Umræðan

Stríð og ábyrgar fjárfestingar

Kristín Jóna Kristjánsdóttir skrifar

Áhrifa innrásar Rússa í Úkraínu gætir víða og eru fjármálamarkaðir þar ekki undanskildir. Í kjölfarið hefur nokkuð borið á gagnrýni á stefnur um ábyrgar fjárfestingar sem útiloka vopnaframleiðendur og vopnasölu. Ýmsir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar, bæði á Íslandi og erlendis, hafa innleitt slíkar stefnur. Látið er að því liggja að um barnaskap sé að ræða og veruleikinn sé því miður sá að ekki sé raunhæft að útloka vopnaframleiðendur með öllu. Það geti leitt til þess að þjóðir sem ráðist er á, líkt og Úkraína, geti síður varið sig. En er það svo?

Fjárfestar sem á annað borð beita útlokun í fjárfestingum sínum útiloka í flestum tilvikum vopn sem skilgreind eru sem umdeild (e. controversial weapons) eða gereyðingarvopn. Undir slík vopn falla kjarnorkuvopn, vopn sem innhalda rýrt úran , klasasprengjur og jarðsprengjur, sýkla- og efnavopn og vopn sem innihalda hvítt fosfór.

Flestir geta gert sér í hugarlund afleiðingarnar sem beiting slíkra vopna hefur í för með sér. Innrásin í Úkraínu minnir okkur óþyrmilega á hversu hættuleg þau eru í höndum rangra aðila. Kjarnorkusprengju hefur verið beitt tvisvar í sögunni með hryllilegum afleiðingum. Sprengjan sem var varpað á Hiroshima innihélt sem jafngilti 15 kílótonnum af TNT og sú sem féll á Nagasaki 20 kílótonnum. Vopnin í dag eru umtalsvert öflugri möguleg áhrif beitingar þeirra sömuleiðis meiri.

Samkvæmt samtökum ICAN (International Campaign to Abolish Nuclear Weapons) ráða níu ríki yfir kjarnorkuvopnum og er fjöldi þeirra yfir 13 þúsund. Langmest magn kjarnorkuvopna er í eigu Rússlands og Bandaríkjanna eða um 11.800. Önnur ríki sem hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða eru Kína, Frakkland, Bretland, Pakistan, Indland, Ísrael og Norður Kórea.

Ýmsir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar, bæði á Íslandi og erlendis, hafa innleitt stefnur um ábyrgar fjárfestingar. Látið er að því liggja að um barnaskap sé að ræða og veruleikinn sé því miður sá að ekki sé raunhæft að útloka vopnaframleiðendur með öllu.

Hollensku friðarsamtökin PAX hafa frá árinu 2013 gefið árlega út skýrsluna „Don´t bank the bomb“. Skýrslan er eina sinnar tegundar í heiminum en þar eru reglulega uppfærðar upplýsingar um hverjir framleiða og fjármagna kjarnorkuvopn. Samkvæmt henni hafa 25 fyrirtæki mikla aðkomu að framleiðslu slíkra vopna og eru mörg þeirra skráð á almennan markað og því fjárfestum aðgengileg.

Meðal þessara fyrirtækja eru flugvélaframleiðendur á borð við og Airbus og Boeing. Airbus í samvinnu við ArianeGroup og MBDA framleiðir eldflaugar sem hafa millilanga drægni og er að finna í franska kjarnorkuvopnabúrinu. Boeing er með nokkra samninga við bandaríska ríkið þar sem kjarnorkuvopn koma við sögu. Má þar nefna framleiðslu á tilteknum búnaði fyrir vopn með kjarnaodda og uppfærslu B61-12 kjarnorkusprengjunnar sem fyrst var framleidd árið 1968. Einnig þróun, framleiðslu og prófanir á langdrægum eldflaugum sem bera kjarnorkuvopn ásamt hugbúnaði fyrir flaugarnar. Virði samninga Boeing við bandaríska ríkið nemur um milljarði dollara.

Eftir undirskrift TPNW samningsins hefur þeim fjármálastofnunum farið fjölgandi sem losað hafa stöður sínar í fyrirtækjum sem tengjast framleiðslu gereyðingarvopna. Fjármálastofnunum sem taka þátt í fjármögnun á slíkum fyrirtækjum fækkaði um 52 milli áranna 2018 og 2019.

Meðal annarra fyrirtækja á listanum má nefna China Aerospace Science and Technology Corporation(CASC) og Rostec. CASC er hluti af geimferða- og varnarmálaiðnaði Kína en þar er verið að þróa langdrægar og millilangar eldflugar sem geta borið kjarnorkuvopn. Rostec er rússneskt fyrirtæki sem framleiðir Islander-M eldflaugakerfið sem getur borið kjarnorkuvopn. Bæði Rostec og CASC eru í ríkiseigu og geta fjárfestar því ekki útilokað þau að fullu öðruvísi en með því að eiga ekki viðskipti með ríkisskuldabréf gefin út af Kína og Rússlandi. Boeing og Airbus eru aftur a móti skráð í kauphallir.

Framleiðsla kjarnorkuvopna er bönnuð samkvæmt TPNW sáttmála Sameinuðu þjóðanna (Treaty on the Prohibition of Nuclear Weapons) sem samþykktur árið 2017 og tók gildi í janúar 2021 hjá þeim löndum sem hafa undirritað hann. Sáttmálinn felur í sér að bannað er að framleiða og þróa kjarnaorkuvopn sem og að aðstoða við gerð þeirra. Ísland hefur ekki fullgilt sáttmálann en það hafa 59 ríki gert og 30 ríki til viðbótar hafa skrifað undir sáttmálann en ekki fullgilt hann. Ekkert þeirra landa sem ráða yfir kjarnorkuvopnum í dag hafa skrifað undir sáttmálann. Nánast öll lönd í heiminum hafa með lögum að lágmarki skuldbundið sig til að semja um afvopnun kjarnorkuvopna. Eftir undirskrift TPNW samningsins hefur þeim fjármálastofnunum farið fjölgandi sem losað hafa stöður sínar í fyrirtækjum sem tengjast framleiðslu gereyðingarvopna. Fjármálastofnunum sem taka þátt í fjármögnun á slíkum fyrirtækjum fækkaði um 52 milli áranna 2018 og 2019.

Önnur umdeild vopn

Klasasprengjur og jarðsprengjur eru umdeild vopn. Almennt er talið að notagildi þeirra í hernaði sé takmarkað en manntjónið sem það veldur á óbreyttum borgurum þeim mun meira.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við klasasprengjum tók gildi árið 2010 og hafa nú þegar 110 lönd fullgilt hann og er Ísland þeirra á meðal. Þá skrifaði Ísland undir samning Sameinuðu þjóðanna um algjört bann við jarðsprengjum árið 1997. Í dag hafa 165 lönd fullgilt þann samning.

Ábyrgar fjárfestingar útloka almennt ekki fjárfestingar til hefðbundinnar vopnaframleiðslu þó vissulega séu einhverjir fjárfestar sem útloka vopnaframleiðslu með öllu.

Talið er að 25 lönd búi yfir eða vinni að því að eignast efnavopn en 10-12 lönd eru grunuð um að eiga eða vinna að því að eignast sýklavopn. Í gildi eru bæði samningar um bann við efnavopnum og sýklavopnum. Efnavopnsamningurinn CWC (Chemical Weapon Convention) var undirritaður árið 1993 og hafa 188 af 196 löndum sem Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna undirritað hann. Þá hafa 193 ríki undirritað samning, frá 1972, um algjört bann við sýklavopnum. Það má því segja að í heiminum sé almenn samstaða, að nafninu til hið minnsta, um bann við þróun framleiðslu og notkun sýklavopna.

Áhætta og fjárfestingar

Markmið fjárfestinga er að ávaxta fjármuni en taka þarf tillit til áhættunnar sem tekin er til að sækja ávöxtun og að sjálfsögðu þess lagaumhverfis sem um fjárfestingarnar gilda. Ljóst er að gereyðingarvopn eru flest ólögleg á Íslandi sem og víðast hvar í heiminum að undanskildum kjarnorkuvopnum. En þá er vert að skoða áhættuna sem beiting kjarnorkuvopna hefur í för með sér með ávöxtun í huga. Erfitt er að sjá að nokkur muni hagnast af því ef slíkum vopnum er beitt þó ekki sé hægt að útiloka tímabundinn hagnað vegna fjárfestingar í framleiðendum þeirra. Líkur á að kjarnorkuvopnum verði beitt eru litlar en þó einhverjar og ber því að hafa það í huga við mat á áhættu. Hér er ekki minnst á þau siðferðilegu sjónarmið sem sannarlega eru til staðar þegar kemur að þessum vopnum en það væri efni í aðra umfjöllun.

Það er ekki síst með áhættu í huga sem fest hefur verið í stefnu í ábyrgum fjárfestingum að sniðganga framleiðendur gereyðingarvopna. Ábyrgar fjárfestingar útloka almennt ekki fjárfestingar til hefðbundinnar vopnaframleiðslu þó vissulega séu einhverjir fjárfestar sem útloka vopnaframleiðslu með öllu. Getu landa til að verja sig verður tæplega teflt í voða þó fjárfestar kjósi að fjármagna ekki framleiðslu og þróun gereyðingarvopna.

Höfundur er fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×