Erlent

Reyndi að brjótast inn í kastala drottningar vopnaður lásboga

Árni Sæberg skrifar
Alls óvíst er hvað maðurinn hafði í hyggju.
Alls óvíst er hvað maðurinn hafði í hyggju. Martin Brewster/Getty

Nítján ára karlmaður frá Southampton hefur verið vistaður á geðheilbrigðisstofnun eftir að hann reyndi að brjótast inn í Windsor-kastala þar sem Elísabet Englandsdrottning dvelur yfir hátíðirnar. Hann var vopnaður lásboga.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir lögreglunni á stórlundúnasvæðinu að maðurinn hafi verið handtekinn klukkan 08:30 í morgun. Hann hafi verið stöðvaður aðeins örfáum augnablikum áður en hann komst inn á lóð hallarinnar og að hann hafi ekki komist inn í neinar byggingar.

Þá segir að í fórum mannsins hafi fundist lásbogi við líkamsleit og að hann sé nú kominn undir hendur geðheilbrigðisstarfsfólks.

Elísabet Englandsdrottning dvelur í Windsor-kastala yfir þessi jól, en kastalinn er um 35 kílómetra frá Buckingham-höll í London, þar sem hún býr. Venjulega dvelst drottningin þó í þriðju fasteigninni um jólin, í Sandringham í Norfolk. Vegna kórónuveirunnar þótti það þó ekki ráðlegt, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×