Innherji

HBO segist vilja koma til Íslands fái Framsókn sínu framgengt

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Jay Roewe, einn aðstoðarforstjóra HBO.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Jay Roewe, einn aðstoðarforstjóra HBO.

Í bréfi sem íslenskum stjórnvöldum barst í síðasta mánuði lýsir sjónvarpsstöðin og streymisveitan HBO yfir áhuga á því að taka upp heilu verkefnin á Íslandi. Til að svo verði, þarf hins vegar að verða af kosningaloforðum Framsóknarflokksins um að hækka hlutfall endurgreiðslu á sjónvarps- og kvikmyndaverkefni sem tekin eru á Íslandi. Framsóknarmenn ætla að halda málinu til streitu við gerð stjórnarsáttmála, en fjármálaráðherra hefur sagt hugmyndina óraunhæfa.

Undir bréfið, sem barst þann 15. október síðastliðinn, skrifar Jay Roewe sem er einn aðstoðarforstjóra HBO. HBO er svo í eigu Warner Bros. Discovery.

Sjálfstæðisflokknum hugnast hugmyndin illa

Bréfið er stílað á Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Framleiðendur kvikmynda- eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga nú þegar kost á endurgreiðslum á allt að 25 prósent af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Endurgreiðslurnar voru hækkaðar úr 20 prósent í 25 prósent í byrjun árs 2017.  Framsóknarflokkurinn gerði það svo að stefnumáli í nýliðinni kosningabaráttu að auka endurgreiðsluhlutfallið hér á landi í 35 prósent. 

Stjórnarflokkana greindi hins vegar á um þetta stefnumál í aðdraganda kosninga, en formaður Sjálfstæðisflokksins sagði aðspurður í Dagmálum Morgunblaðsins að hugmyndir Framsóknarmanna um endurgreiðslur úr ríkissjóði upp á tugmilljarða væru óraunhæfar.

Áhersla lögð á málið í stjórnarsáttmála

Að sögn Lilju, er mikil áhersla lögð á að þetta tiltekna atriði komi fram í stjórnarsáttmála sem kunnugir segja að von sé á öðru hvoru megin við helgi. 

„Þetta er fagnaðarefni," segir Lilja um bréfaskriftir Roewes. „Þetta er atvinnuskapandi og við viljum auka veg íslenskrar kvikmyndagerðar í samræmi við Kvikmyndastefnu til 2030. Þessu fylgja líka auknar gjaldeyrisstekjur og styrkir hugverkadrifið hagkerfi," útskýrir hún.

„Ungt fólk sýnir kvikmyndaiðnaði líka mikinn áhuga og það gleður mig alltaf þegar ný og spennandi störf verða til á Íslandi."

Í bréfinu tiltekur aðstoðarforstjórinn enn fremur að HBO og Warner Brothers myndu íhuga alvarlega að skjóta heilu verkefnin á Íslandi að því gefnu að endurgreiðsluhlutfallið myndi hækka í 35 prósent. Þá tekur hann fram að verkefnin yrðu lengri og stærri í sniðum og myndu skapa heilsársstörf í greininni hér á landi auk þess sem verðmæt þekking yrði eftir í landinu. 

Skurðpunktur milli hins skapandi og þess fjárhagslega

Jay Roewe þessi var í sumar til viðtals í tímariti útskrifaðra nemenda úr Boston University, Bostonia. Þar er starfi hans innan HBO lýst sem eins konar skurðpunkti á milli skapandi ákvarðana og fjárhagslegra í gerð kvikmynda- og sjónvarpsefnis.

Þannig liðsinnir hann framleiðendum þáttaraða, og nefnd eru dæmi á borð við Curb Your Enthusiasm og Westworld, og finnur þáttaröðunum hinn fullkomna tökustað - með tilliti til listarinnar en ekki síður þess praktíska. Það er að segja, hversu mikið HBO fær endurgreitt af framleiðslukostnaði úr sjóðum skattgreiðenda í því landi sem um ræðir. 


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.