Frítíminn

Dagur í lífi Heiðu Bjargar: Langar að vera morgunhressa týpan en hefur lýst sig sigraða

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir er með þrjú ungmenni á heimilinu.
Heiða Björg Hilmisdóttir er með þrjú ungmenni á heimilinu.

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, á unglinga sem þarf ekki lengur að smyrja nesti fyrir, sem hún álítur mikinn lúxus. Hún segist ekki vera morgunhress og ef dagsverkin eru ekki skráð í dagatalið í símanum er hætt við því að hlutir gleymist.

07.30 Ég vakna yfirleitt um hálf átta til að fylgja með dætrum mínum inn í daginn, þær eru hinsvegar svo dásamlegir unglingar að mitt hlutverk er orðið frekar veigalítið á þessum tíma dags. Það er þá helst að minna á sundföt eða finna týnda peysu eða annað í þeim dúr en mér finnst það mikill lúxus að ekki þarf lengur að gera nesti þar sem hafragrautur er í boði sem morgunhressing í skólanum þeirra eins og í mörgum skólum í Reykjavík. Mig langar mjög mikið að vera morgunhressa týpan en ég hef lýst mig sigraða hvað það varðar. Þannig að ég skríð oftar en ekki aðeins upp í rúm aftur og fer yfir fréttamiðlana í símanum. Maðurinn minn færir mér gott kaffi og þegar sá bolli er hálfnaður og við búin að fara yfir verkaskiptingu okkar á barnavaktinni er ég tilbúin að fara út í daginn.

8.00 Þegar búið er að gefa kettinum að borða og setja út mat fyrir garðfuglana dríf ég mig í ræktina en þar æfi ég með frábærum konum sem er styrkjandi fyrir bæði líkama og sál. Hleyp inn og aftur út enda byrja flestir dagar á fundum klukkan 9 en mér finnst dásamlegt þegar ég hef aðeins lengri tíma til að taka á því. Ég er svo heppin að ég fæ oftast far með vinkonu niður í bæ þannig að ég get þá skellt á mig dagkremi og maskara á leiðinni í vinnuna. 

Heiða Björg með börnin þrjú á torgi Bríetar.

9.00 Þó dagskrá borgarfulltrúa sé oft mjög breytileg eru fundir ráða og nefnda í föstum skorðum og flesta daga byrja fundir klukkan 9. 

Ég kem hlaupandi inn á slaginu enda er ég almennt mjög tímabjartsýn manneskja, það er því mjög heppilegt fyrir mig hvað Reykjavík er þægileg borg til að búa í og það tekur stuttan tíma að skjótast á milli staða.

12.00 Ég nýti oft hádegismat til funda við fólk sem ég þarf að ná tali af en þrjú hádegi vikunnar eru samt bókuð allar vikur á fundum. Þannig ég verð að nýta hin þeim mun betur. Ég er mikil matarkona en hádegismatur er almennt einfaldur og ég borða oftast í mötuneytum borgarinnar eða nálægum veitingahúsum eins og á Hlemmi, Borg29 eða í Iðnó. 

Mér finnst líka frekar þægilegt að setjast á kaffihús og vinna þar á milli funda en starf okkar felst mjög mikið í því að svara póstum, skrifa greinar, umsagnir og stefnur. Við þurfum líka að lesa mjög mikið af gögnum sem oft endar á að vera eitthvað sem ég geri heima seinnipartinn eða um helgar.

13:00 Seinni almenni fundartími borgarinnar hefst klukkan 13 en þegar ég get reyni ég að ná að hitta þingflokk Samfylkingarinnar sem fundar á þessum tíma tvisvar í viku. Ég geng eftir dagbókinni minni í símanum og set þangað inn nánast allt sem ég þarf að muna að gera. Klippingar og afmæli geta gleymst ef þær rata ekki þarna inn. 

Núna eru jólasnúningar til dæmis ítekað í dagbók en ég er smá jólasveinn í desember, þrátt fyrir að skórinn sé ekki lengur út í glugga hjá krökkunum þá sé ég um að kaupa jólgjafir fyrir ömmur og afa og fleiri.

18:00 Ég kem oft heim uppúr sex og þá bíður Hrannar maðurinn minn eftir mér eða sækir mig ef hann er á bílnum. Þá eigum við okkar hamingjustund, förum yfir það sem á daginn hefur drifið, skipuleggjum það sem framundan er eða förum í stuttan göngutúr. Ég elda oftast og hann þvær þvottinn sem er kannski það tímafrekasta við að vera með þrjú ungmenni á heimilinu. Núna þarf að baka og skreyta og gera og græja ýmislegt fyrir jólin sem er skemmtilegt og ég er almennt með yfirumsjón með því öllu saman fyrir utan að skúra gólf sem hann sér alfarið um.

Hádegishittingur með Samfylkingarsystrunum Ellen Calmon og Dóru Magnúsdóttur.

20:00 Yngsta barnið okkar er Ísold 13 ára sem við erum svo lánsöm að nennir ennþá að vera með okkur á kvöldin. Ef hún mætti ráða myndum við spila og baka öll kvöld en undanfarið hefur það frekar verið að við kveikjum á jólamynd, pökkum inn eða gerum eitthvað jóla. Það er að segja þegar ég er heima sem ég reyni að vera þegar ég get en stundum teygist dagskráin inn á kvöldin. Stundum bætist Sólkatla mín 15 ára í hópinn en hún sér til þess að það er bakað allskonar dýrindi fyrir jólin. Þessi jól verðum við öll heima, Hilmir 23 ára sem býr hjá okkur og Særós 30 ára með sína fjölskyldu sem kemur frá Danmörku. Við hlökkum til að fá fyrsta barnabarnið sem er alveg að verða 1 árs en hann mun fá jólasveinabúning um leið og hann mætir í hús, það mun koma öllum í jólaskap.

Hrannar Björn Arnarson og Heiða Björg með barnabarnið Ara. 

23:00 Ég sofna öll kvöld útfrá lestri enda hef ég alltaf verið mikill lestrarhestur og ég les allskonar annað en vinnuskýrslur sem þó eru margar. Ég er alltaf að setja mér markmið um að fara snemma að sofa en með unglinga þá er það flóknara þar sem ég vil líka passa að þau fari að sofa á skikkanlegum tíma það tekst oft. en ég er ekki búin að gefast upp á því að fara fyrr að sofa.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×