Innherji

Eldsneytisverð þrýstir upp kostnaði Icelandair, spá háu verði út árið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
DJI_0577 (2)

Hátt eldsneytisverð er ein helsta skýringin á því að einingakostnaður Icelandair í fyrra var mun hærri en flugfélagið spáði í fjárfestakynningu sem það birti fyrir hlutafjárútboðið 2020. Þetta kemur fram í svari Icelandair við fyrirspurn Innherja.

Einingakostnaður (CASK) Icelandair, helsti mælikvarðinn á samkeppnishæfni flugfélaga, nam 9,2 bandarískum sentum á síðasta ári en flugfélagið hafði bundið vonir við að sveigjanlegri kjarasamningar, aukið vinnuframlagi áhafna og aðrar hagræðingaraðgerðir myndu ná einingakostnaði niður í 8 sent. Einingakostnaður reyndist því 15 prósentum hærri en spá félagsins.

„Helstu ástæðurnar eru hár eldsneytiskostnaður á árinu þar sem heimsmarkaðsverð hækkaði umtalsvert, og áhrif af covid faraldrinum á reksturinn voru meiri en gert hafði verið ráð fyrir þannig að flugið tók seinna við sér en búist var við, “ segir í svari Icelandair.

Rekstraráætlanir sem Icelandair gerði í aðdraganda hlutafjárútboðsins reiknuðu með því að verð á þotueldsneyti á árinu 2021 yrði að jafnaði 402 Bandaríkjadalir á hvert tonn. Verðþróunin reyndist hins vegar mun óhagstæðari. Undir lok árs 2021 hafði verðið slagað hátt í 800 dali eftir að hafa hækkað um 91 prósent frá fjórða ársfjórðungi 2020.

Á uppgjörsfundi Icelandair í síðustu viku sagðist Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, reikna með því að eldsneytisverð yrði áfram hátt.

„Við gerum ráð fyrir að eldsneytisverð verði heldur hátt á þessu ári, að jafnaði um 800 dalir á hvert tonn, og við gerum einnig ráð fyrir að flugfélög verði að taka kostnaðinn á sig að hluta til. Við getum ekki velt honum að fullu út í fargjöld,“ sagði Bogi Nils.

Þá tekur Icelandair fram í svarinu að veiruafbrigðin delta og omicron hafi einnig haft áhrif á rekstur félagsin á síðari hluta árs, bæði á tekjur og kostnað. Auk þess hafi flugfélagið hafið undirbúning að hraðari uppbyggingu fyrir árið 2022 en áður hafði verið áætlað. „Það hefur að einhverju leyti áhrif á rekstrarkostnað, svo sem vegnar fjölgunar flugmanna og þjálfunar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×