Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Ég er Patrekur Jaime, 21 árs strákur frá Akureyri. Ég er samkynhneigður strákur sem býr í Reykjavík og er að njóta lífsins. Ég er með þætti á Stöð 2 og er hamingjusamur og alltaf til í flippið!
Hvað veitir þér innblástur?
Það er margt sem veitir mér innblástur. Ég fæ oft innblástur frá vinum mínum og fjölskyldu og þá sérstaklega Önnu frænku minni.
Anna frænka veitir mér innblástur því hún er ekki hrædd að kýla bara á hlutina og henni er alveg sama hvað fólk finnst um sig. Hún er líka með æði stíl og hefur meira segja stíliserað á mig nokkur outfit.
Unnusti minn gefur mer lika oft innblástur og svo nokkur fav celebs en það fer alveg eftir því hvernig innblæstri ég leita að hverju sinni.
Uppáhalds lag og af hverju?
Uppáhalds lag núna er Bow down með Ivorian doll. Ég bara elska hana og allt sem hún gerir, hún er alveg queen of UK drill.
Uppáhalds matur og af hverju?
Uppáhalds matur er svo erfið spurning. Ég elska mat en franskar eru bara eitthvað sem ég hef elskað frá barnæsku.
Þær gefa mér bara góðar minningar þannig ég verð að segja franskar.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Ég held það sé bara hreyfing þó ég sé ekki nógu duglegur í því.
Bara að fara smá út að labba og svoleiðis en ef ég er alveg í kvíðakasti þá þarf ég að þrífa allt heima og hlusta á tónlist.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Ég er ekki með neinn hefðbundinn dag þeir eru eiginlega mjög mismunandi en ég vakna og fæ mer alltaf morgunmat.
Það er bara ein regla sem ég er með því ef ég borða ekki morgunmat verð ég eitthvað svo óþægilegur í gegnum daginn
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Ég held það sé bara minningar sem þú býrð til með vinum og fjölskyldu.