Innherji

Arnar vínsali, Controlant, Sidekick Health, Brim og Örn í Akta hlutu Viðskiptaverðlaun Innherja og 1881

Ritstjórn Innherja skrifar
ollverd2

Arnar Sigurðsson í Sante, Controlant Viðskiptaverðlaunum Innherja 2021, sem haldin voru í kvöld á Hilton Nordic. Auk aðalverðlauna voru veitt viðskiptaverðlaun í fimm flokkum.

Kaupmaður ársins: Arnar Sigurðsson í Sante, fyrir að vera óþreytandi í baráttu sinni við að koma almenningi undan einokun ríkisins á sölu áfengis. Arnar á og rekur frönsku netverslunina Sante sem hefur lager á Íslandi og selur vín. „Af augljósum ástæðum er Arnar kaupmaðurinn með stóru K-i," segir í rökstuðningi dómnefndar en þar er honum lýst sem þrjóskum og glerhörðum töffara sem hefur staðið einn og óstuddur í baráttu sinni við að koma almenningi undan einokun ríkisins á verslun með áfengi. Hann hafi séð tækifæri í aldagömlum boðum og bönnum.

Arnar Sigurðsson vínsali.VÍSIR/VILHELM

„Ástríða kaupmannsins fyrir vörunum sem hann selur og afneitun á regluverki sem hvorki stenst tímans tönn né mætir síbreytilegum óskum frjálsra Íslendinga um vöruúrval fleygir honum yfir girðingarnar og hindranir og vörurnar lenda á endanum í fangi viðskiptavina. Líka á sunnudögum.”

Rokkstjarna ársins: Controlant, fyrir að hafa gegnt lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni Covid19 um allan heim. Markaðsvirði fyrirtækisins hefur ríflega fimmfaldast á einu ári.

Controlant þróaði hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast meðal annars með lyfjum í flutningi svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum.

„Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með íslensku sprotafyrirtæki leika lykilhlutverk í því að losa heimsbyggðina úr klóm heimsfaraldursins með vöktun á bóluefni Pfizer,” kemst einn dómnefndarmanna að orði.

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant. VÍSIR/VILHELM

Vöxtur Controlant, sem er að miklum meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta, hefur verið ævintýralegur og markaðsvirði fyrirtækisins liðlega fimmfaldast á einu ári. Þá hefur starfsmannafjöldinn margfaldast og stefnir í að vera um 300 talsins í árslok. Væntingar eru um að tekin verði enn stærri skref í uppbyggingu fyrirtækisins á komandi ári.

„Tíu ára þrotlaus vinna skilar sér svo í því að íslenskt fyrirtæki tekur þátt í að breyta og móta heimssöguna. Talandi um að vera rokkstjarna.”

Tækniundur ársins: Sidekick Health fyrir að skara fram úr í heilbrigðistækni sem bætir heilsu fólks með lífstílssjúkdóma. Fyrirtækið var stofnað árið 2014 og vinnur að því að þróa heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna lífsstílstengda sjúkdóma. Fyrirtækið hefur vaxið hratt síðustu misseri og starfsmannafjöldi þess margfaldast og er nú að nálgast 100 talsins, að stærstum hluta á Íslandi. Í rökstuðningi dómnefndar er nefnt að með aðstoð heilbrigðistækni, eins og þeirri sem Sidekick Health hefur þróað, sé hægt ná mun betri árangri og nýta betur dýrmætan tíma starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og eins þá gríðarlega fjármuni sem eru settir í málaflokkinn.

Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri Sidekick Health.VÍSIR/VILHELM

„Heilbrigðisþjónusta hefur verið seinni í að notfæra sér stafrænar lausnir í gegnum snjallsíma heldur en ýmsar aðrar atvinnugreinar. Sidekick Health hefur nú skipað sér sess á meðal fremstu fyrirtækja í þessum nýja iðnaði á alþjóðavísu og landað meðal annars samningum við stærstu lyfjarisa í heiminum,“ segir dómnefnd Innherja.

Spámaður ársins: Örn Þorsteinsson hjá Akta sjóðum fyrir að skila framúrskarandi ávöxtun fyrir sjóðsfélaga með greiningu og spám sem hafa hitt naglann á höfuðið.

Örn er framkvæmdastjóri og stærsti hluthafi Akta sjóða, hefur náð eftirtektarverðum árangri ásamt starfsmönnum sínum í að byggja upp gríðarlega verðmætt fyrirtæki úr litlu á örfáum árum.

„Örn hefur skilað framúrskarandi ávöxtun fyrir sjóðsfélaga og sjálfan sig með því að greina og spá rétt fyrir hvernig markaðurinn er að hreyfast hverju sinni,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar Innherja.

Örn Þorsteinsson hjá Akta sjóðum.

Eignir í stýringu Akta hafa liðlega fjórfaldast á minna en tveimur árum og námu um 60 milljörðum um mitt þetta ár. Útlit er fyrir að sumir sjóða félagsins, sem er stýrt af Erni, muni annað árið í röð skila sjóðsfélögum sínum hátt í 100 prósenta ávöxtun.

„Þetta hefur verið mögnuð vegferð hjá Erni og Akta sjóðum. Hann er búinn safna í kringum sig hæfileikaríku fólki og bara svo með´etta í þessum sjóðastýringarbransa. Allir vildu fara til Akta undir lok síðasta árs og byrjun þessa. Þetta er hans aðaláhugamál í lífinu og það gerir hann að trúverðugum sjóðstjóra,“ að mati eins dómnefndarmanns Innherja.

Samfélagsstjarna ársins: Sjávarútvegsfyrirtækið Brim fyrir víðtækan stuðning við íþróttir og æskulýðsstarf, slysavarna- og björgunarstarf, menningarstarf, nýsköpun og fræðslu.

Brim leggur mikla áherslu á fjárfestingar í innviðum og þjónustu samfélagsins, ekki síst í nærumhverfi sínu í kringum starfsstöðvar sínar í Reykjavík, á Akranesi, á Vopnafirði og í Hafnarfirði. Brim styður meðal annars við íþróttir og æskulýðsstarf, öflugt slysavarna- og björgunarstarf, menningarstarf og nýsköpun auk fræðslu tengda sjávarútvegsfræðum.

„Ég er ekki viss um að meðalmaðurinn átti sig á því hversu víðtækur stuðningur þessa félags hefur verið fyrir nærsamfélagið, til að mynda á Vopnafirði,” segir í rökstuðningi dómnefndar.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.Vísir/vilhelm

Stjórnanda og aðaleiganda Brims, Guðmundi Kristjánssyni, er þannig lýst sem annáluðum listunnanda.

„Brennandi áhugi hans og þekking á öllu sem viðkemur listum og menningu er aðdáunarverður. Marshall-húsið er skýrasta dæmi þess," kemur aukinheldur fram í áliti dómnefndar.

Brim er eigandi Marshallhússins, glæsilegrar listamiðstöðvar við athafnasvæði Brims í Reykjavík.

Þetta var mat dómnefndar Innherja sem byggir val sitt á tillögum frá tugum manna, stjórnendum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum víðs vegar að úr íslensku atvinnu- og viðskiptalífi.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×