Innherji

Íslenskir eftirlitsstjórar lengur við völd en gengur og gerist á Norðurlöndum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Fjarskiptastofu og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. 
Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Fjarskiptastofu og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. 

Forstjórar Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlitsins hafa setið lengur í embætti en aðrir forstjórar eftirlitsstofnana á Norðurlöndum og í meirihluta tilfella munar áratug eða meira.

„Það er auðvitað ekki æskilegt að menn sitji þarna um aldur og ævi. Það er ekki æskilegt fyrir viðkomandi, eftirlitstofnunina, né þá sem sæta eftirliti,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður og fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Innherji tók saman hversu lengi forstjórar norrænna eftirlitsstofnana, sem hafa fjarskipti, samkeppnismál eða fjármálageirann á sinni könnu, hafa setið í embætti. Efst á listanum er Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Fjarskiptastofu, sem var skipaður árið 2002 og hefur því setið í 20 ár. Samkvæmt lagarammanum sem er utan um Fjarskiptastofu er forstjórinn skipaður af ráðherra til fimm ára í senn en engin takmörk eru fyrir því hversu oft er hægt að skipa sama mann.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, er sá sem hefur setið næstlengst í embætti. Hann var ráðinn af stjórn stofnunarinnar árið 2005 er því búinn að stýra henni í nærri 17 ár. Frá því að Samkeppniseftirlitið var stofnað árið 2005 og fram til ársins 2020 var ráðning forstjóra stofnunarinnar ótímabundin.

Með nýlegri lagabreytingu var kveðið á um ráðningu til fimm ára í senn og að ekki mætti ráða saman mann oftar en tvisvar. Breytingin gildir hins vegar ekki um Pál Gunnar með afturvirkum hætti.

Á meðan Hrafnkell og Páll Gunnar hafa stýrt sömu eftirlitsstofnununum í 20 og 17 ár er starfsaldur annarra forstjóra eftirlitsstofnana, sem sinna fjarskiptum og samkeppnismálum, svo sem Traficom í Finnlandi, Konkurrensverkhet í Svíþjóð og Erhverfsstyrelsen í Danmörku, á bilinu 0 til 7 ár. Algengt er að skipunartími hjá slíkum stofnunum sé á bilinu 5 til 7 ár.

„Sú hætta er fyrir hendi að menn nálgist stofnunina eins og hún sé þeirra eigin,“ segir Óli Björn. „Það er ekki gagnrýni á viðkomandi einstakling heldur er heilbrigt að skipt sé um yfirmenn í eftirlitstofunum, sem hafa víðtæk og vandmeðfarin völd, með reglubundnum hætti. Þannig koma líka ný viðhorf og nýir straumar inn í stofnanirnar.“

Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, hefur gegnt starfinu í rétt rúm 10 ár en tvö starfssystkini hennar á Norðurlöndum hafa stýrt sömu eftirlitsstofnununum lengur. Það eru Anneli Tuominen, forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins, sem tók við stjórnartaumunum fyrir þrettán árum síðan og Morten Baltzeren, forstjóri norska fjármálaeftirlitsins, sem hefur setið í 11 ár. 

Sú hætta er fyrir hendi að menn nálgist stofnunina eins og hún sé þeirra eigin

Þegar Fjármálaeftirlitið sameinaðist Seðlabanka Íslands var Unnur, þá starfandi sem forstjóri eftirlitsstofnunarinnar, skipuð varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits. Eins og gildir um forstjórastarfið hjá Samkeppniseftirlitinu eru varaseðlabankastjórar ráðnir til fimm ára í senn og aðeins er hægt að skipa sama einstakling tvisvar.

Í umfjöllun Innherja í síðustu viku kom fram að Síminn og dótturfélagið Míla teldu að „kerfisbundin slagsíða“ Fjarskiptastofu hefði litað samskipti og aðgerðir stofnunarinnar gagnvart Símasamstæðunni. Orri Hauksson, forstjóri Símans, sagði að það væri sama hversu miklar breytingar yrðu á fjarskiptamarkaði, afstaða stofnunarinnar til fyrirtækja, manna og málefna héldist óbreytt.

Stóru fjarskiptafyrirtækin hafa ásamt hagsmunasamtökum atvinnurekenda kallað eftir því að Fjarskiptastofa verði sameinuð Samkeppniseftirlitinu, meðal annars til að tryggja skjótari meðferð mikilvægra mála. Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar verður stefnt að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu á fyrri hluta kjörtímabilsins og verða kannaðir möguleikar á sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×