Umræðan

Af háum hesti: Ekki nóg að vera gömul hetja

Brynjar Níelsson skrifar

Það er ekki nóg að vera gömul hetja á Old Trafford, og krúttlegur að auki, til að halda starfi þar. Það hefði ekki dugað honum heldur að vera fjallmyndarlegur læknir og mæta bara í drottningarviðtöl. Í Manchesterborg eru gerðar kröfur um árangur.

Sama gamla liðið

Það sama verður ekki sagt um Reykjavíkurborg. Þar er sami stjórinn endurráðinn aftur og aftur þrátt fyrir að falla um deild eftir hvert kjörtímabil. 

Með sama áframhaldi mun Reykjavíkurborg enda utan deilda eða jafnvel spila bara í firmakeppni. 

Reykjavikurborg er lýsandi dæmi um að miklar tekjur og lántökur eru ekki ávísun á árangur. Og með allan þennan pening hefur Reykvíkingum ekki lánast að fá til liðs við sig bestu leikmennina. Sama gamla liðið skal það vera. Þetta er eins og að Bobby Charlton, Georgs Best og Nobby Stiles væru enn að spila með Man United.

Stjórinn í Reykjavíkurborg safnar í klúbbinn alls konar jaðarfólki sem enginn annar myndi fela ábyrgðarstörf. Þá er veldisvöxtur í fjölda starfsmanna en þrátt fyrir það er þjónusta við borgarbúa heldur lakari en í nágrannasveitarfélögum. Húsnæði í eigu borgarinnar drabbast niður og myglar. 

Í göngufæri við Ráðhúsið

Allar framkvæmdir á vegum borgarinnar snúast um að þrengja götur svo enginn komist ferða sinna með góðu móti og planta rándýrum stráum og pálmatrjám hist og her um borgina. Þar sem ekki er hægt að þrengja götur meira eru sett upp gangbrautarljós með hundrað metra millibili til að tefja umferðina enn meira. Og til að bæta um betur er umferðarhraði lækkaður niður í gönguhraða. 

Það skiptir ekki stjórann og klíkuna í kringum hann nokkru máli. Þau búa öll í göngufæri við Ráðhúsið.

Áhangendur og eldheitir stuðningsmenn Reykjavíkurborgar horfa á öflug fyrirtæki og trausta útsvarsgreiðendur flýja í önnur lið. Þess er sérstaklega gætt að skipuleggja ekki nýjar lóðir undir íbúðir og einu íbúðirnar sem rísa hefur verið troðið í bakgarðinn hjá næsta manni. 

Svo er öðrum kennt um hærra íbúðaverð sem stjórnvöld borgarinnar nýta sér, ekki aðeins til að hækka fasteignamatið heldur einnig til endurmats á eignum Félagsbústaða. Með því er lappað upp á reikninga borgarinnar með hreinni froðu.

Landsbyggðarpakkið á ekkert erindi í Druslugöngur

Þá fer mikil orka í að tryggja að íbúar á landsbyggðinni komist ekki hratt og örugglega til höfuðborgarinnar til að sækja heilbrigðisþjónustu, eiga erindi við stjórvöld eða sækja viðburði sem hvergi annars staðar er í boði. 

Landsbyggðarpakkið á auðvitað ekkert erindi í Druslugöngur og hinsegin daga góða fólksins. Það getur bara verið heima hjá sér með sína hallærislegu fiskidaga og dönsku daga, svo ekki sé talað um færeysku dagana.

 Getur verið afskaplega íþyngjandi og leiðinlegt að stjórna höfuðborginni.

Rómantískir sveimhugar í Reykjavík

Tími rómantískra sveimhuga við stjórn Reykjavíkur, sem enga virðingu bera fyrir stuðningsmönnum sínum og líta á þá sem ótæmandi auðlind, þarf að líða undir lok ef árangur á að nást. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á skattpínda og skuldsetta stuðningsmenn horfa á liðið falla um deild á hverju kjörtímabili. 

Nú hlýtur að koma tími traustra íhaldsmanna með eitthvað vit á rekstri og skipulagsmálum. Annars mun Reykjavíkurborg enda sem firmalið, sem eingöngu er skipað heimilislausum leikmönnum.

Þessi pistill er kannski ekki að öllu leyti sanngjarn gagnvart stjórunum í Reykjavík. Hann ber þess merki að vera skrifaður af úrillum, sjálfhverfum og tapsárum manni, sem hafnað var af stuðningsmönnum Reykjavíkur. Kannski er samt heilmikill sannleikur í þessu hjá kallinum.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Pistlar hans verða reglulegir á Innherja.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×