Leikirnir áttu að fara fram í næstu viku en hafa verið færðir til 16.-20. mars að tillögu mótanefndar KKÍ.
„Þetta er gert í ljósi fjölda einstaklinga í sóttkví og einangrun, en sú smitbylgja sem nú gengur yfir hefur þegar haft talsverð áhrif á mótahaldið, en hundruðir einstaklinga eru þátttakendur í VÍS bikarvikunni,“ segir í tilkynningu frá KKÍ.
Undanfarið hefur fjölda leikja í Subway-deildum karla og kvenna verið frestað vegna kórónuveirusmita í herbúðum liða. Einn leikur er þó enn á dagskrá í Subway-deild kvenna í kvöld, á milli Grindavíkur og Vals, og fjórir leikir á dagskrá í Subway-deild karla næstu tvo daga.