Innherji

Viðskiptaverðlaun Innherja 2021: Skráning Íslandsbanka viðskipti ársins og Jón Sigurðsson í Stoðum viðskiptamaður ársins

Ritstjórn Innherja skrifar
vidskiptaverdl

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, hlaut titilinn viðskiptamaður ársins á Viðskiptaverðlaunum Innherja 2021, sem haldin voru í kvöld á Hilton Nordica.

Jón leiðir eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins sem á að baki afar viðburðarríkt og farsælt ár sem hefur skilað sér í ævintýralegri ávöxtun fyrir hluthafa félagsins.

Fátt gerist í íslensku viðskiptalífi nema með aðkomu Jóns og Stoða. Undir meðal hans forystu, sem stjórnarformaður Símans, var í haust klárað samkomulag um sölu á dótturfélaginu Mílu sem margir höfðu mátað sig við en enginn haft dug né þor til að framkvæma. Viðskiptin munu ekki aðeins búa til mikil verðmæti fyrir hluthafa heldur eru þau einnig mikilvægt skref í að auka þátttöku einkaaðila að nauðsynlegri innviðauppbyggingu og um leið að bæta samkeppnisumhverfið í fjarskiptaþjónustu.

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða.

Stoðir hafa verið í hlutabréfastöðum sínum í talsverðan tíma og sýnt mikinn stuðning við félögin – Símann, Kviku og Arion – sem á sinn þátt í því að þau eru í hópi hástökkvara þessa árs í Kauphöllinni. Jón var á meðal arkitektanna að samruna Kviku og TM, sem kláraðist á árinu og hefur skilað hluthöfum ríkulegri ávöxtun, og sem einn stærsti hluthafinn í Arion banka hafa Stoðir komið að uppbyggingu á nýju viðskiptamódeli sem hefur umbylt rekstri bankans á skömmum tíma.

Á árinu voru Stoðir einnig á meðal fjárfesta sem leiddu stofnun nýs lággjaldaflugfélags, Play, og framundan er næsta stóra atvinnugreinin, uppbygging laxeldis á landi.

Dómnefnd Innherja velur Jón sem viðskiptamann ársins fyrir stöðuga verðmætaaukningu í íslensku atvinnulífi með áhrifafjárfestingum Stoða. Þetta er verðmætaaukning sem verður ekki til af sjálfu sér heldur með úthugsaðri stefnumótun áður en Stoðir kaupa sig inn í félög.

Ríkið náði öllum sínum markmiðum í söluferli Íslandsbanka

Viðskipti ársins voru svo hlutafjárútboð og skráning Íslandsbanka á markað, en við verðlaununum tóku Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Sala ríkisins á 35 prósenta hlut í Íslandsbanka í gegnum almennt hlutafjárútboð og skráningu í Kauphöll skilaði meira en 55 milljörðum króna á tímum þegar fjárþörf ríkissjóðs var hvað mest.

Þrátt fyrir úrtöluraddir, bæði stjórnmálamanna og álitsgjafa, reyndist skráning bankans einstaklega vel tímasett og vandað var til verka á öllum stigum í þessu stærsta frumútboði sem hefur nokkurn tíma farið fram hér á landi. Jákvæð þróun á gengi hlutabréfa Íslandsbanka eftir skráningu þýðir að virði eftirstandandi hlutar ríkissjóðs er jafn mikið og allur eignarhluturinn fyrir útboð sem hefur því bætt til muna skuldahorfur ríkisins til næstu ára.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. VÍSIR/VILHELM

Sú ákvörðun að gefa almenningi kost á nokkurs konar forgangi í hlutafjárútboðinu skilaði sér í því að Íslandsbanki er í dag með fjölmennasta hluthafahóp allra skráðra félaga í Kauphöllinni. Salan var því ekki aðeins mikilvæg í átt að því markmiði að minnka áhættu ríkissjóðs af bankarekstri, samtímis því að hámarka endurheimtur hlutar síns, heldur einnig stórt skref í að endurreisa traust almennings á hlutabréfamörkuðum eftir fjármálaáfallið.

Viðskipti ársins að mati dómnefndar Innherja er því einkavæðing Íslandsbanka. Verkefnið reyndist skólabókardæmi um vel heppnaða framkvæmd, sem kallaði á pólitíska forystu og framsýni, þar sem seljandinn náði öllum sínum markmiðum.

Sérstök heiðursverðlaun íslensks atvinnulífshlaut svo Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, fyrir framlag sitt til íslensks atvinnulífs undanfarna áratugi. Nánar verður fjallað um afrek Þórðar síðar í vikunni.

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris investVÍSIR/VILHELM

Þetta var mat dómnefndar Innherja sem byggði val sitt á tillögum frá tugum manna, stjórnendum, fjárfestum og öðrum sérfræðingum víðs vegar að úr íslensku atvinnu- og viðskiptalífi.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×