Erlent

Túr­istar aftur vel­komnir til Ástralíu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Miklir fagnaðarfundir voru á áströlskum flugvöllum í morgun þegar fjölskyldur sameinuðust að nýju eftir tveggja ára aðskilnað.
Miklir fagnaðarfundir voru á áströlskum flugvöllum í morgun þegar fjölskyldur sameinuðust að nýju eftir tveggja ára aðskilnað. Getty/Lisa Maree Williams

Ástralía hefur opnað á komu erlendra gesta í fyrsta sinn í rúmlega tvö ár en landinu var svo gott sem lokað í kórónuveirufaraldrinum í mars árið 2020. 

Heimamenn hafa fengið að snúa aftur síðan seint á síðasta ári og einnig gestir í undantekningartilfellum en flestir útlendingar hafa þurft að sætta sit við að komast ekki inn í landið. Það voru því miklir fagnaðarfundir hjá mörgum á flugvellinum í Sidney í nótt þegar nýju reglurnar tóku gildi og ættingjar sem höfðu ekki fengið að hittast í tvö ár náðu saman að nýju.

Fullbólusettir einstaklingar þurfa ekki að fara í einangrun við komuna til landsins en óbólusettir þurfa hins vegar að dúsa á hóteli í fjórtán daga á eigin kostnað. Rúmlega fimmtíu flugvélar lentu á mánudagsmorgun og er allt landið opið ferðamönnum fyrir utan Vestur-Ástralíu, en þar verður allt lokað fram í mars.

Ferðamannaiðnaðurinn í Ástralíu lítur nú til bjartari tíma nú þegar ferðamenn geta heimsótt landið að nýju, en árið 2019 ferðuðust um 9,5 milljónir manna til Ástralíu. Iðnaðurinn hefur ekki aðeins liðið fyrir komubann erlendra ferðamanna heldur líka vegna ferðatakmarkana innanlands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×