið Sýn stefnir í færsluhirðingu, samkeppnisaðili þeirra Síminn er virkt í greiðslum og greiðslufrestun (e. buy now pay later) með Síminn Pay appinu og tengingu þess við kassakerfi og netverslanir. Kvika hefur bæst við samkeppnisflóruna og eflst stöðugt. Kvikva gerir sig stöðugt meira gildandi í samkeppni við stærri bankana með framsæknum lausnum eins og Auði, Aur, Netgíró og er bakland tryggingatæknifélagsins Verna þar sem TM, dótturfélag Kviku, er vátryggjandi trygginga Verna. Ýmislegt hefur því breyst.

Það er ágætt að vita að spekingar hafa ekki alltaf rangt fyrir sér um alveg allt þó stóra myndin sé oftast svolítið bjöguð.

Eitt af því sem hefur elst ágætlega af því sem ég predikaði var að fyrirtæki þyrftu að tileinka sér umburðarlyndi fyrir því að hafa rangt fyrir sér. Mér þótti, og þykir enn, stórmerkilegt og framsýnt þegar spænski stórbankinn BBVA ákvað að leggja áherslu í sinni umbreytingu á , frumkvöðlaverklag og nýsköpun með tilheyrandi umburðarlyndi fyrir mistökum.

Viðbragðið við því að spá vitlaust er því ekki að hætta að spá heldur einfaldlega að kunna að eiga sem best við það þegar við erum úti að aka.

Það sem er svo einfalt og um leið magnað hjá BBVA er að þau hafa áttað sig á því að það að sækja fram af auknum krafti og hraða þýðir fleiri mistök. Þau áttuðu sig á að það þurfi að kenna fyrirtækinu og fyrirtækjamenningunni að eiga við aukna óvissu og minni spávissu með meiri framsækni. Ef rétt er farið þá styrkja þessi mistök fyrirtækin. Þau hjá BBVA lögðu áherslu á að byggja upp fyrirtækjabrag sem er nógu kvikur til að geta glímt við, og breytt, eftir því sem hlutirnir þróast öðruvísi en gert var ráð fyrir.

Úr skjali frá BBVA frá 2014.

Það má ekki gleyma að það er gagnlegt að spá þó spárnar reynist á endanum rangar. Bara að velta fyrir sér hvernig hlutirnir geti þróast mun hjálpa okkur að takast á við framtíðina, hvernig sem hún verður. Viðbragðið við því að spá vitlaust er því ekki að hætta að spá heldur einfaldlega að kunna að eiga sem best við það þegar við erum úti að aka.

Við gerum það með því að byggja spræka innviði og skipulag sem hjálpar okkur að bregðast betur og hraðar við en samkeppnin þegar hlutirnir breytast. Þá getum við unnið sigur í samkeppninni þó við höfum oft rangt fyrir okkur.

Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.