Innherji

Erlendar eignir komnar yfir 35 prósent af eignasafni lífeyrissjóða

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Erlendar eignir lífeyrissjóða nema alls 2.334 milljörðum króna.
Erlendar eignir lífeyrissjóða nema alls 2.334 milljörðum króna.

Hlutfall erlendra eigna af heildareignum lífeyrissjóða nam 35,4 prósentum í lok október og hefur aldrei verið hærra. Þetta má lesa úr nýjum tölum Seðlabanka Íslands um fjárhag lífeyrissjóða.

Á aðeins rúmlega einu ári, eða frá því í september í fyrra, hafa erlendar eignir sjóðanna aukist um liðlega 500 milljarða. 

Eignir lífeyrissjóða námu samtals 6.589 milljörðum króna í lok mánaðarins, en þar af námu erlendar eignir 2.334 milljörðum. Hlutfall erlendra eignar hefur vaxið nokkuð hratt frá vorinu 2017 en þá var það ríflega 20 prósent.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í samtali við Innherja um miðjan nóvember að ekki væri útlit fyrir að breytingar yrðu gerðar strax í byrjun næsta árs til hækkunar á því 50 prósenta hámarki sem erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna mega vera sem hlutfall af heildareignum þeirra.

Hlutfall erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins – LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna – var um mitt þetta ár komið í liðlega 42 prósent.

„Ég held að við séum að horfa lengra fram í tímann,“ sagði Ásgeir þegar hann var spurður hvort til greina kæmi að hækka – eða jafnvel afnema – þetta lögbundna hámark á erlendar eignir lífeyrissjóðanna strax um næstu áramót.

Vísaði hann þar meðal annars til þess að það virtist erfitt að hækka fjárfestingarheimildir þeirra í erlendri mynt án þess að um leið væri kallað eftir heildarendurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Þar hefðu aðilar vinnumarkaðarins mjög ólíkar skoðanir.

Forsvarsmenn sumra af helstu lífeyrissjóðum landsins hafa á undanförnum mánuðum og misserum kallað eftir því að lögbundið hámark á erlendar fjárfestingar sjóðanna verði endurskoðað.Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.