Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna jólaskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Æ ætli ég sé ekki smá Grinch. Ég að minnsta kosti geri í því sjálf að kalla mig Grinch og þoli ekki þegar uppáhalds útvarpsstöðin mín fer yfir í að spila bara jólalög, allt of snemma fyrir minn smekk. Mér finnst mjög mikilvægt að muna að jólin eru hátíð, ekki árstíð haha!“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Það verður að vera fyrstu jólin hjá barninu mínu, ég held að það móment gleymist seint. En annars svona síðan ég var lítil þá var það þegar pabbi kom til okkar og við fjölskyldan bökuðum sænska kanilsnúða. Það er mjög ójólalegt þegar ég spái í því en kanilsnúðar eru jólabakkelsi fyrir mér. Svo fór mamma alltaf út að borða með okkur systur á Laugarveginum á Þorláksmessu og ég hef svona reynt að halda í þá hefð.“

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Hmm ég hef nú fengið þær margar fallegar og góðar; fallega eyrnalokkar og hálsmen sem mér þykir afar vænt um, þyrluflug og svona ýmislegt. En eftirminnilegasta gjöfin er kannski líka sú vandræðalegasta. Það var þegar ég opnaði eitthvað ROSA nærfatasett sem unglingur fyrir framan alla fjölskylduna og minnir að amma hafi líka verið þarna og bara allir.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Áfengi. Ég er ekki mikið fyrir það verður að segjast.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Heyrðu ég bjó til nýja hefð fyrir ári síðan og var að halda árlegan JólaDan í annað skiptið. Það er mögulega skemmtilegasta jólaboð í heimi. Annars er heitt kakó hjá ömmu og afa stráksins míns á jóladagsmorgun ofsalega kósý. Svo er möst að hafa snigla í forrétt á aðfangadag. Það er eitthvað sem ég er alin upp við og hefur alltaf verið gert og ég held fast í þá hefð.“
Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
„2000 Miles með Pretenders eða Coldplay.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„Holiday og Love actually svo er Just Friends reyndar líka ofarlega á lista.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Snigla í forrétt og svo hamborgarhrygg í aðalrétt með heimsins besta eplasalati og ís í eftirrétt.“
Hvað óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Úff, það er bara góð spurning. Það er eiginlega ekkert þannig séð á óskalistanum en einhver skemmtileg upplifun myndi alltaf slá í gegn.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Ætli það sé ekki þegar ég set upp seríur og tréð, sem er afar seint viðurkenni ég. En þá mega þau loksins koma blessuð jólin.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Fullt af samveru með vinum og fjölskyldu, bakstur, tónleikar og allskonar skemmtilegt.“