Atvinnulíf

„Og þá er auðveldara að vita í hvaða átt við viljum stefna í starfi“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Síðasta áratuginn hefur Hugrún Linda Guðmundsdóttir haldið úti námskeið fyrir fólk sem vill fara í persónulega stefnumótun fyrir sjálft sig. Hugrún segir heilmikla sjálfskoðun fara fram í þessari vinnu og yfirleitt sé fólk mun skýrara í hugmyndum um það hvað það í raun vill gera eða hvert það vill stefna, þegar stefnumótunarvinnunni lýkur. 
Síðasta áratuginn hefur Hugrún Linda Guðmundsdóttir haldið úti námskeið fyrir fólk sem vill fara í persónulega stefnumótun fyrir sjálft sig. Hugrún segir heilmikla sjálfskoðun fara fram í þessari vinnu og yfirleitt sé fólk mun skýrara í hugmyndum um það hvað það í raun vill gera eða hvert það vill stefna, þegar stefnumótunarvinnunni lýkur.  Vísir/Vilhelm

Ertu viss um að þú vitir hvert þú stefnir eða ertu bara með óljósar hugmyndir um að langa að ná langt eða ganga vel í starfi og fá góð laun?

„Þegar maður er búin að fara í svona stefnumótun er oft orðið mun skýrara hvernig við viljum haga lífi okkar og hvað við viljum setja í forgang í lífinu. Við þekkjum líka styrkleikana okkar og gildin betur og þá er auðveldara að vita í hvaða átt við viljum stefna í starfi,“ segir Hugrún Linda Guðmundsdóttir félagsráðgjafi, markþjálfi og núvitundarkennari hjá Heillandi hugur, Fræðslu og heilsusetur.

En síðustu tíu árin, hefur Hugrún verið með námskeið þar sem fólk fer í stefnumótun fyrir sjálft sig, meðal annars til að átta sig betur á því hvert það stefnir í starfi.

Í Atvinnulífinu í gær og í dag fjöllum við um það hvernig við getum með sjálfsvinnu, sjálfsrækt og persónulegri stefnumótun eflt styrkleika okkar enn frekar og nýtt þá í starfi.

Hvernig fer maður í persónulega stefnumótun?

Margir þekkja stefnumótun í gegnum starfið sitt eða vinnustaði. Hugrún hefur hins vegar lengi þjálfað fólk í að fara í stefnumótun fyrir sig sjálft með námskeiðinu Stefnumótun í eigin lífi.

Að sögn Hugrúnar, byggir námskeiðið á aðferð markþjálfunar. Þar sem farið er yfir ýmsa þætti, til dæmis þá sem hafa áhrif á að lífið okkar gangi vel. Þar er stuðst við rannsóknir í jákvæðri sálfræði.

En hvað felur þetta í sér fyrir mann?

Hugrún segir að í persónulegri stefnumótun sé mikið unnið með gildi.

En ekki bara eitthvað sem hljómar vel, heldur gildi sem eru gildin okkar fyrir alvöru.

„Það er ekki nóg að velja sér einhver flott gildi, heldur vinnur fólk sig að því með ýmsum verkefnum, að finna út hvað skiptir það mestu máli í lífinu, hvað drífur það áfram og hvaða þættir það eru sem stuðla að því að við stöndum með okkur sjálfum, höfum sjálfstæðar skoðanir, tökum ábyrgð á eigin lífi, hegðun okkar og hugsunum.“

Þá segir Hugrún að eins sé unnið með styrkleikana okkar. Að finna út úr því hverjir þeir eru helst, hvernig þeir birtast okkur og hvernig við getum nýtt þá í lífi og starfi.

„Hér skoðum við þætti sem koma okkur í flæði, þegar við erum að vinna með styrkleikunum okkar þá erum við yfirleitt upp á okkar besta,“ segir Hugrún og bætir við:

Þeir sem fá að nota styrkleika sína í vinnu eru bæði ánægðari í starfi og upplifa betri lífsgæði. 

Það þarf samt að gæta að því að karaktereiginleikar og styrkleikar geta líka komið okkur í þrot ef ekki er gætt að jafnvægi og vitund um sjálfan sig. 

Þess vegna er líka lagt mikið upp úr núvitund og meðvitund um sjálfan sig.“

En þetta er ekki nóg, því til þess að vinna að stefnumótuninni okkar, þurfum við líka að skoða hlutverk okkar og ábyrgð í lífinu okkar:

Hvaða fólk er í kringum okkur og hvaða fólk við viljum styrkja sambandið við og hvaða fólk við viljum hugsanlega minnka samskipti við eða jafnvel læra aðferðir til að minnka meðvirkni og standa betur með sjálfum sér.

Hugrún segir mikið unnið með gildi í persónulegri stefnumótun. Það séu þá ekki bara einhver gildi sem hljóma vel, heldur raunveruleg gildi hvers og eins. Hugrún segir það auka líkurnar á að ná markmiðunum okkar ef við vinnum að þeim í samræmi við gildi okkar og tilgang. En til þess að það sé hægt, þurfum við að vera alveg skýr á því sjálf, hver gildin okkar eru. Veist þú hver þín gildi eru?Vísir/Vilhelm

Aukum líkurnar á að ná markmiðum okkar

Hugrún segir svo mikilvægt fyrir okkur að læra að setja okkur markmið sem eru vel hugsuð út frá gildum okkar og tilgangi. Því þannig erum við líklegri til að ná markmiðunum okkar.

Það er svo nauðsynlegt að læra að setja sér markmið sem eru vel hugsuð út frá gildum og tilgangi. 

Það þarf að finna innri drifkraft til að vinna að markmiðunum sínum og það má ekki gleyma því að markmið eru bara verkefni sem þarf að sinna, helst á hverjum degi. 

Verkefnin eru misstór og hvert skref skiptir máli,“ 

segir Hugrún og bætir við:

„Það getur jafnvel verið markmið að gera minna en maður gerir í dag.“

Hugrún segir að oftast nær sé stærsta hindrunin þær hindranir sem hugurinn okkar býr til. Þannig sé það í rauninni okkar eiginn hugur sem er að stoppa okkur í að stefna þangað sem okkur langar.

Við lærum síðan að þekkja þessar hugsanir og hugsanamynstur. En hugsanir hafi áhrif á líðan okkar og hegðun.

„Heilinn er eins og harður diskur sem við höfum safnað inn á upplýsingum síðan við fæddumst með öllu því sem við höfum upplifað og gengið í gegnum. Svo erum við hugsanlega að nota þessi gömlu forrit á fullorðinsárum sem eru orðin algjörleg úreld og oft á tíðum mjög óhjálpleg.“

Til þess að skipta út þessum óhjálplegu og jafnvel úreltu forrit sem við erum með föst í huganum, kennir Hugrún fólki að nota núvitund með aðferð sem heitir ACT og er skammstöfunin fyrir Acceptance and commitment theraphy.

Staðan þegar við erum búin

Þegar búið er að fara í gegnum alla þessa þætti og þeim hefur verið safnað saman, segir Hugrún fólk yfirleitt vera orðið meðvitaðra um sjálft sig.

Og klárt í að finna sjálfa stefnumótunina.

Þá er unnið að framtíðarsýn varðandi persónulega þætti, vinnuþætti og félagslega þætti. 

Hér er líka gott að skoða ástríðuna sína og hvað fólk vill gefa af sér í lífinu. 

Þannig að þetta er alveg hellings vinna að fara í gegnum og mikil sjálfskoðun og aukin meðvitund um sjálfan sig.“

Hugrún segir að þegar fólk er búið að fara í gegnum svona persónulega stefnumótun, sé það almennt orðið miklu skýrara hvernig fólk vill haga sínu lífi eða hvað það vill setja í forgang í sínu lífi.

Þá erum við líka farin að þekkja styrkleikana okkar og gildi betur og eigum auðveldara með að vita í hvaða átt við viljum stefna í starfi.

Hugrún mælir til dæmis með því að fólk staldri við og skoði þessa þætti áður en það æðir áfram í eitthvað nám. Eða jafnvel starf sem engan veginn passar við gildin eða styrkleikana.

Hvað þá ástríðuna og tilganginn!

„Gott er að staldra við af og til og endurskoða sjálfan sig og athuga hvort að maður sé á þeim stað sem maður vill vera á. Ef ekki þarf maður að hafa hugrekki til að gera breytingar, þær gerast ekki af sjálfu sér.“


Tengdar fréttir

„Gott að muna alltaf eftir því að brosa og segja takk“

Þau er vægast sagt frábær ráðin sem tveir forkólfar í atvinnulífinu gefa sér yngri stjórnendum í Atvinnulífinu í dag. En það eru þau Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi og Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×