Innherji

Fyrirtækjalánin að færast úr bönkunum til fjárfesta og lífeyrissjóða

Hörður Ægisson skrifar
Nánast engin aukning var í nýjum útlánum bankanna, að frádregnum uppgreiðslum, til fyrirtækja 2020 en á síðasta ári jukust þau lítillega, eða  um 48 milljarða á fyrstu ellefu mánuðum ársins.
Nánast engin aukning var í nýjum útlánum bankanna, að frádregnum uppgreiðslum, til fyrirtækja 2020 en á síðasta ári jukust þau lítillega, eða  um 48 milljarða á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Á sama tíma og afar lítill vöxtur hefur verið í útlánum bankakerfisins til fyrirtækja um nokkurt skeið hefur atvinnulífið í auknum mæli verið að sækja sér fjármögnun til annars konar lánveitenda.

Þannig jukust meðal annars lán svonefndra fagfjárfestasjóða, sem eru einkum fjármagnaðir af íslenskum lífeyrissjóðum, til atvinnufyrirtækja um liðlega 45 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2021. Hefur aukningin aldrei verið eins mikil á jafn skömmum tíma.

Í nýlega birtri fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans, sem kom síðast saman í byrjun desember á liðnu ári, er vakin athygli á þessari þróun og telur nefndin mikilvægt að vakta þessa tilfærslu sérstaklega.

Þessi breyting á landslaginu á lánamarkaði hefur haldist í hendur við hækkandi vaxtaálag á fyrirtækjalánum í bankakerfinu samhliða því að lágt vaxtastig hefur ýtt fjármagni úr öruggari fjárfestingarkostum, eins og innlánum og ríkisskuldabréfum, yfir í áhættusamari eignir. Mörg fyrirtæki hafa því nýtt sér þessar hagfelldari markaðsaðstæður til að endurfjármagna skuldir sínar, meðal annars með útgáfu skuldabréfa eða lántöku hjá fagfjárfestasjóðum.

Í lok þriðja ársfjórðungs 2021 höfðu skuldir fyrirtækja dregist saman um 5,5 prósent að raunvirði á síðustu tólf mánuðum en leiðrétt fyrir gengis- og verðlagsáhrifum var hins vegar vöxtur upp á 0,1 prósent. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans nefnir að nýjar lánveitingar bankanna hafi aukast lítillega að undanförnu en eftirspurn eftir lánsfé virðist þá enn vera takmörkuð þrátt fyrir aukin umsvif í hagkerfinu.

„Borið [hefur[ á auknum tilfærslum frá bankakerfinu til annarra lánveitenda en umfangið er þó enn lítið,“ segir í fundargerðinni.

Til viðbótar við fjármögnun í gegnum fagfjárfestasjóði – sem eru þá lána- og veðskuldabréfasjóðir – þá má einnig merkja talsverða aukningu í skuldabréfaútgáfum fyrirtækja á markaði en hvoru tveggja hefur að einhverju marki vegið á móti þeim samdrætti sem hefur verið í fyrirtækjaútlánum bankakerfisins.

Til marks um þá þróun má sjá í bókum lífeyrissjóða að eignir þeirra í markaðsskuldabréfum fyrirtækja hafa farið stöðugt vaxandi á síðustu misserum. Frá því í ársbyrjun 2020 nemur aukningin tæplega 60 milljörðum króna, eða liðlega 20 prósentum, en eignir sjóðanna í slíkum bréfum voru um 355 milljarðar króna í lok nóvember á síðasta ári.

Álag fyrirtækjaskuldabréfa ofan á áhættulausa vexti fór lækkandi haustið 2020 samtímis vaxandi ásókn fjárfesta og lífeyrissjóða í fyrirtækjabréf. Það hefur ýtt við mörgum fyrirtækjum að skoða aðra valkosti en hefðbundna bankafjármögnun.

Í þessu umhverfi hafa sprottið upp margir fagfjárfestasjóðir sem fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, einkum með veði í fasteignum og fastafjármunum. Þannig hafa meðal annars Kvika eignastýring og Stefnir komið á fót stórum lánasjóðum – ACF III og SÍL – og verðbréfafyrirtækið Arctica Finance vinnur nú að því að klára fjármögnun á 10 milljarða króna slíkum sjóði, samkvæmt heimildum Innherja. Sama á við um Glym eignastýringu, sem er stýrt af Guðmundi Björnssyni, en sjóðastýringarfyrirtækið áformar einnig að koma upp um 5 milljarða króna lánasjóði.

Eftir að hafa staðið nánast í stað á árinu 2020 varð mikill vöxtur í veittum lánum fagfjárfestasjóða til atvinnufyrirtækja árið eftir. Samkvæmt nýjum tölum Seðlabankans hækkuðu slíkar lánveitingar sjóðanna um nærri 50 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2021, eða úr 97 milljörðum króna í 142 milljarða.

Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem komu út í nóvember í fyrra, er vakin athygli á því að fyrirtæki séu farin í meira mæli að sækjast eftir fjármögnun hjá fagfjárfestasjóðum á meðan útlán bankanna til flestra atvinnugreina hafi verið að dragast saman á árinu 2021. Frá og með 2019 fór vaxtaálag bankanna á fyrirtækjalán hratt vaxandi og hefur það á síðustu misserum haldist í kringum 4 prósent miðað við meginvexti Seðlabankans.

Breytt umhverfi kallaði á annað viðskiptamódel

Sú þróun stafar meðal annars að því að sumir bankar, einkum Arion, gerðu breytingar á viðskiptamódeli sínu og fóru að leggja meiri áherslu á arðsemi í útlánum sínum til fyrirtækja fremur en að elta markaðshlutdeild. Í tilfelli Arion banka hefur hann því í meira mæli farið að starfa sem milliliður við lánveitingar í samstarfi við fjárfesta og aðra banka í stað þess að nýta eingöngu eigin efnahagsreikning til að veita lán.

Á fjárfestadegi bankans, sem fór fram um miðjan nóvember á síðasta ári, kom fram að eftir þessa stefnubreytingu á þriðja ársfjórðungi 2019 hefði hreinn vaxtamunur fyrirtækjalána aukist úr 2,8 prósentum í 3,6 prósent. Þetta, ásamt öðrum þáttum, hefði skilað sér í því að arðsemi af viðskiptavinum á fyrirtækja- og fjárfestingabankasviði Arion hefði aukist úr tæplega 7 prósent í 31 prósent.

Með arðsemi er þá átt við heildartekjur bankans af viðskiptavinum. Aukningin skýrist af betri vaxtakostnaði, hærri vaxtagjöldum og auknum þjónustutekjum af hverjum viðskiptavini.

Í kynningu á fjárfestadeginum var umbreyting lánasafns Arion banka sýnd með skýrum hætti. Fyrir tveimur árum voru 80 prósent af 100 stærstu kúnnum Arion banka undir 10 prósenta arðsemi sem var markmið bankans. Í dag eru 80 prósent 100 stærstu viðskiptavina bankans yfir 10 prósenta arðsemi þrátt fyrir áhrif heimsfaraldursins.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Útlán bankanna til fyrirtækja dragast saman

Útlán viðskiptabankanna til fyrirtækja hafa dregist mikið saman frá miðju síðasta ári og vaxtaálag á lán til þeirra hefur hækkað mikið. Seðlabankastjóri segir þörf á meiri nýsköpun í atvinnulífinu.

Lánuðu of mikið út á of lágum vöxtum

Breyttar áherslur viðskiptabankanna vekja spurningar um of mikinn útlánavöxt og of lág vaxtakjör á síðustu árum að sögn hagfræðings. Bankakerfið sé að ganga í gegnum leiðréttingu.

Hækka vaxtaálagið á fyrirtækjalánum

Íslandsbanki hefur nýtt ákvæði í lánasamningum til að hækka vaxtaálag. Arion tók af skarið fyrr á árinu. Framkvæmdastjóri FA segir hækkanirnar nema allt að heilu prósentustigi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×