Klinkið

Vandasamt verkefni í Garðabæ

Ritstjórn Innherja skrifar
Áslaug Hulda og Almar eru bæði öflugir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. En nú er Sjálfstæðismönnum þar á bæ ákveðinn vandi á höndum.
Áslaug Hulda og Almar eru bæði öflugir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. En nú er Sjálfstæðismönnum þar á bæ ákveðinn vandi á höndum.

Tvær risavaxnar áskoranir bíða nýs oddvita Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ ef vel á að vera á næsta kjörtímabili.

Annars vegar þarf að leiða pólítískt starf flokksins í sveitarfélaginu sem sögulega á langflesta bæjarfulltrúa við borðið og heldur á bæjarstjórasætinu. Hins vegar þarf að finna til arftaka Gunnars Einarssonar sem tilkynnti að hann hyggðist kveðja stjórnmálin eftir tæpa tvo áratugi í stóli bæjarstjóra. Gunnar skipaði áttunda sæti Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum en var ráðinn í starfið.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, sem er formaður bæjarráðs og situr í fyrsta sæti listans í Garðabænum, att kappi við Almar Guðmundsson um oddvitasætið í prófkjöri flokksins í byrjun mars en laut í lægra haldi. Þar mættust tveir öflugir fulltrúar flokksins og afar mjótt var á munum. Áslaug Hulda greindi frá því í gær að hún ætlaði sér ekki að þiggja annað sætið á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor líkt og Innherji greindi skilmerkilega frá.

Hverfi Áslaug Hulda af framboðslistanum líkt og allt útlit er fyrir telja þeir sem til þekkja að staða listans verði talsvert veikari fyrir vikið. Áslaug hefur óneitanlega umtalsvert persónufylgi og þykir standa flestum á listanum framar er kemur að pólítískri reynslu og tengingu við Sjálfstæðisflokkinn og grasrót hans í bænum.

Vandi listans var þó þegar til staðar þar sem enginn fulltrúi búsettur í stærsta hverfi bæjarins, Urriðaholti, skipar sæti á efri hluta listans. Urriðaholt og málefni þess hafa raunar verið talsvert í fréttum þar sem innviðauppbygging hefur gengið brösulega og því telja margir ríka þörf á að rödd hverfisins eigi sterkan fulltrúa.

Þeir sem eru hagvanir í flokksstarfinu í Garðabæ hafa fleygt því fram að lausnin á vanda flokksins sé einföld, en að viðhorf Almars sjálfs sé þar lykilþáttur. Þannig gætu Sjálfstæðismenn boðið fram lista með Áslaugu Huldu sem bæjarstjóraefni utan lista og nýtt það svigrúm sem myndast á listanum til að bæta inn öflugum fulltrúa úr Urriðaholti. Með þessu fengi Almar hið pólitíska oddvitaembætti en Áslaug yrði bæjarstjóri með minni pólitísk áhrif. Nú eða öfugt.

Fulltrúaráðsfundur flokksins í bænum verður haldinn á morgun með það fyrir augum að samþykkja framlagðan lista að fenginni tillögu kjörnefndar. Þar mun pólítísk framtíð Áslaugar Huldu að öllum líkindum ráðast. Margir Sjálfstæðis- og Stjörnumenn bíða með eftirvæntingu eftir niðurstöðu þess fundar.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×