Umræðan

Heildstæð nálgun í kjaraviðræðum óskast

Hildur Sverrisdóttir skrifar

Það líður að kjarasamningagerð og samtalið um forsendur komandi samninga er hafið með aðsendum greinum og yfirlýsingum hagsmunaðila.

Næstu mánuðir munu einkennast af kröfum úr öllum áttum og reiptogi um það hvað sé hægt og hvað sé ekki hægt. Formannaráð BSRB sendi m.a. frá sér ályktun fyrir helgi þar sem félagið kveður leiðina út úr heimsfaraldrinum vera „verulega auknar fjárveitingar til almannaþjónustunnar“.

Það er ýmislegt í þessari nálgun sem vekur umhugsun. Kjarasamningar eru svo sem aldrei eins en það má alveg færa rök fyrir því að þeir sem framundan eru séu óvenjulegir. Ríkissjóður er rekinn með miklum halla og verður í fyrirsjáanlegri framtíð, verðbólga er á uppleið knúin áfram af hækkandi fasteignaverði, verðhækkunum erlendis og hækkandi launakostnaði í miklum efnahagssamdrætti.

Nú er útlit fyrir að fyrirtækjaeigendur þurfi að bæta hagvaxtarauka við launahækkanir næsta vor, launaauka sem ætlaður var sem nýtt tæki í lífskjarasamningunum til að tryggja launþegum sanngjarnan hlut af hagvexti.

Það datt engum í hug við gerð samninganna að heimsfaraldurs biði handan við hornið eða að hagvöxtur yrði í formi viðspyrnu upp úr gríðarlegum samdrætti vegna hans. 

Þjóðhagsspá Seðlabankans gerir vissulega ráð fyrir 4% hagvexti á þessu ári eftir 6,5% samdrátt árið 2020. Landsframleiðsla nú er þó ekki meiri en árið 2019 þegar lífskjarasamningarnir voru gerðir og því má segja að þrátt fyrir aukinn hagvöxt í kjölfar samdráttar sé ekkert góðæri í raun nú til staðar til að eiga hlutdeild í. Þetta er erfið staða.

Viðkvæmt samspil

Vafalaust eru þau til fyrirtækin sem ráða við slíkar launahækkanir en það er vitað mál að fjöldinn allur er í kröggum eftir þrengingar síðustu tveggja ára. Eins og við þekkjum úr sögunni eru leiðirnar til að bregðast við launahækkunum sem ekki er innistæða fyrir að hækka vöruverð, skerða þjónustu, fækka starfsfólki eða leggja upp laupana. Þetta eru þekkt þemu sem ekki er skynsamlegt að skella skollaeyrum við.

Það er eins og það sé lítill áhugi á að ræða það að opinber þjónusta, skattheimta, laun og rekstur fyrirtækja eru viðkvæmt samspil sem allt hefur áhrif hvert á annað.

Almannaþjónustan verður betri með sterku efnahagslífi

Almannaþjónustan er einn af hornsteinum nútímasamfélags. En stórkostleg aukning á opinberum útgjöldum í stað þess að horfa til þess hvernig fjármagnið til þess fæst verður aldrei til annars en að gera stöðu ríkissjóðs enn verri, sem á endanum kemur niður á samfélaginu og þar með almannaþjónustunni. Þau sem reka fyrirtæki og stjórna opinberum stofnunum hafa ríkan hag af því að starfsfólk sé ánægt og geti lifað góðu lífi af laununum sínum.

Launahækkanir án tillits til framleiðni eða hvort efni standa til skila hins vegar litlu nema verðbólgu og versnandi stöðu efnahagslífsins. Efnahagslíf sem staðnar í samdrætti, álögum eða óraunsæjum launahækkunum getur ekki staðið undir mikilvægri almannaþjónustu.

Öll í sama báti

Ef einhverntíma hefur verið stund til að horfa yfirvegað yfir sviðið þá er það nú. Það á auðvitað við um alla samningsaðila; stéttarfélögin, hið opinbera og atvinnulífið. Við erum nefnilega öll í sama báti og höfum gríðarlegan hag af því að halda bátnum á öruggri siglingu svo samfélagið komist út úr heimsfaraldrinum án þess að nokkur detti útbyrðis.

Hefðbundið reiptog á óvenjulegum tímum

Þess vegna eru það vonbrigði að hugmyndirnar sem koma fram við upphaf þessa mjög svo mikilvæga samtals hljómi dálítið eins og síðustu þrjú ár hafi ekki átt sér stað; blindar prósentuhækkanir og aukin útgjöld, án þess að tilefni, samhengi, heildarhagsmunir eða afleiðingar séu tekin með í reikninginn. Það er óskandi að þessi fyrstu leiðarstef séu fyrst og fremst leið hagsmunaaðila til að koma kröfum sínum afgerandi á framfæri og vel hægt að bera virðingu fyrir því. En það er vonandi að þessar þreifingar þróist á næstu mánuðum í uppbyggilegt samtal heildarsamhengis samfélagsins alls.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×