Körfubolti

Ármann einum sigri frá Subway-deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ármann vann dramatískan sigur í kvöld og er nú aðeins einum sigri frá sæti í Subway-deild kvenna.
Ármann vann dramatískan sigur í kvöld og er nú aðeins einum sigri frá sæti í Subway-deild kvenna. Mynd/Karfan.is

Ármann er einum sigri frá Subway-deild kvenna eftir eins stigs sigur gegn ÍR í kvöld. Lokatölur 88-87, og Ármann leiðir nú einvígið 2-1.

Heimakonur í Ármanni byrjuðu betur og náðu fljótt átta stiga forskoti. Gestirnir í ÍR náðu að snúa leiknum sér í hag, en góður kafli Ármanns undir lok fyrsta leikhluta sá til þess að heimakonur leiddu með níu stigum að honum loknum.

Ármann hélt forskoti sínu lengst af í öðrum leikhluta. ÍR-ingar gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn í þrjú stig áður en flautað var til hálfleiks og staðan þegar gengið var til búningsherbergja var 50-47, Ármanni í vil.

Þriðji leikhluti var svo gríðarlega kaflaskiptur. Heimakonur byrjuðu af miklum krafti og náðu mest 19 stiga forskoti, en gestirnir minnkuðu muninn á ný og þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan 76-70, Ármanni í vil.

Jafnræði var með liðunum í lokaleikhlutanum og heimakonur í Ármanni áttu erfitt með að hrista gestina af sér. ÍR-ingar náðu að jafna metin undir lok leiksins, í stöðunni 87-87 en nær komust þær ekki. Jónína Þórdís Karlsdóttir setti niður eitt af tveim vítum á lokasekúndunum og niðurstaðan varð eins stigs sigur Ármanns, 88-87.

Schekinah Sandja Bimpa var langstigahæst í liði Ármanns með 39 stig, en hún tók einnig níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Í liði ÍR var Gladiana Aidaly Jimenez atkvæðamest með 27 stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×