Frítíminn

Bankið í ofninum: Leigubíla saknað á djamminu

Pétur Blöndal skrifar
Pétur Blöndal.
Pétur Blöndal.

Það heyrast hrakfallasögur úr miðborginni hverja helgi. Vandamálið er ekki að það þurfi að draga fólk af djamminu, heldur lendir það í því að verða innlyksa á djamminu og komast hvergi.

Maður er að vísu vanur ófremdarástandi í þessum efnum. Í minningunni er fólk á víð og dreif um bæinn á ráfi eins og eftir sprengjuárás. En það blasir við að ástandið er óvenju slæmt núna. Yfir háveturinn þegar lægðirnar eru í öllum regnbogans litum verður að teljast nokkurt þrekvirki að komast heim til sín heilu og höldnu. Eins og færðin hefur verið, þá brotnar hjólabúnaður undan bílum í öllum sköflunum og holunum, og þetta eru því kannski ekki kjöraðstæður fyrir karla á lakkskóm og konur á háum hælum.

Ölvunarakstur og ellinöðrur

Ég heyrði af leikurum sem fengu sér „one for the road“ eftir leiksýningu, en þegar þeir ætluðu heim var engan leigubíl að fá. Svo fór að þeir gistu í leikhúsinu og mættu svona líka ferskir til vinnu daginn eftir. Af einum vinahópnum var það að segja, að þau fundu húsaskjól nálægt miðbænum, og á meðan beðið var eftir leigubílum náðist að keyra upp partý, innbyrða nóg áfengi til að tryggja almennilega þynnku, dansa sér til óbóta, leggja sig undir teppum í stofumublum. Hálfsjö á sunnudagsmorgni renndu leigubílar loks í hlað. Ekki gott fyrir messusóknina í Mosfellsbæ og Hafnarfirði.

Eftir ljómandi kvöldstund á veitingastað í miðborginni um liðna helgi get ég vottað, að ekkert gekk að ná sambandi við leigubílastöðvar, hvergi var leigubíl að sjá, vondauft fólk sagðist við það að krókna í leigubílaröðum.

Staðan er sem sagt sú, að á kvöldin fyllist bærinn eins og vant er af fólki, en svo vill til að það getur reynst nær ómögulegt er að komast þaðan aftur. Þetta getur haft margvíslegar afleiðingar. Í fyrsta lagi verður drykkjan meiri og mannsafnaðurinn, sem getur kallað á róstursamara næturbrölt. En þetta framkallar líka freistnivanda. Ef enginn er leigubíllinn, þá getur freistað fólks eftir að hafa neytt göróttra drykkja, að láta sig bara hafa það að keyra heim. Svo eru það blessaðar rafskutlurnar eða „ellinöðrurnar“ eins og gárungarnir kalla þær, þar sem miðaldra fólki virðist meira hætt en öðrum við hinum ýmsu lemstrum og höfuðmeiðslum.

Loks má nefna skutlaramarkaðinn sem enginn hefur almennilega yfirsýn yfir eða eftirlit með. Með því að ýta undir hann, er þá ekki kerfi leyfisveitinga og eftirlits farið að vinna gegn markmiðum sínum?

„Mikið er að gera“

Eftir ljómandi kvöldstund á veitingastað í miðborginni um liðna helgi get ég vottað, að ekkert gekk að ná sambandi við leigubílastöðvar, hvergi var leigubíl að sjá, vondauft fólk sagðist við það að krókna í leigubílaröðum og eina svarið sem barst frá leigubílaappinu hófst á orðunum „Mikið er að gera...“ Eftir mislangan tíma sleit appið sambandinu alveg samviskulaust. Víst gerist slíkt stundum á djamminu, en maður á ekki endilega von á því frá leigubílstjórum.

En hver skyldi vera meginástæða fyrir manneklunni? Jú, samkvæmt reglugerð samgönguráðuneytisins er að hámarki 580 manns úthlutað „rekstrarleyfum“ til leigubílaaksturs á Suðurnesjasvæðinu, sem nær yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesbæ.

Óhjákvæmilega vaknaði því sú spurning hjá mér, hvernig fólk fari að sem ekki á unglinga með bílpróf sem það getur ræst út? Þegar ég leitaði skýringa á einni leigubílastöðinni á þessu annríki fékk ég þær upplýsingar að það væri einfaldlega skortur á leigubílstjórum. Margir hefðu lagt inn leyfið og lítið hlutfall af þeim væri komið til baka. „Svo leggjast leigubílstjórar með covid eins og aðrir.“ Ekki bætti svo veðráttan úr skák, en færðin hefur verið erfið og nokkur fjöldi leigubíla skemmst út af klakabrynju á götum.

Færri leigubílstjórar en áður

En hver skyldi vera meginástæða fyrir manneklunni? Jú, samkvæmt reglugerð samgönguráðuneytisins er að hámarki 580 manns úthlutað „rekstrarleyfum“ til leigubílaaksturs á Suðurnesjasvæðinu, sem nær yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesbæ. Þessir leigubílstjórar eru þó ekki allir „virkir“, heldur geta þeir lagt inn leyfið tímabundið, minnst í tvo mánuði og mest í fjögur ár. Og þó að flestir séu virkir, þá er ekkert sem tryggir að þeir mæti til vinnu um helgar eða leigi bílana áfram til afleysingarbílstjóra eða svokallaðra harkara.

Í ljósi þessarar manneklu hlýtur það að vekja undrun að úthlutuðum rekstrarleyfum til leigubílaaksturs í höfuðborginni og Reykjanesbæ hefur ekki fjölgað frá árinu 2002 heldur fækkað. Ég endurtek, á síðustu 20 árum hefur leigubílstjórum á þessu svæði fækkað! Nánar tilgreint hefur útgefnum rekstrarleyfum fækkað úr 610 í 580. Raunar var þeim fjölgað úr 560 í 580 árið 2017 og upphaflega hafði staðið til af hálfu samgönguráðuneytisins að fjölga þeim í 650. En einhverra hluta vegna var hætt við það.

Í þessarari manneklu hlýtur það að vekja undrun að úthlutuðum rekstrarleyfum til leigubílaaksturs í höfuðborginni og Reykjanesbæ hefur ekki fjölgað frá árinu 2002 heldur fækkað.

Ef horft er til þess að íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 50 þúsund frá árinu 2002, íbúum í Reykjanesbæ einnig fjölgað verulega og fjöldi ferðamanna margfaldast, skýtur þá ekki skökku við að ganga í það að fækka leigubílstjórum? Hvers vegna var lögmálinu um framboð og eftirspurn kippt úr sambandi á þessum markaði?

Ef til vill verður gerð bragarbót á því með nýju frumvarpi sem lagt hefur verið fram á þingi. En meira um það í næsta pistli.


„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í óborganlegum þáttum Fóstbræðra og fórnaði höndum. Í þessum pistlum sem birtast vikulega á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér að „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

p.blondal@gmail.com.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.