Viðskipti innlent

Ís­lenskt út­gerðar­fyrir­tæki segir Rússa hafa reynt að fjár­kúga sig

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, betur þekktur sem Binni í Vinnslustöðinni.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, betur þekktur sem Binni í Vinnslustöðinni. Egill Aðalsteinsson

Útgerðarfyrirtækið Vinnslustöðin segir Rússa hafa reynt að beita sig fjárkúgun í tvígang á síðasta áratug. Fyrirtækið á gott samband við hvítrússneskan ólígarka sem fyrirtækið segir að hafi aðstoðað sig úr vandanum á sínum tíma.

Þetta segir Sigur­geir Brynjar Krist­geirs­son, betur þekktur sem Binni í Vinnslu­stöðinni, en hann er for­stjóri út­gerðarinnar.

Vinur viðskiptavina sinna

Það höfðu lík­lega fæstir Ís­lendingar hug­mynd um hver hvít­rúss­neski auð­jöfurinn Aleksander Mos­hen­sky væri fyrir helgi. Í nýjasta tölu­blaði Stundarinnar er fjallað ítar­lega um Mos­hen­sky og ís­lensk við­skipta­tengsl hans. Þar eru ís­lensk stjórn­völd sögð hafa beitt sér í­trekað fyrir því að hann yrði ekki beittur refsi­að­gerðum af Evrópu­sam­bandinu en Mos­hen­sky er kjör­ræðis­maður Ís­lands í Hvíta-Rúss­landi og á út­gerðar­fyrir­tæki sem verslar við Ís­lendinga fyrir milljarða.

Aleksander Moshensky varð kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi árið 2006. Hann á í miklum viðskiptum við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Stjórnvöld eru sögð vernda hann fryir refsiaðgerðum ESB vegna þeirra.Vísir

Það er helst ís­lenska út­gerðar­fyrir­tækið Vinnslu­stöðin sem hann á í við­skiptum við en í grein Stundarinnar kemur ein­mitt fram að hann og Binni í Vinnslu­stöðinni séu góðir vinir. Þetta stað­festir Binni sjálfur:

„Það liggur auð­vitað í orðanna hljóðan - við­skipta­vinir - það bara felur í sér að þú ert vinur við­skipta­vina þinna. Og auð­vitað bara þekki ég Mos­hen­sky vel. Ég þekki hann vel eins og stjórn­endur margra annarra fyrir­tækja,“ segir Binni.

Vildu greiðslu upp á 65 milljónir

Hann segir Mos­hen­sky meðal annars hafa að­stoðað fyrir­tækið þegar það lenti í fjár­kúgun Rússa - fyrst árið 2012.

Þá hafi rúss­neska mat­væla­eftir­litið sagst hafa greint gerla í fisk þeirra og lokað á inn­flutning af­urða þess til Rúss­lands, Hvíta-Rúss­lands og Kasakstans. Við at­hugun MAST hafi hins vegar engir gerlar fundist enda hafi vilji Rússa brátt komið í ljós þegar þriðji aðili hafði sam­band við Vinnslu­stöðina.

„Það kom í ljós með sím­talinu þegar var sagt að við gætum leyst þetta með 500 þúsund dollara greiðslu sem eru auð­vitað bara hreinar mútur, eða fjár­kúgun réttara sagt,“ segir Binni.

Vinnslu­stöðin þver­tók fyrir að greiða gjaldið, sem eru um 65 milljónir íslenskra króna á núverandi gengi.

„Við sögðum bara nei, það er ekki okkar stíll. Við látum ekki undan kúgunum eða hótunum um mútur,“ segir Binni. Bannið á inn­flutningi á vörum Vinnslu­stöðvarinnar varði því en var þó af­létt eftir nokkurn tíma eftir að út­gerðin sneri sér meðal annars til Mos­hen­skys og fleiri við­skipta­vina sinna í löndunum.

Hefur ekki viljað greina frá málunum áður

Hann hafi beitt sér fyrir af­léttingu bannsins enda sjálfur haft mikla hags­muni að því að sögn Binna:

„Hans hags­munir voru auð­vitað þeir að við gætum selt honum af­urðir eins og önnur fyrir­tæki á Ís­landi.“

Svipuð staða kom svo upp aftur árið 2014 þegar hópur rúss­neska fyrir­tækja vildi að sjávar­út­vegs­fyrir­tæki á Ís­landi færu í ein­okunar­hring með sér. Stuttu síðar, haustið 2015, settu Rússar á bann við inn­flutningi á ís­lenskum fiski.

„Í þessu öllu saman þá sögðum við Aleksander Mos­hen­sky frá þessu og öðrum við­skipta­vinum okkar í Rúss­landi, sem voru ekki í þessu „car­tel“, og þeir voru að vinna allir með okkur,“ segir Binni. Það hafi loks tekist en einnig með hjálp ís­lensku utan­ríkis­þjónustunnar.

Binni segist ekki hafa viljað segja frá þessum at­vikum fyrr því hann taldi þá ein­sýnt að Rússar myndu þá aftur banna inn­flutning á vörum Vinnslu­stöðvarinnar. Einnig gæti þetta komið sér illa fyrir þá sem tengjast málunum. Hann sér þó ekki til­ganginn í að sitja á þessu lengur og segir fyrir­tækið vilja gera hreint fyrir sínum dyrum eftir um­fjöllun Stundarinnar þar sem það telur sig sett á stall með þeim sem vilja þóknast Pútín Rúss­lands­for­seta eða ein­ræðis­herra Hvíta-Rúss­lands, Lukas­hen­ko.

„Þessar upp­lýsingar sem ég er að birta núna þýða væntan­lega það að það verður lokað á Vinnslu­stöðina. Og þýða það að Aleksander Mos­hen­sky getur ekki keypt neinar af­urðir frá Ís­landi,“ segir Binni.

Verður sjálfur að gera grein fyrir tengslum við einræðisherrann

Sjálfur segist hann ekki þekkja ná­kvæm­lega hver tengsl Mos­hen­skys við Lukas­hen­ko séu en í um­fjöllun Stundarinnar kemur fram að þau séu tals­verð. Binni segir Mos­hen­sky sjálfan verða að svara fyrir það.

„Í hvaða landi sem þú ert þá geturðu ekki starfað lengi í ó­þökk stjórn­valda. Hvort sem það er í Kína, á Ís­landi, í Banda­ríkjunum eða hvar það er. Þú verður að fara eftir lögum og reglum þess lands sem þar eru og undir það verðurðu að beygja þig. Og vafa­laust er það þannig að Aleksander Mos­hen­sky hann hefur þurft að beygja sig undir lög og reglur og ægi­vald Lukas­hen­ko sem er ekki geð­fellt og ég ætla nú bara alveg að vera skýr á því. En hann verður bara að svara því sjálfur hver tengsl hans eru við Lukas­hen­ko.“

Rætt var við Binna í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hægt er að horfa á fréttina hér að neðan: 


Tengdar fréttir

Stjórnvöld sögð vernda einn áhrifamesta auðjöfur Hvíta-Rússlands

Íslensk stjórnvöld eru sögð hafa beitt sér ítrekað fyrir því að einn áhrifamesti ólígarki í Hvíta-Rússlandi og kjörræðismaður Íslands þar, sæti ekki refisaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins. Ástæðan sé að hann kaupi íslenskan fisk fyrir milljarða, aðgerðir þýddu umtalsvert tap hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×