Körfubolti

Bað um símanúmerið en fékk sitt fyrsta bann

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James gengur af velli eftir að hafa verið vísað í burtu fyrir brotið á Isaiah Stewart.
LeBron James gengur af velli eftir að hafa verið vísað í burtu fyrir brotið á Isaiah Stewart. AP Photo/Carlos Osorio

LeBron James verður í leikbanni í kvöld, í fyrsta sinn á 19 ára ferli sínum sem körfuboltamaður, þegar Los Angeles Lakers mæta liði New York Knicks á útivelli í NBA-deildinni.

James var í gær úrskurðaður í eins leiks bann vegna höggsins sem hann veitti Isaiah Stewart í baráttu um frákast, í sigri Lakers gegn Detroit Pistons í fyrrakvöld.

Stewart varð óður við höggið, ekki síst eftir að blóð fór að leka niður andlit hans vegna skurðar við hægra auga, og reyndi ítrekað að ná til James til að svara fyrir sig en var stöðvaður. Stewart var úrskurðaður í tveggja leikja bann.

Samkvæmt frétt The Athletic reyndi LeBron James að biðjast afsökunar á vellinum, strax eftir atvikið. Hann mun svo hafa reynt að fá símanúmerið hjá Stewart í því skyni að hringja í hann og biðjast afsökunar, og til að láta vita að ekki hafi verið um vísvitandi högg í andlitið að ræða.

Tíu leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt. Kevin Durant skoraði 27 stig þegar Brooklyn Nets styrktu stöðu sína á toppi austurdeildar með 117-112 sigri á Cleveland Cavaliers.

Ja Morant skoraði 32 stig í öflugum sigri Memphis Grizzlies á Utah Jazz á útivelli, 119-118, þar sem Jaren Jackson tryggði sigurinn með þriggja stiga körfu fimm sekúndum fyrir leikslok.

  • Úrslitin í nótt:
  • Cleveland 112-117 Brooklyn
  • Washington 103-109 Charlotte
  • Atlanta 113-101 Oklahoma
  • Boston 108-90 Houston
  • Chicago 77-109 Indiana
  • Milwaukee 123-92 Orlando
  • New Orleans 96-110 Minnesota
  • San Antonio 111-115 Phoenix
  • Utah 118-119 Memphis
  • Sacramento 94-102 Philadelphia
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×