Frítíminn

Bankið í ofninum: Gefur ein­hver kyn­líf­stæki?

Pétur Blöndal skrifar
Pétur Blöndal
Pétur Blöndal Foto: Helgi Hreinn Óskarsson

Þegar eftirlitsiðnaðurinn er annarsvegar, þá getur velvild eins skapað öðrum vesen. Þannig var um unga konu í Noregi sem ætlaði að gleðja vinkonu sína á Íslandi með því að gefa henni kynlífstæki í afmælisgjöf.

Þetta átti aldeilis að lífga upp á hjónalífið í Mosfellsbænum. En hún var alls ómeðvituð um hvers konar vesen hún var að kalla yfir vinkonu sína. Eins og við munum kynnast nánar.

Eftirlit með gjöfum

Þannig er að búið er að ráða sérlega ríkisstarfsmenn til að fara yfir allar gjafir sem berast til Íslands og ákvarða hvort þær falla undir tollalög eða ekki. Gjafir til einstaklinga eru nefnilega undanþegnar tolli eða „aðflutningsgjöldum“. En til þess að það eigi við hefur löggjafinn dundað sér við að búa til langan lista af skilyrðum fyrir því að gjöf teljist gjöf og sé tollfrjáls.

Gjöfin þarf til að mynda að vera gefin af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni. Til dæmis getur verið um að ræða afmælisgjafir, jólagjafir, fermingargjafir og brúðkaupsgjafir. En listinn yfir tilefni er ekki tæmandi og ekki gerð tilraun til að skilgreina hvað teljist alls ekki tilefni. Er það þó mun áleitnari spurning. Líklega er ekki nóg að hafa vaknað í góðu skapi – eða hvað? En hvað um að keypt hafi verið ný þvottavél, vinahjón hafi unnið í lottói eða Ísland loksins unnið Eurovision?

Hversu djúp er vináttan?

Verðmæti gjafarinnar þarf að vera innan þeirra marka sem fram koma í lögunum, en nú síðast var andvirði tollfrjálsrar vináttu 13.500 krónur. Ef vináttan er dýpri en það, reiknast innflutningsgjöld af þeirri upphæð sem umfram er.

Líklega er ekki nóg að hafa vaknað í góðu skapi – eða hvað? En hvað um að keypt hafi verið ný þvottavél, vinahjón hafi unnið í lottói eða Ísland loksins unnið Eurovision?

Og ekki er nóg að vera bara vinir í orði – það þarf líka að vera á borði. „Viðtakandi þarf að sýna fram á tengsl við sendandann og að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða.“ Svona í alvöru talað? Þetta jaðrar við að vera háheimspekilegt viðfangsefni. Eitt er nú hvað er verðugt tilefni, en hitt er ekki síður áhugaverð spurning hvort og þá hvaða tengsl verðskuldi afslátt af innflutningsgjöldum.

Það þýðir svo ekkert að vera utan við sig. Flytja þarf brúðkaupsgjafir til Íslands innan sex mánaða frá brúðkaupi. Og fylgi reikningur ekki með gjöfum, þá áætlar tollstjóri verðmæti þeirra. Ekki þýðir að pakka Kúbuvindlum í gjafapappír, því áfengi og tóbak njóta ekki undanþágu frá tollum sem gjafir. Enda er það auðvitað helber óhollusta sem engum dytti í hug að gefa vini sínum – ef vináttan er sönn.

Smygl á kynlífstækjum?

En víkjum aftur að vinkonunni sem tók við afmælisgjöfinni á pósthúsinu frá tortryggnum eldri starfsmanni, sem óskaði eftir leyfi til að opna pakkann enda taldi hann innihaldið tollskylt. Hún féllst á það með semingi. Þegar hann sá hvað var í pakkanum véfengdi hann snarlega að þetta væri í raun og veru gjöf og mælti af nokkrum þunga: „Það gefur enginn vini sínum kynlífstæki í afmælisgjöf.“

Flytja þarf brúðkaupsgjafir til Íslands innan sex mánaða frá brúðkaupi. Og fylgi reikningur ekki með gjöfum, þá áætlar tollstjóri verðmæti þeirra. Ekki þýðir að pakka Kúbuvindlum í gjafapappír, því áfengi og tóbak njóta ekki undanþágu frá tollum sem gjafir. Enda er það auðvitað helber óhollusta sem engum dytti í hug að gefa vini sínum – ef vináttan er sönn.

Þar komum við inn á þann lið tollalaganna, að enginn getur notið undanþágu frá innflutningsgjöldum sem „biður fyrirtæki eða einhvern sem er í útlöndum að senda sér vörur sem gjöf“ eða sendir sjálfum sér gjöf frá útlöndum. Árvökull starfsmaður pósthússins taldi sig því hafa gripið vinkonuna glóðvolga og varpað ljósi á mikla svikafléttu – sem snerist um að smygla kynlífstæki til landsins í formi afmælisgjafar til að komast hjá innflutningsgjöldum.

Þegar hann sá hvað var í pakkanum véfengdi hann snarlega að þetta væri í raun og veru gjöf og mælti af nokkrum þunga: „Það gefur enginn vini sínum kynlífstæki í afmælisgjöf.“

Starfsmaður pósthússins sat ekki við orðin tóm heldur hvarf út úr herberginu með kynlífstækið. Eftir stóð konan ein í herberginu með kuðlaðan gjafapappír og eilítið miður sín yfir þróun mála. Í fyrsta lagi hefði hún viljað opna gjöfina sjálf, eins og gengur og gerist um afmælisbörn, og svo verða kynlífstæki jú að teljast viðkvæmt einkamál og hún hafði ekki hugmynd um hverskonar fundahöld ættu sér stað fyrir utan herbergið.

Eftir nokkra stund skilaði maðurinn sér þó aftur inn í herbergið með kynlífstækið. Þegar konan hafði útskýrt fyrir honum að sannarlega til væru vinkonur sem gæfu svona afmælisgjafir, ef til vill þó af annarri kynslóð, þá hófust samningaviðræður og loks féllst starfsmaðurinn á það fyrir hönd lýðveldisins Íslands að konan greiddi einungis hluta af gjöldunum. Þegar hún fór með gjöfina heim vissi hún ekki hvort hún ætti að gráta eða hlæja. Og maður fær ekki varist þeirri hugsun, að ef til vill sé ríkið að hnýsast í mál sem því kemur einfaldlega ekki við.

„Á ég að gera það?“ spurði Indriði í Fóstbræðrum og fórnaði höndum. Í þessum vikulegu pistlum á laugardögum verður ómakið tekið af Indriða, hlustað eftir banki í ofninum og hver veit nema einhver taki að sér „gera það“ – ganga í að kippa hlutunum í lag. Allar hugmyndir, ábendingar og athugasemdir vel þegnar.

Pétur Blöndal p.blondal@gmail.com.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.