Frítíminn

Dagur í lífi Nönnu: Mikill aðdáandi to-do lista

Ritstjórn Innherja skrifar
Nanna Kristín vann hjá Landsbankanum í rúman áratug en færði sig nýlega um set.
Nanna Kristín vann hjá Landsbankanum í rúman áratug en færði sig nýlega um set.

Nanna Kristín Tryggvadóttir er nýráðin fram­kvæmda­stjóri Hús­heild­ar ehf. og Byggingarfélagsins Hyrnu. Henni finnst best að byrja daginn á að svitna og fátt notalegra en að elda kvöldmat heima á kvöldin. Hádeginu ver hún helst með vinum og leggur á ráðin.

7:00 Vekjarinn hringir og ég reyni að muna af hverju ég fór ekki fyrr að sofa í gær. Suma morgna er stefnan sett á að taka morgunæfingu, ég reyni að gera það svona 2-3 í viku. Það tekst svona misvel, eftir því hvort ég er í góðri rútínu eða ekki. En mér finnst bestu dagarnir klárlega vera þeir sem ég næ að byrja daginn á því að svitna smá.

Ég er mikill aðdáandi to-do lista, set þá upp fyrir nánast hvað sem er og verð óróleg þegar mér finnst þeir of stuttir. Það er svo fátt betra en að geta hakað í boxið eftir að hverju verki lýkur.

Ég skipti nýlega um vinnu svo ég er að fikra mig áfram við að finna nýja rútínu. Dagarnir eru ólíkir og suma þeirra byrja ég á að hoppa í morgunflug norður á Akureyri þar sem við erum með skrifstofur og fjölmörg verkefni í gangi.

8:30 Sest við tölvuna um þetta leiti með kaffibolla. Renni yfir póstinn, verkefnastöðu dagsins og to-do listann. Ég er mikill aðdáandi to-do lista, set þá upp fyrir nánast hvað sem er og verð óróleg þegar mér finnst þeir of stuttir. Það er svo fátt betra en að geta hakað í boxið eftir að hverju verki lýkur.

Dagarnir eru fjölbreyttir hjá Nönnu sem ferðast mikið um landið vinnu sinnar vegna.
Það er einhver hugleiðsla fólgin í því að skera lauk og velta því fyrir sér hvað það sé nú aftur sem valdi því að maður grenjar í hvert sinn.

12:00 Ég reyni að taka hádegismat með góðu fólki nokkrum sinnum í viku. Mér finnst þetta góður tími til að hitta fólk ýmist vinnutengt eða vini og fara yfir þetta helsta.

Dagarnir eru almennt ólíkir en þessa dagana er ég á fullu að setja mig inn í verkefni í nýjum geira, og mér finnst þeir líða á ógnarhraða. Það er svo margt spennandi að gerast í byggingageiranum þessi misserin, mikil uppbygging í gangi um allt land og það er gaman að sjá ný verkefni spretta upp.

Nönnu finnst fátt skemmtilegra en að ganga fjöll.

19:00 Ég er yfirleitt orðin svöng þegar það kemur að því að huga að kvöldmat og þá tekur við valkvíðinn, hvað skal borða. Stundum vill svo heppilega til að einhverjir vina minna sem búa í nágrenninu eru í sömu hugleiðingum svo ég hoppa út og rölti á einhvern stað hérna í bænum og hitti þau í mat. Þegar ég gef mér tíma í það þá finnst mér fátt notalegra en að elda góðan kvöldmat hérna heima. Það er einhver hugleiðsla fólgin í því að skera lauk og velta því fyrir sér hvað það sé nú aftur sem valdi því að maður grenjar í hvert sinn.

Eftir mat finnst mér frábært að geta sest aðeins fyrir framan sjónvarpið og horft á eitthvað sæmilega heilalaust, mögulega hjálpa Oliviu Benson vinkonu minni að leysa glæp vikunnar og tæmi hugann eftir daginn.

Vinkonurnar Nanna Kristín og Katrín Atladóttir í veiði.

23:00 Ég ætla alltaf að fara fyrr að sofa en það tekst misvel. Reyni þó að fara upp í rúm í kringum þetta leiti og ná að lesa nokkrar blaðsíður eða hlusta á hljóðbók eða podcast. Þessa dagana er ég að lesa Lok lok og læs eftir Yrsu Sigurðardóttur og hlusta á Good to Great eftir Jim Collins. Oftar en ekki þarf ég að hlusta aðeins á Jim eftir að hafa lesið Yrsu, bara svona svo ég geti sofnað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.