Neytendur

Tappinn úr flöskunni og búbblurnar flæða um áramótin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bubblurnar munu flæða úr flöskum í glösin í kringum áramótin.
Bubblurnar munu flæða úr flöskum í glösin í kringum áramótin. Vísir/Vilhelm

Eitthvað virðist áhugi landsmanna á því að sötra áfenga drykki úr Vínbúðinni vera minni í ár en í fyrra ef marka má sölutölur. Salan í desember í ár er um tíu prósentum minni árið 2021 en var í desember í fyrra. Áhuginn í freyði- og kampavíni er þó meiri í ár ef eitthvað er.

Þó verður að hafa í huga að samkomutakmarkanir voru meiri og aðgengi að vínveitingahúsum minna vegna kórónuveirufaraldursins árið 2020 en á árinu sem nú er að líða.

Sé salan á áfengum drykkjum úr Vínbúðinni borið saman við árið 2019, sem var laust við kórónuveirufaraldur, kemur í ljós að salan hefur aukist um tólf prósent frá því sem var árið 2019.

Salan það sem af er ári, miðað við frá 1. janúar – 28. desember, er 25.915 þúsund lítrar en til samanburður við árið 2020 þá var salan 26.278 þúsund lítrar. Þannig er sala ársins 2021 1,4% minni í ár en árið 2020.

Fram kemur í skriflegu svari Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur að 30. desember, dagurinn í dag, sé að jafnaði einn af stærstu dögum ársins. Reikna megi með því að 250-280 þúsund lítrar í dag og fjöldi viðskiptavina í kringum fjörutíu þúsund.

Freyðivín og kampavín njóta mikilla vinsælda í kringum áramót. Í fyrra seldust tæplega 59 þúsund lítrar í desember. Til samanburðar var salan 35 þúsund lítrar til og með 28. desember. Það er örlítið meiri sala en á sama tíma í fyrra og því ljóst að búbblurnar verða víða annað kvöld líkt og undanfarin ár.

Reikna má þó með því að partýhald verði með takmarkaðri hætti í ár enda tuttugu manna samkomubann í landinu, tveggja metra regla og nýgengi smita hefur aldrei verið hærra hér á landi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×