Innherji

Heiðursverðlaun Innherja hlaut Þórður Magnússon

Ritstjórn Innherja skrifar
Þórður Magnússon veitti verðlaununum viðtöku á Viðskiptaverðlaunum Innherja í vikunni.
Þórður Magnússon veitti verðlaununum viðtöku á Viðskiptaverðlaunum Innherja í vikunni.

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, hlaut Heiðursverðlaun íslensks atvinnulífs á Viðskiptaverðlaunum Innherja og 1881 í vikunni.

Dómnefnd Innherja útnefndi Þórð vegna „áralangrar vinnu og raunar ævistarfs í þágu atvinnulífsins."

Þórður hafi um áratugaskeið fjárfest, rekið og byggt upp fyrirtæki og hafi varðað leiðina fyrir kynslóðirnar sem fylgdu í fótspor hans. „Hann er enn að, hefur óþrjótandi áhuga á nýsköpun og sér tækifæri þar sem aðrir sjá ógnir. Hann sér tækifæri í ungu fólki, djörfum hugmyndum, lýðfræðilegum breytum og lýðheilsu, svo dæmi séu nefnd."

Þórður veitti verðlaununum viðtöku á miðvikudaginn. Í rökstuðningi dómnefndar kom enn fremur fram að fingrafar hans væri víða í íslensku atvinnulífi. „Hann hefur marga fjöruna sopið, en með djúpu innsæi og þrautseigju hefur hann náð frábærum árangri á mörgum sviðum og aðlagast breyttum tímum."

Framsýnn og snjall viðskiptamaður

Dómnefnd Innherja rakti sögu Þórðar sem ungs og efnilegs markaðsstjóra fyrir ullar- og skinnavinnslu landans þegar vegur þeirrar greinar var hvað mestur, og þátt hans í að koma á mikilvægum viðskiptasamböndum beggja vegna Atlantsála. „Sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar nútímavæddi hann starfsemi hennar - eða þátímavæddi - áður en hann gekk til liðs við Eimskip þar sem gríðarlegt breytingarskeið var að hefjast. Gámavæðing og útskipting skipaflotans, samhliða flutningi félagsins í Sundahöfn og þar fram eftir götunum," segir í rökstuðningi dómnefndar.

Þórður kenndi markaðsfræði og alþjóðafjármálastjórnun, áður en hann réðst af fullum þunga í fjárfestingar í gegnum Eyri Invest, sem varð stór hluthafi í Marel og Össur á árunum 2004 og 2005. 

„Á undraverðan hátt lifði fjárfestingafélagið af fjármálahrunið 2008 þótt útlitið hafi verið dökkt um tíma. Með þrautseigju kom hann löskuðu skipi í land og hefur unnið marga sigra síðan."

Dómnefndin var sammála um að Þórður væri framsýnn og snjall viðskiptamaður sem væri hvergi nærri hættur eftir farsælan feril. „Hann horfir enn til hugverkadrifinna fyrirtækja, lyfjageirans og fyrirtækja sem vilja bæta heiminn, til að mynda Carbon Recycling og Saga Natura."

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×