Klinkið

Flokkur fólksins svarar engu um stjórnarsetu sonar Ingu Sælands

Ritstjórn Innherja skrifar
BE3A2717
VÍSIR/VILHELM

Flokkur fólksins hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum Innherja sem snúa að þeirri ákvörðun flokksins að tilnefna son formannsins í stjórn Íslandspósts. Baldvin Örn Ólason, sonur Ingu Sælands og starfsmaður flokksins, kom á dögunum nýr inn í stjórn ríkisfyrirtækisins en engar upplýsingar er að finna um fyrri störf hans eða menntun.

Innherji reyndi að hafa samband við Ingu án árangurs. Jafnframt var send fyrirspurn á skrifstofu flokksins þar sem spurt var hvernig staðið væri að vali á fulltrúum flokksins í stjórnum ríkisfyrirtækja og hvort hæfniskröfur væru gerðar til þeirra. Bárust engin svör þrátt fyrir að starfsmaður flokksins hefði staðfest móttöku fyrirspurnarinnar símleiðis.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp ummæli Birgis Jónssonar, fyrrverandi forstjóra Íslandspósts, eftir að hann lét af störfum. „Ég vil að fyrirtæki sem eru í almannaeigu séu rekin á sem hagkvæmasta máta. Það veiti sem bestu þjónustu og við sem skattgreiðendur þurfum ekki að setja peninga í þau að óþörfu. Það fer ekkert rosalega vel saman við einhverjar áherslur hjá stjórnmálaflokkum.“

Íslandspóstur, sem velti nær 7,5 milljörðum króna í fyrra, tapaði rúmum 300 milljónum króna í ef 563 milljóna króna framlag Byggðastofnunar er dregið frá uppgefnum hagnaði ársins.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×